Nú er frost á Fróni

Á föstudaginn var fórum við á forsýningu á Disneysýningunni  Frosti  (Frozen) í Þjóðleikhúsinu. Ég held að fáir foreldrar/afar og ömmur hafi sloppið við að sjá og heyra þetta verk oftar en þeim gott þótti vegna þess að það hefur unnið hug og hjörtu barnanna.  Sonardóttir mín þriggja ára kann marga textanna og syngur þá við raust.  Það gleður mig því að Frost skilur sig frá öðrum prinsessumyndum í því að aðalpersónurnar tvær, systurnar Elsa og Anna, hafa bein í nefinu og Frost er „girl power“ sýning.

Dagný Kristjánsdóttir fjallar um uppsetningu Þjóðleikhússins á Frosti (Frozen).

Spennan var áþreifanleg þegar sýningin hófst enda margir foreldrar og mörg börn búin að bíða lengi í ofvæni eftir að sjá þessa sýningu. 

Í Þjóðleikhúsinu mátti sjá margar litlar Elsur með kórónur í bláum sjiffonkjólum og nokkrar Önnur voru þarna með fléttur, ungur Ólafur snjókarl sat á sama bekk og við.

Tilurð Frosts, söngleikjaútgáfunnar sem nú er sýnd í Þjóðleikhúsinu, er áhugaverð fyrir margra hluta sakir.  Sýningin er  byggð á hinni ofurvinsælu Disneymynd,  Frozen sem fór sigurför um heiminn fyrir nokkrum árum, bæði fyrri og seinni gerð (sú seinni þykir betri). Myndin varð svo söngleikur á Broadway.  

Teiknimynd Disney sótti innblástur  í ævintýri H.C. Andersen um snædrottninguna frá 1845. Sú saga skiptist í sjö kafla og er lengsta ævintýri Andersen. Hún er bæði flókin og myrk enda byrjar hún á illvirkjum andskotans sjálfs sem býr til hræðilegan spegil sem sýnir alla þá illsku sem býr í þeim sem í hann horfir.  Frost á ekki mikið sameiginlegt með þeirri sögu fremur en aðrar útgáfur Disney á ævintýrum Danans góða. Ekki hefur mátt hagga við áherslum Disneybatterísins  og umritunum þess á sígildum ævintýrum.

Það vakti því athygli Norðmanna að Gísli Örn fékk svokallað no-replica leyfi fyrir túlkun verksins og þvi metnaðarfulla verkefni að laga Frost að þjóðmenningu og norrænni náttúru, kulda og snjó Norðurlandanna sem verður bakgrunnur atburðanna. Það er ekki hver sem er sem fær það!  Sýningin á að fara frá Íslandi og Noregi til Danmerkur og Svíþjóðar. Þetta er  ekki einfalt verkefni því að þjóðtrúin er ólík milli landanna fimm.  Mér fannst ég til dæmis heyra samíska tóna í upphafinu en því var ekki fylgt eftir.

Þegar Anna og Kristján leggja af stað til að finna Elsu og reyna að fá hana aftur til mannabyggða klífa þau fjöll og kafa snjó og kalla loks á huldufólkið sér til hjálpar en það var ekki það íslenska huldufólk sem við nauðaþekkjum heldur slæðuklæddar dísir og ógnarstór álfakóngur á stultum. Búningar Christina Lovery einkenndust af hugmyndaauðgi og fjöri, einkum snjókarlarnir og búningur Ólafíu Hrannar sem óborganlegrar sölukonu á sólarlandaútbúnaði í snjónum!  Sama sprellið var líka að sjá í bráðfyndinni falinni trampólínu sem varð uppspretta mikillar kátínu hjá börnunum  í hvert skipti sem leikarar þeyttust óvænt upp af henni.  

Gísli Örn Garðarsson leikstýrir sýningunni og Börkur Jónsson er höfundur leikmyndarinnar sem var mikilúðug og fögur.  

Sem söngleikur gerir Frost heilmiklar kröfur til raddfegurðar leikaranna og þar reyndi mest á prinsessurnar tvær.  Litlu stúlkurnar sem léku Elsu og Ön stóðu sig verulega vel, léku og sungu smellinn  „Viltu koma að gera snjókarl“  áður en ógæfan skall á. Vala Kristín Eiríksdóttir lék Önnu og söng hlutverk hinnar hvatvísu en trygglyndu prinsessu vel en mest hvíldi á Hildi Völu Baldursdóttur sem söng hlutverk sjálfrar snædrottningarinnar Elsu sem syngur dramatískar aríur uppi á þverhníptum fjallstoppi og lýsa þar sálarangist sinni og innri baráttu. Hildur Vala fór vel með hlutverkið og var myndug drottning og glæsileg Elsa og fleiri en ég hafa trúlega fengið gæsahúð við flutninginn á „Let it go“.

Og loks eru ónefndir senuþjófarnir miklu, Ólafur snjókarl sem Guðjón Davíð Karlsson stjórnaði af list og gaf rödd og hreindýrið Sveinn sem Ernestó Camilo Aldazábal Valdés gerði bæði að dýri og heilmiklum persónuleika.   

Að lokum:  Stóru Disney myndirnar eru allar með býsna skýrt tvöfalt ávarp til barna og fullorðinna. Þannig er Frost bæði barnamynd og ástarsaga; Anna prinsessa er í miklum ástarraunum og tildragelsi þeirra Kristjáns hreindýrabónda tekur mikið pláss. Það er mikið sungið og talað um ástina, ást og svik og brögð í ástum og loks hina einu sönnu ást sem öllu bjargar. Ég veit ekki hve mikið af þessu fór fyrir ofan garð eða neðan hjá yngri börnunum. En eitt er víst að öll augun, ung og gömul,  ljómuðu undir leikhússtöfrum lokaatriðisins.  

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.