Það er ekkert lengur til!

Það hlýtur að teljast til tíðinda þegar hér á landi er sett á svið sci-fi leikrit. Verkið X eftir breska leikskáldið Alistair McDowall í þýðingu Jóns Atla Jónassonar var frumsýnt í síðustu viku á nýja sviði Borgarleikhússins.

Gunnlaugur Bjarnason fjallar um sýningu Borgarleikhússins á X.
Gunnlaugur Bjarnason fjallar um leikritið X sem sýnt er í Borgarleikhúsinu.

Leikritið segir frá fimm geimförum í (nálægri) framtíð – Ray (Bergur Þór Ingólfsson), Clark (Björn Stefánsson), Gilda (Sólveig Arnarsdóttir), Cole (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og Mattie (Þórunn Arna Kristjánsdóttir). Þau eru stödd á geimstöð við sporbaug Plútós, óravegu frá mannabyggð. Þegar leikritið byrjar hafa ekki borist nein boð frá jörðu í þrjár vikur og geimfararnir eru orðnir óþreyjufullir að komast heim. En ekkert gerist, tíminn líður, geimfararnir byrja að missa tímaskyn og tengsl við raunveruleikann, í hönd fer spenna og óhugnaður sem tekur á taugar áhorfenda.

 Ég vil fyrst nefna ljósahönnun Fjölnis Gíslasonar og hljóðmynd Þorbjarnar Steingrímssonar í þessu samhengi, samspil þeirra gerði það að verkum að áhorfendur kipptust við í sætum sínum af hræðslu. Það var raunar magnað að sjá hvernig leikurinn hreif áhorfendur merkjanlega með sér því það er ekki alltaf sem það gerist í leikhúsi. Lítið hlutverk Kríu Valgerðar Vignisdóttur setti svo punktinn yfir i-ið í hryllingnum.         

Frammistaða leikara var nokkuð misjöfn. Samtöl voru stundum stirð, sem getur skrifast á þýðinguna sem var sumstaðar full formleg í málfari, en líka á það að leikarar vildu greinilega koma öllum texta mjög skilmerkilega til skila þannig að flæðið varð um leið ögn stirðara. Mér fannst þau Bergur Þór og Þórunn Arna til að mynda heldur lengi í gang og skorta sannfæringu og ákveðni í sínum hlutverkum í upphafi.

Hlutverk rúðustrikaða vísindamannsins Cole, sem Sveinn Ólafur lék, fékk töluvert minni tíma á sviðinu heldur en aðrar persónur og áhorfendur fengu því mjög takmarkaða kynningu á honum. Þetta var raunar sameiginlegur galli með allar persónur verksins því að við fáum ekki að kynnast þeim mjög vel en það er ekki hægt að kenna leikurunum um það og þau vinna vel með takmarkaðan efniviðinn. Ég hef svo fulla trú á því að mögulegir leikhnökrar slípist til eftir því sem sýningum fjölgar og að flæðið batni. Una Þorleifsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, vinnur gott starf við að halda þræðinum í þessu krefjandi verki sem fer um víðan völl og fjallar hálft í hvoru um það að tapa öllum áttum.       

Það var þó ekki hægt að finna að túlkuninni á veigameiri hlutverkum sýningarinnar, þeim Gildu og Clark, sem Sólveig Arnarsdóttir og Björn Stefánsson leika. Sólveig er afar sannfærandi í hlutverki óöruggu vísindakonunnar og það kom mér á óvart að þessi persóna varð miðpunktur sýningarinnar þegar á leið en það heppnaðist afar vel. Sólveig hefur það umfram marga aðra leikara að hún hefur geysimikinn sviðsþokka. Hlutverk Björns, tæknimaðurinn Clark, virðist í upphafi einfaldur durtur og Björn átti ekki í neinum vandræðum með að skila því en þegar líða tók á verkið og öryggisleysið er farið að hafa allveruleg áhrif á geimfarana breytist Clark og við fáum að sjá fleiri hliðar á hans persónu. Leikur Björns og framsögn voru lipur og áreynslulaus  og samleikur hans og Sólveigar var afar góður.           

Sigríði Sunnu Reynisdóttur, sem sér um búninga og leikmynd, ber að hrósa sérstaklega. Geimstöðin sem hún byggir líkist einna helst afar leiðinlegri nútímalegri íbúð þar sem allir veggir eru gráir og minimalisminn ræður ( Leikmyndin kallast því vel á við það sem persóna Bergs Þórs, Ray, lætur hafa eftir sér í leikritinu – það er ekkert áþreifanlegt lengur til.

Fyrir miðri leikmynd er flennistór gluggi sem vísar beint út í svartnættið sem umlykur geimfarana. Glugginn gegndi mikilvægu hlutverki og mér varð hugsað til altaris í kirkju meðan á sýningunni stóð; geimfararnir eru í sífellu að biðja eftir svari frá jörðinni en eru líka farnir að sjá verur fyrir utan gluggann. Myrkar spegilmyndir geimfaranna í glugganum eru líka skemmtileg vísun í hrollvekjur og þá tvöföldun sem getur mætt okkur í speglinum. Ég er alveg viss um að það voru fleiri áhorfendur en ég sem horfðu á gluggann í þeim hlutum verksins sem voru sem mest hrollvekjandi, tilbúnir að öskra og spretta úr sætunum þegar og ef eitthvað birtist loksins á skjánum.           

Verkið tæpir á mörgum brýnum umfjöllunarefnum – vistdauða og náttúruvernd, kapítalisma, minnisleysi, tímaskyni, sjálfsímynd o.fl. Ég var orðinn ansi ringlaður undir lokin og höfundurinn skilur áhorfendur sína eftir með margar ósvaraðar spurningar. Við sumum hefði ég viljað fá svar, en ég veit að enginn getur svarað sumum þeirra með fullri vissu. Ég gekk því út úr leikhúsinu þetta kvöldið í næstum sama hugarfari og geimfararnir í upphafi verksins – með hugann á reiki og ekkert haldreipi til staðar.

Gunnlaugur Bjarnason, íslenskufræðingur og söngvari.