Í gærmorgun bárust þær fréttir að Bíó Paradís hefði sagt upp öllu starfsfólki og kvikmyndahúsinu yrði lokað frá og með 1. maí. Þetta er reiðarslag og áfall, og ef svo fer sem horfir glatar Reykjavík einu af sínum helstu menningarlegu kennileitum, kvikmyndaáhugafólk tapar eftirlætis viðverustað, og íslensk kvikmyndamenning og kvikmyndagerð missa eina sína helstu aflstöð.

Bíó Paradís opnaði dyrnar haustið 2010 og tveimur árum síðar tók núverandi framkvæmdarstjóri þess, Hrönn Sveinsdóttir, við starfi sínu. Í húsnæðinu sem þarna var tekið í notkun á nýjan leik hafði fyrsta fjölsala kvikmyndahús Reykjavíkur starfað um áratugaskeið, hinn sögufrægi og óstýriláti Regnbogi. Bíó Paradís hefur alla tíð verið rekið af sjálfseignarstofnunni Heimili kvikmyndanna, en stofnfélagar þess voru fagfélög kvikmyndagerðarmanna, Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Stockfish og Félag kvikmyndaunnenda. Það var ennfremur á fundum sem haldnir voru á vegum þess síðastnefnda skömmu eftir hrun sem hugmyndin um Bíó Paradís fæddist. En þannig hefur bíóið ávallt verið samstarfsvettvangur þeirra er koma að kvikmyndamálum í landinu. Þess utan hefur Bíó Paradís verið vettvangur fyrir allskonar starfsemi og viðburði og vegur þar kannski þyngst stuðningur þess við grasrótina í íslenskri kvikmyndagerð. Það er við Hverfisgötuna sem íslenskar myndir sem kunna að fara hljótt eru þó sýndar, og þangað liggur leið ungs kvikmyndagerðarfólks sem kemur að utan úr námi með flott útskriftarverkefni upp á arminn

Hnattræna kvikmyndin og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar

Hvar á samt að byrja þegar rætt er um mikilvægi þessa húss og þessarar starfsemi? Hægt væri auðvitað að minnast á öflugt samstarf bíósins við menntastofnanir í borginni, og þá rófið allt, rútur hafa reglulega keyrt niður Hverfisgötuna með leikskólabörn ýmist á leið á morgunsérsýningar í Bíó Paradís eða á viðburð á Alþjóðlegu barnakvikmyndahátiðinni sem þar hefur verið haldin lengi. Þá hefur Oddný Sen staðið fyrir kvikmyndafræðslu fyrir börn og unglinga um árabil og samstarf kvikmyndafræði Háskóla Íslands og Bíó Paradísar hefur verið farsælt. Það sem hér liggur undir er auðvitað ekki aðeins þjónustuhlutverk Bíó Paradísar við skóla og menntastofnanir heldur líka hitt, að í fyrsta skipti var stofnanalegt umhverfi til staðar um þróun kvikmyndakennslu og myndlæsis hjá ungu fólki. Með tilkomu samskiptamiðla og stafrænnar tækni hefur myndmiðlun af ýmsu tagi tekið stakkaskiptum. Ungt fólk er ekki aðeins neytendur heldur einnig framleiðendur myndefnis, og myndefnið sjálft hefur umbreyst í samskiptaform. Af þessum sökum hefur mikilvægi myndlesturs, kvikmyndarýni og ímyndatúlkunar aukist, og framlag Bíó Paradísar í þessu sambandi í senn gott veganesti út í snjallvædda veröld og skynsamleg leið til að hlúa að framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.

Kvöld í Bíó Paradís.
Kvöld í Bíó Paradís.

Framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar? Jú, staða og þróttur kvikmyndagerðar tengist kvikmyndamenningu í landinu býsna órjúfanlegum böndum. Íslensk kvikmyndagerð stendur afskaplega vel um þessar mundir og raunar hefur gangurinn á nýju árþúsundi verið undraverður. Fleiri myndir eru gerðar en nokkru sinni, margar skrambi góðar og þær ferðast víðar en áður tíðkaðist. Engu að síður mótast íslensk kvikmyndamenning ekki af íslenskum kvikmyndum, þær eru einfaldlega of fáar til að hafa verulega áhrif, heldur af þeim erlendu kvikmyndum sem hér eru sýndar eða eru á boðstólnum með öðrum hætti.

Þegar litið er til helstu dreifingaraðila landsins, Senu og Sambíóana, og kvikmyndahúsanna sem þessi fyrirtæki reka, blasa sannindi bæði gömul og ný við: Hér búum við í ríki Hollywood. Horfa verður í því samhengi til breytinga sem átt hafa sér stað í bandarískri kvikmyndaframleiðslu á síðustu árum: færri myndir eru gerðar en mikið dýrari, margar svo fjárfrekar að þær þarf að sýna nánast í öllum kvikmyndahúsum veraldar til að afkoman verði ásættanleg. Kvikmyndir sem njóta þurfa vinsælda ekki bara í heimalandinu eða heimaheimsálfunni heldur alls staðar, myndir sem þurfa að tröllríða gjörólíkum menningarheimum og áhorfendahópum, eiga sér ekki langa sögu. Á það bendir bandaríski kvikmyndafræðingurinn David Bordwell og færir rök fyrir því að um nýja kvikmyndategund sé í raun að ræða, „hnattrænu kvikmyndina“. Um þessar kvikmyndir er allt gott að segja, en skapalónið að baki framleiðslu þeirra er hins vegar gjörólíkt því sem grundvallar kvikmyndagerð alls staðar annars staðar í heiminum. Heimsbíóið svokallaða samanstendur af blómlegri og öflugri kvikmyndagerð ólíkra þjóðlanda um víða veröld. Fjölbreytnin sem þar er að finna er undursamleg og þrótturinn sömuleiðis. Markaðsbíóinu er sinnt eins og áður segir af Senu og Sambíóunum, og Myndformi að auki, en við rekstrarlok Bíós Paradísar er nánast verið að skrúfa fyrir allt hitt, loka á heimsbíóið.

Á valdi veldisefnis

Til vibótar við aukna áherslu Hollywood á fjárfestingafrekt veldisefni (e. franchise) á borð við Star Wars myndir, Harry Potter myndir og Marvel myndir – sem og það hvernig þessar myndir, þegar þær koma í kvikmyndahús, taka yfir borgina (frumsýndar í kannski þremur til fjórum bíóum, og jafnvel hátt í fimmtíu sýningar á hverjum degi) – bætist sú staðreynd að aðgengi almennings að kvikmyndum hefur almennt stórminnkað á nýju árþúsundi, einkum síðasta áratug. Fortíðin í formi kvikmyndasögunnar er utan seilingar á máta sem ekki hefur í raun sést í þrjátíu ár, eða síðan á öndverðum níunda áratug síðustu aldar. Stafræn miðlun myndefnis drap myndbandaleiguna, og með henni hvarf kvikmyndasafnið á horninu. Myndbandstækið er auðvitað löngu horfið en DVD og blu-ray spilarar eru líka orðnir fágætir munir. Hvað á svo sem að gera við slíkar græjur, er líka spurt, annað en að panta kvikmyndir til eignar frá útlöndum? Í staðinn fyrir myndbandaleiguna eru kvikmyndaáhorfendur undirseldir útreikningum og hagsmunum örfárra streymisveita, helst auðvitað Netflix, hvurs kvikmyndaúrval er svo takmarkað og sérviskulega kaldrifjað að manni fallast hendur. Sé ekki leitað á náðir torrenta og VPN svindls er kvikmyndaáhugamaðurinn á Íslandi fangi í nýtilkomnu tæknifangelsi, nær ekkert sem búið var til fyrir 1980 er í boði, og annað veltur á gæfu eða ógæfu streymisveitunnar í höfundarréttarsamningum.

Þýska stórvirkið Toni Erdmann eftir Maren Ade er dæmigerð fyrir verðlaunamyndirnar og lykilsamtímamyndirnar sem Bíó Paradís sýnir með reglulegum og markvissum hætti.
Þýska stórvirkið Toni Erdmann eftir Maren Ade er dæmigerð fyrir verðlaunamyndirnar og lykilsamtímamyndirnar sem Bíó Paradís sýnir með reglulegum og markvissum hætti.

Ætla má að fólk sem ákveður að helga sig kvikmyndagerð geri það af langvinni ástríðu fyrir forminu og miðlinum, og raunar er það persónuleg reynsla mín að um einstaklinga er gjarnan að ræða sem voru bíóhneigðir grúskarar og spekúlantar áður en þeir gerðust fagfólk. Fyrir utan almennt gildi þess að kynnast fjölbreytileika samtímakvikmyndamenningar og fjársjóðum fortíðarinnar í formi hefðarinnar þá er til þess að horfa að verkin sem nær öll kvikmyndahús borgarinnar hafa sérhæft sig í að sýna eru ólíkleg til að kallast með skapandi hætti á við innlenda strauma, þar er ekki samræða á ferðinni heldur einræða, Hollywoodmyndir bera mætti stórfyrirtækja fagurt vitni en þetta er ekki deiglan. Myndir sem búnar eru til í tölvum fyrir hafsjó af peningum og fjalla ýmist um galdradrengi sem bjarga heiminum eða fullvaxta karlmenn sem í litríkum en skrítnum fötum gera slíkt hið sama, þetta eru afskaplega sérhæfðar menningarafurðir svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Þarna liggur ofurmáttur bandaríska kvikmyndaiðnaðarins, svona framleiðsluævintýri eru öðrum þjóðarbíóum bókstaflega ómöguleg. Fjárhagslegt bolmagn skortir, sem og hið þaulskipulagða hnattræna dreifingarkerfi sem Hollywood kom á laggirnar í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar og hefur nært af kostgæfni allar götur síðan. En vont er að hugsa til þess að sú staða geti fræðilega komið upp að við næstu kynslóð bíóhneigðra ungmenna, og þar inn á milli næsta kynslóð kvikmyndagerðarfólks, blasi fátt annað en sú tegund af kvikmyndum sem einmitt verða aldrei gerðar á Íslandi, né heldur í Evrópu eða – í fyrirsjáanlegri framtíð – annars staðar í heiminum. Fjölmargt skilur á milli Ágústs Guðmundssonar, Kristínar Jóhannesdóttur, Friðriks Þórs Friðrikssonar, og Silju Hauksdóttur sem listamanna og leikstjóra. En það held ég að þau eigi öll sameiginlegt að hafa ekki farið út í kvikmyndagerð með þann draum í maganum að gera kvikmynd um Hulk.

Sum sé, þegar að bíóunum í Reykjavík kemur búum við í ríki Hollywood, sem í auknum mæli bindur trúss sitt við hnattræna stórsmelli, það sem Martin Scorsese kenndi fyrir skemmstu við skemmtigarða frekar en kvikmyndir, og (löglegt) aðgengi okkar að kvikmyndum í heimahúsum hefur ekki verið jafn fátæklegt áratugum saman. Undir þessum kringumstæðum blasir mikilvægi bíósins á Hverfisgötunni við.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila