Kvikmyndafræðinemar Háskóla Íslands um fyrirhugaða lokun Bíó Paradísar.

Þær fréttir bárust rétt fyrir síðustu mánaðarmót að Bíó Paradís hefði sagt upp öllu starfsfólki sínu og myndi að óbreyttu loka 1. maí. Að baki liggja ýmsar ástæður, þar á meðal að leigusamningur bíósins rennur þá út og reksturinn hefur ekki svigrúm til að bregðast við þeirri hækkun leiguverðs sem við blasti. Enda hefur rekstur Bíó Paradísar oft verið erfiður, einkum þó í fyrstu. Síðustu ár hefur þó allt horft til betri vegar, gestum fjölgar ár frá ári og 2019 sló öll fyrri met. Aðstandendur hafa jafnframt verið afskaplega útsjónarsamir þegar að dagskrármótun kemur og hafa markvisst fundið leiðir til að breikka markhópinn. Má þar nefna þrjúsýningar á sunnudögum á klassískum fjölskyldumyndum, beinar útsendingar frá Borgarleikhúsi Lundúna, tíðar sýningar á pólskum myndum, Föstudagspartísýningarnar og „sing-a-long“ og prjónasýningar.

Bíó Paradís hefur þurft að reiða sig á stuðning hins opinbera, líkt og flestar aðrar menningarstofnanir í landinu, og hefur alltaf þraukað þótt þessi stuðningur hafi frá upphafi verið skorinn við nögl, þökk sé framúrskarandi starfi á borð við það sem lýst er hér að ofan. En nú er sá tími liðinn. Og auðvitað var aldrei hægt að treysta á það til langframa að hagstæðir samningar sem náðust í kjölfar hrunsins yrðu einhver burðarstólpi í rekstri af þessu tagi. Dagur B. Eggertsson og Lilja Alfreðsdóttir þurfa að taka ákvörðun. Hvernig menningarborg er Reykjavík og hvaða menningarstig þrífst á Íslandi? Ef þau svara bæði á sama veg, að við getum einfaldlega ekki staðið undir listabíói í höfuðborginni, nú þá vitum við það. Og förum kannski í kjölfarið að athuga hvort danska krúnan hafi einhvern áhuga á að taka við þessari ræflaþjóð aftur. En ég hef enga trú á því að sú verði útkoman. Listabíó eru rekin í öllum höfuðborgum í þeim heimshluta sem við tilheyrum og kvikmyndalistin er svo sannarlega ekki listform á undanhaldi, vægi myndmiðla verður meira ár frá ári.

Um vægi og gildi Bíó Paradísar skrifaði ég hér á Hugrás þegar fréttirnar fyrst bárust, en dálítið sérstök hlið á málinu blasti líka við mér sem kvikmyndafræðikennara. Það var raunar í kennslustund á mánudagsmorgni sem mér bárust fréttirnar og þær komu frá nemendum. Mér brá auðvitað en auðsætt var sömuleiðis að allur nemendahópurinn var í uppnámi, og eftir dálitla stund, alveg bálreiður. Þessi upplifun endurtók sig í öðrum kennslustundum dagsins, og vikunnar. Öldurnar hefur heldur ekki lægt, og þegar Rýnirinn, nemendafélag kvikmyndafræðinnar, kom til máls við mig um að nemendur vildu tjá sig um þetta yfirvofandi stóráfall var fyrsta skrefið stigið að þessum pistli, sem sjálfur er auðvitað bara liður í þeirri stórfelldri mótmælaöldu gegn fráhvarfi Paradísar sem nú má sjá út um allt, í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og dagblöðum. En þetta finnst kvikmyndafræðinemum um fyrirhugaða lokun Bíó Paradísar:

 

Nikulás Tumi Hlynsson

„.Bíó Paradís stendur fyrir ást Íslendinga á kvikmyndum, bíóið táknar kvikmyndamenningu sem nær víðar en sem nemur nýjustu Hollywood framleiðslunni og það táknar að fjölbreyttar kvikmyndir geta lifað farsælu lífi þrátt fyrir að vera meira en eins vetra gamlar.“

Í gegnum árin hafa kvikmyndaunnendur átt griðarstað á Hverfisgötu 52, í húsi sem kallast Bíó Paradís, sannkölluðu „heimili kvikmyndanna“. Paradís er eina kvikmyndahús landsins sem sýnir myndir úr heimsbíóinu og það er líka eina bíóið sem sýnir eldri myndir, hvort sem þar er um gleymdar perlur að ræða eða helstu afrek kvikmyndasögunnar.

Það er alltaf gaman að fara í bíó en ekkert jafnast á við að ganga inn í Paradís. Stemningin þar er engu lík, og þannig hefur það alltaf verið. Allt vinnur saman en ekki síst eru það plakötin frá Svörtum sunnudögum sem skreyta nú veggi, súlur og aðra fleti innanhúss sem skipta máli og  ljá staðnum fegurð, húmor og djúpstætt kvikmyndalegt andrúmsloft. Mörg lönd hafa svokallaða „plakatamenningu“, en það þýðir að ekki er aðeins notast við plakötin sem upprunalega fylgja tiltekinni kvikmynd heldur eru þessar umbúðir endurnýjaðar með því að fela listamönnum sem að öðru leyti tengjast myndunum ekki neitt það hlutverk að hanna „ný“ plaköt. Í þessari vinnu hafa listamennirnir sína eigin túlkun á myndinni að leiðarljósi. Pólland er til að mynda sérstaklega þekkt fyrir öfluga plakatamenningu af þessu tagi en hún hafði lítið gert vart við sig hér á landi þar til Svartir sunnudagar tóku að gera einmitt þetta, fá spennandi og ferska listamenn til að hanna og skapa ný plaköt fyrir myndirnar sem teknar voru til sýninga í sunnudagsröðinni. Nýtt plakat fyrir hverja mynd og sýningu. Fyrir utan að vera flott og skemmtilegt felur plakatamenning af þessu tagi í sér tækifæri til að skapa nýja þjóðarhefð umhverfis erlendar myndir. Í meðförum listamannanna sem plakötin gera eru mikilvæg tákn kvikmyndanna sjálfra „þýddr“ inn í íslenskt menningarsamhengi. Svörtum sunnudögum tókst að skapa yndislega og ríka plakatamenningu á Íslandi og plakötin frá þeim, sem þekja suma veggi bíósins eins og veggfóður, fanga ekki aðeins inntak og gildi Svartra sunnudaga sjálfra heldur líka gildi Paradísar. Bíó Paradís stendur fyrir ást Íslendinga á kvikmyndum, bíóið táknar kvikmyndamenningu sem nær víðar en sem nemur nýjustu Hollywood framleiðslunni og það táknar að fjölbreyttar kvikmyndir geta lifað farsælu lífi þrátt fyrir að vera meira en eins vetra gamlar.

Ef við missum Bíó Paradís töpum við kvikmyndamenningu landsins, töpum eina staðnum sem fangar ást þjóðarinnar á miðlinum. Paradís er listastofnun sem gerir hluti sem öðrum bíóhúsum tekst engan veginn að gera, í höndum Paradísar er varðveisla hinnar einu sönnu kvikmyndamenningar á Íslandi. Þess vegna er mikilvægt að yfirvöld grípi inní og verndi þennan dásamlega stað.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

„Nú stendur til að loka Bíó Paradís og þá spyr ég ykkur hvert eigum við rugludallarnir að flykkjast þá? Það er verið að svipta íslensku þjóðina hjarta menningar okkar og við erum reið.“

Tilhugsunin um lokun á kvikmyndahúsinu Bíó Paradís olli ekki aðeins usla meðal kvikmyndaunnenda heldur einnig meðal allra menningarunnenda á Íslandi. Fjöldi fólks hópast reglulega saman og hittist í hjarta bæjarins, Bíó Paradís, og ekki aðeins til þess að horfa á kvikmyndir heldur sækir fólk einnig í rómantíkina og nostalgíuna sem fylgir bíóinu.

Bíó Paradís er rekið í húsnæði gamla Regnbogans og er þannig elsta fjölsala kvikmyndahús landsins, til viðbótar við að vera mikilvæg menningarstofnun. Þar koma saman helstu rugludallar og hugsuðir landsins og rífast um kvikmyndir og list yfir bjór eða kók með lakkrísröri. Aðstaðan til slíks er líka frábær og er engu öðru bíó í Reykjavík sambærileg. Í rýminu er að finna ýmis falleg húsgögn frá í kringum 1960 í bland við önnur þægileg húsgögn eflaust fengin úr Góða hirðinum, plöntur standa víða og veggir skarta fallegum plakötum eftir hæfileikaríka listamenn. Húsnæðið er sjálft ekki síður mikilvægt þessari menningarstofnun og kvikmyndaúrvalið.) Í Bíó Paradís leggst allt á eitt við að skapa þá rómantísku stemmingu sem fólk sækir í.

Allir eru velkomnir í Bíó Paradís og þangað koma furðufuglar Íslands í sínu fínasta pússi rétt eins og karakter í bíómynd eða í náttfötunum sínum „sumir á sumir á sumir á bomsum, aðrir á aðrir á aðrir á flókum“ eins og Stuðmenn orðuðu það í Með allt á hreinu. Nú stendur til að loka Bíó Paradís og þá spyr ég ykkur hvert eigum við rugludallarnir að flykkjast þá? Það er verið að svipta íslensku þjóðina hjarta menningar okkar og við erum reið.

Silja Björk Björnsdóttir

„Bíó Paradís hefur verið samkomuhús fyrir unnendur kvikmynda, vagga stórra og smárra kvikmyndahátíða sem og burðarstólpi í uppbyggingu kvikmyndafræðasamfélagsins á Íslandi.“

Það eru ekki bara sorgarfréttir að heyra af fyrirhugaðri lokun Bíó Paradísar, heldur er það þungt högg í menningarlega ásjónu borgarinnar. Bíó Paradís gegnir ekki aðeins mikilvægu menningarlegu hlutverki í íslensku menningarlífi sem kvikmyndahús og listabíó heldur hýsir Hverfisgatan þungamiðju íslenska kvikmyndageirans, Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndasjóð Íslands. Það liggur því í augum uppi að fráhvarf Paradísarinnar úr miðbænum og reykvísku menningarlífi er ákaflega stór biti fyrir kvikmyndaunnendur að kyngja, þar sem kvikmyndahúsið hefur verið samkomuhús fyrir unnendur kvikmynda, vagga stórra og smárra kvikmyndahátíða sem og burðarstólpi í uppbyggingu kvikmyndafræðasamfélagsins á Íslandi. Stjórnvöld verða að bregðast við með einhverjum hætti og grípa í taumana, áður en fégráðugir einokarar hafa okkur að fíflum og umbreyta miðbænum í bílastæðakjallara fyrir keðjuhótel. Björgum Bíó Paradís!

Jón Þór Stefánsson

„vilji maður sjá eitthvað óvænt, framandi eða bara gott, þá er svarið einfaldlega í Bíó Paradís.“

Nú eru tvær vikur liðnar frá því að við vorum upplýst um fyrirhugaða lokun á Bíó Paradís. Hvort sem ég hef skoðað samfélagsmiðla, lesið fjölmiðla, hlustað eða talað við fólk, þá hafa viðbrögðin verið ansi skýr og áberandi… fólk vill halda bíóinu sínu.

Það er nefnilega afskaplega leiðinlegt að frétta af skipulögðu brotthvarfi fyrirbæris sem hefur veitt manni sjálfum og fólkinu í kringum mann mikla gleði. Ég veit að ég er ekki sá eini sem ber sterkar tilfinningar til Paradísar. Sumir tala meira að segja um bíóið sem heimili sitt. Staðinn þar sem því líður best.

Bíó Paradís er samt ekki bara samkomustaður, heldur stofnun með mikið menningarlegt mikilvægi. Í hinum kvikmyndahúsunum er sama gamla Hollywood-leðjan í sýningu allan liðlangan daginn og ef maður vill komast hjá henni, sjá eitthvað óvænt, framandi eða bara gott, þá er svarið einfaldlega í Bíó Paradís.

Á síðasta ári fór ég allnokkrum sinnum í bíó, bæði í Paradís og líka í önnur kvikmyndahús. Ef ég tel þær myndir sem mér þótti annaðhvort góðar, eða skemmtilegar, þá kemur áhugaverð niðurstaða í ljós. Annars vegar þótti mér ein mynd utan Bíó Paradísar standast þessar kröfur mínar. Hins vegar þyrfti fleiri fingur á hendur mínar ætlaði ég að telja gullmolana sem ég sá í Paradís á árinu. Mitt mat er einfalt, Bíó Paradís er lang besta kvikmyndahús landsins, og ég er langt frá því að vera einn á þeim vagni.

Orðið „sorglegt“ er frekar kraftlaust þegar að staður, sem er bæði annað heimili sumra og musteri menningar, á að hverfa vegna leiguverðs. Nú verða stjórnvöld að sanna að þau hati ekki menningu og grípa í taumana.

Harpa Hjartardóttir

„Þetta einstaka hús varð til svo kvikmyndaáhugafólk eins og ég gæti fengið að horfa á vel valdar myndir sem virkilega skipta máli.“

Án Bíó Paradís hefði ég ekki getað kynnst gullmolum eins og One Cut of the Dead. Þannig myndir eru aldrei sýndar í venjulegum bíóhúsum því þær eru ekki eins þekktar og bandarískar stórmyndir. Sambíóin byrjuðu ekki að sýna Parasite fyrr en hún vann Óskarinn sem besta mynd ársins. Ég fékk það gullna tækifæri að sjá hana í Bíó Paradís löngu áður en það gerðist. Það að myndir eins og Parasite þurfi að fá einhvers konar viðurkenningu frá stóriðnaðinum vestanhafs til þess að vera sýndar í almennum bíóhúsum er vægast sagt sorglegt. Bíó Paradís er einnig þekkt fyrir að sýna eldri myndir svo fólk geti séð þær á stóru bíótjaldi frekar en í sjónvarpi. Þetta einstaka hús varð til svo kvikmyndaáhugafólk eins og ég gæti fengið að horfa á vel valdar myndir sem virkilega skipta máli. Ég hef átt svo góðar stundir þarna og ég vil halda því áfram.

Hrafnkell Úlfur Ragnarsson

„Því þó að önnur bíó sýni einnig góðar kvikmyndir, þá er Bíó Paradís það eina sem sýnir minningar mínar um sig, og því er það að mínu mati verðug stofnun sem þarf að varðveita.“

Minningar úr Bíó Paradís.

Ein af þeim minningum sem orðið hafa til í Bíó Paradís er frá því þegar ég bauð yngri bróður mínum á rússnesku kvikmyndina Spegillinn (1975) eftir Andrei Tarkovsky. Bróðir minn er ekki mikill kvikmyndaáhugamaður og vissi hann líklega ekki alveg hvað hann var að koma sér út í. Myndin var mögnuð, og honum fannst það líka, þó að hann hafi átt erfitt með að tjá sig um hana því að hann hafði aldrei upplifað neitt slíkt áður. Ég man svo að hann spurði mig stuttu eftir sýninguna afhverju ég horfði svona mikið á kvikmyndir og ég svaraði honum með orðum François Truffaut: “Þrjár kvikmyndir á dag, þrjár bækur á viku og nokkrar góðar plötur af tónlist er nóg til að gera mig hamingjusaman það sem eftir er.” Svar mitt gerði hann djúpt hugsi, og virtist hann þá í fyrsta sinn skilja mig til fulls. Mér er einnig umhugað um orð Walter Benjamins um minni: „Tungumálið er órækur vitnisburður þess að minnið er ekki tæki til að kanna fortíðina, heldur leiksvið [lesist: bíó] hennar. Það er miðill hins lifaða á sama hátt og jarðríkið er miðillinn sem hinar dauðu borgir liggja grafnar í.” Því þó að önnur bíó sýni einnig góðar kvikmyndir, þá er Bíó Paradís það eina sem sýnir minningar mínar um sig, og því er það að mínu mati verðug stofnun sem þarf að varðveita.

Hrannar Már Ólínuson

„Bíó Paradís er hús menningar og við erum öll í hættu ef dyr þess lokast.“

Einsleit menning gerir menn óhjákvæmilega fáfróðari. Ef Ísland bíður einungis upp á meginstraumskvikmyndir, nýjasta hasarinn, sítuggna formúlu rómantísku gamanmyndarinar eða tuttugustu og þriðju ofurhetjumyndina, þá tapa Íslendingar aðgenginu að fjölbreyttri menningu.

Bíó Paradís er griðastaður fyrir kvikmyndir og elskendur kvikmyndalistarinnar hér á landi. Til að nefna örfá dæmi þá er Bíó Paradís eina kvikmyndahúsið sem hefur:

  1. boðið upp á fjölbreytileika í kvikmyndum á borð við pólskar kvikmyndir sem bæði víkka sjóndeildarhring Íslendinga og veita pólskum íbúum landsins afþreyingu á móðurmáli sínu
  2. staðið með reglubundnum hætti fyrir hátíðum á borð við Stockfish og RIFF
  3. leitast við að uppfæra kvikmyndareynsluna og gera hana að viðburði með skipulagri skemmtidagskrá eins og Föstudagspartísýningar eru frábært dæmi um, eða „Sing-a-long“ sýningarnar á Með allt á hreinu og stuðprjónasýningarnar á Stellu í orlofi.
  4. samtvinnað ákveðna safnvörslu í garð kvikmyndasögunnar og hugvíkkandi inngrip í vitundarlíf reykvískra bíógesta, en þannig myndi ég lýsa áralöngu starfi Svartra sunnudaga.

Fleira mætti auðvitað nefna, íslenskar kvikmyndir eru sýndar með enskum texta í bíóinu og þjónar þannig bæði erlendu fólki hvurs leið liggur hingað og þeim sem hér búa en hafa kannski ekki fullkomin tök á tungunni. Leiksýningar frá Borgarleikhúsi Lundúna eru sýndar í Bíó Paradís og svo fjölmargt annað. En mikilvægast er kannski að hvergi annarsstaðar getur hópur af vinum, með fjölbreyttan bakgrunn og áhuga, komið saman undir einu þaki og séð kvikmyndir sem tala til þeirra allra.

Bíó Paradís er hús menningar og við erum öll í hættu ef dyr þess lokast. Menningarstig þjóðarinnar lækkar, við erum að skaða börnin sem nú er of ung til að vita að þau eiga eftir að vaxa úr grasi sem kvikmyndaáhugamenn, og við erum sömuleiðis að skaða íslenska kvikmyndamenningu og íslenska kvikmyndagerð. Við erum að gengisfella Reykjavík sem menningarborg. Í þessu felst hættan.

Bob Cluness

„a direct fire needs to be lit under the feet of Bíó Paradís rapacious landlords and the apparatchiks of Reykjavíkurborg“

At the beginning of the last decade, I wrote the first of several missives for a blog about the slow but incessant creep of tourism, gentrification, and the takeover of Icelandic cultural life by a particularly neoliberal form of subjectivity. Icelandic culture is, and has been, for a long time reduced to that of branded content, either for ICELAND PLC, or for a variety of local banking, soft drinks, tech, or tourism conglomerates. Already back in 2013, the warning bells were ringing overtime regarding the perilous state of cultural spaces in Reykjavik.

In the intervening years, things have gotten worse as a mindset that can only be described as a mix of sub-Randian capitalist worship and twee McMindfullness has run rampant across the city. As a result, numerous venues for music and the arts have come and gone, while a litany of ugly and soulless residential and business developments spring up in their wake. Any diversity, outside that of a consensual-capitalist form of tourist „experience“, has been squeezed dry, as the life blood of the area has ebbed away. A pervasive pessimism and fatalism has now taken hold of many people who live in the area, as well as those who rely on the cultural spaces in the city for any chance to have their art seen or heard.

But the outpouring of shock and outrage from the public at the news of the possible immanent close of Bíó Paradís has come not a second too soon. The power and importance of independent cinema, or indeed having any space where some form of culture can just be without capitalist mediation, cannot be underestimated. You truly can’t place a value on having the access to cinema that exists outside of a homogenous mainstream that exists in the global North, be it underground films from LGBTQ+ and other marginalised communities, countries and film scenes from the global south, cult cinema from a variety of genres, or repertoire cinema that can unearth a groundswell of hidden histories of the medium. If that goes, then we are losing something that will be VERY difficult to ever replace back to what it was before.

The anger and vitriol towards the property owners Karl Mikli ehf, whose actions can only be described as a criminal shakedown of Bíó Paradís and the city to give it more money, is welcome – but alas it is not enough. The time for politeness and handwringing from us all is now surely past. A question should be asked of ourselves and various institutions of the city: We often talk about the importance of art and culture to society, but how much do we actually care of its material existence, and how far are we willing to go in the fight to save important cultural spaces? If your answer is „a lot“, then a direct fire needs to be lit under the feet of Bíó Paradís rapacious landlords and the apparatchiks of Reykjavíkurborg, we as other cultural institutions to take direct action to stop this closure. Because these incursions will not stop, unless we make it stop.

Artúr Suizev Guðnason

Það var ein heimsókn alveg sérstaklega í Bíó Paradís þar sem ég í raun áttaði mig á mikilvægi kvikmyndahússins fyrir fólk af erlendum uppruna. Þegar ég var á leið á kvikmyndasýningu eitt kvöldið þá mætti mér stór hópur af Pólverjum sem voru þá ný kominn af pólskri kvikmyndasýningu í Bíó Paradís, eflaust fullur salur. Ég sá ekki betur en að flestir væru niðursokknir í samræður og sömuleiðis var greinilegt að það ríkti almenn gleði og samheldni innan hópsins. Það er ekki mitt hlutverk að tjá mig fyrir hönd Pólverja á Íslandi, en ég er samt sem áður sjálfur af Austur-Evrópsku bergi brotinn og deili þar af leiðandi mörgum menningarkimum með Pólverjum. Ég geri mér því fulla grein fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir innflytjendur að geta sótt í „bita að heiman“. Rétt eins og alþjóðlegar matvöruverslanir þá gefur Bíó Paradís erlendu fólki tækifæri á því að sækja í menningu heimalanda sinna en þar að auki styðja þessar stofnanir fjölbreytileika í íslensku menningarlífi. Menningarhúsið Bíó Paradís er okkar helsti, og í raun eini, gluggi að menningarkvikmyndum erlendra þjóða. Við skulum ekki leyfa Bíó Paradís að hverfa frá okkur.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila