Lífríki Íslands

[container]

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

 Nú nýverið hlaut Snorri Baldursson líffræðingur og þjóðgarðsvörður Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir stórvirki sitt Lífríki Íslands — Vistkerfi lands og sjávar (Opna – Forlagið 2014, 407 bls.).

Markmið höfundar með verkinu er að fjalla á aðgengilegan hátt um byggingu og starfsemi helstu vistkerfa landsins og leggja áherslu á orkuflæði og tengsl lífvera innan þeirra að því marki sem mögulegt er á grundvelli fyrirliggjandi rannsókna. Leitast hann meðal annars við að svara spurningum á borð við: Hvað býr að baki því sem fyrir augu ber í náttúru landsins og hafsins umhverfis það? Hvers konar líf þrífst við ólík skilyrði um allt land? Hvað gerist ef áföll dynja yfir lífríkið hér á norðurhjara?

Hvað svo sem segja má um hina margrómuðu sérstöðu íslenskrar (þjóð-)menningar í bráð og lengd sem mörgum hefur verið svo tíðrætt um í sjálfsmyndarsmíð síðari ára er ljóst að landið — leiksvið þjóðlífsins og grundvöllur — hefur ýmiss konar sérstöðu. Ísland er ung úthafseyja fjarri öðrum löndum og staðsett norður undir heimskautsbaugi. Lífríki landsins er að langmestu leyti til komið eftir að síðasta kuldaskeiði ísaldar lauk fyrir um 15000 árum. Hér hefur þróast lágstemmt gróðurfar sem löngum hefur staðið höllum fæti. Loftslag er hér hart, ótal eldgos hafa mætt á landinu síðan á ísöld og á síðastliðnum 1150 árum hafa íbúarnir herjað gegn landinu svo vísað sé til frægrar greinar sem Laxness ritaði í Sunnudagsblað Tímans sáluga fyrir tæpri hálfri öld (17. jan. 1971). Titill hennar var lengi eins konar slagorð fyrir náttúruvernd hér. „Hernaðurinn gegn landinu“ fólst í fyrstu í að frumbyggjar hér eyddu skógum í því skyni að gera sér landið undirgefið í anda Fyrstu Mósebókar (1. kap. 28. v.). Lengst af birtist hernaðurinn svo í ofbeit sauðfjár og hrossa og loks í stórfelldri og oft tilgangslausri framræslu og þurrkun votlendis auk annarra inngripa mannsins í náttúruna nú síðast með byggingu stórvirkjana á jöðrum hálendisins. Allt hefur þetta mætt á lífkerfunum, stundum og á sumum sviðum svo mjög að stórspjöllum hefur valdið.

Við sem umgengist höfum landið í hálfa öld eða þar yfir gerum okkur þó grein fyrir að gróðurfar þurrlendis, það vistkerfi sem við flest erum næmust fyrir, hefur víða breyst til bóta í seinni tíð. Þar kemur margt til. Víða hefur stórlega verið dregið úr beit, landgræðsla er tekin að skila árangri, landssvæði hafa verið friðuð og nokkurt votlendi hefur verið endurheimt. Loks má benda á að skammtímaáhrif hnattrænnar hlýnunar veldur því að hér fer gróðri fram hvað svo sem kann að gerast fari hiti yfir þolmörk þess gróðurfars sem hér er uppruna- eða náttúrulegt. Þá má heldur ekki gleyma að stjórnun fiskveiða á undangengnum áratugum hefur styrkt lífkerfi sjávar svo um munar hvað sem okkur kann svo að finnast um útfærslu aflastýringarinnar og félagslegar afleiðingar kvótakerfisins.

Lífríki Íslands skiptist í sex meginkafla: Eyjan Ísland á jaðri norðurhjara, Saga lands og lífríkis, Lífríki sjávar, Lífríki ferskvatns, Lífríki þurrlendis og Staða íslenska lífríkisins. Líta má á tvo fyrstu kaflana sem eins konar bargrunn næstu þriggja kafla sem lýsa meginvistkerfum landsins og hafsins umhverfis það en á þeim hvílir tilvera okkar í bráð og lengd. Margt í þessum köflum kann að sönnu að vera tormelt fyrir hugvísindafólk. Í síðasta kaflanum er ástandið svo metið og inntak hans getur enginn hugvísindamaður leitt hjá sér jafnvel þótt ýmsir þættir í lífríkinu kunni að vera honum eða henni algerlega framandi.

Í lokakaflanum beinir höfundurinn sjónum svo að stöðu íslenska lífríkisins í upphafi nýrrar aldar, áhrifum okkar manna á lífríkið, yfirvofandi breytingum, líklegri þróun í náinni framtíð og hvernig við tryggjum vernd lífríkisins til frambúðar. Þetta eru atriði sem koma okkur öllum við. Bókinni lýkur svo með stuttri umfjöllun um náttúruvernd.

Við lestur bókarinnar er sláandi að komast að raun um að  rask (tiltekinn afmarkaður atburður eða ferli sem breytir stofnum, tegundum eða vistkerfum) af manna völdum hefur óvíða orðið meiri en hér. Er nú svo komið að óskert upprunaleg lífkerfi er óvíða að finna á landinu nema þar sem land hefur verið friðað lengi eða á einangruðum stöðum sem búfé hefur ekki komist að. Er þetta þörf áminning um að umræða um ósnortna náttúru hér á landi er nokkuð yfirborðsleg. Nú er komið að okkur að láta af hernaðinum gegn landinu og taka þátt í að snúa vörn vistkerfanna í sókn. Í Því sambandi verðum við að hafa upprunaleikann í huga, keppa að náttúrulegri endurheimt, standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika og verjast nýjum ágengum tegundum sem hingað hafa borist af mannavöldum eða skotið rótum vegna loftslagsbreytinga. Nú á nýrri þúsöld væri óskandi að við berum gæfu til að skila landinu af okkur í betra ástandi en við tókum við því og að við getum verið sannfærð um að hin endurreistu lífkerfi verði í eðlilegum samhljómi við landið eins og það var áður en við — ágengasta tegundin sem hér býr — tókum að setja mark okkar á umhverfið. Auðvitað verður landið aldrei á ný eins og það var í upphafi, viði vaxið milli fjalls og fjöru. Hið eftirsóknarverða er ef til vill að ljóðlínur á borð við „Það krækilyng sem eitt sinn óx við klett/og átti að vinum gamburmosa og stein […]“ verði áfram raunsæileg lýsing á íslensku náttúrufari, að fífan haldi áfram að fjúka síðsumars og áfram verði mögulegt að ösla í íslenskum mýrum með stör og rauða.

Vistfræði er auðvitað sú grein náttúruvísinda sem skírskotar beinast til hugvísinda. Niðurstöður hennar velta upp ótal viðfangsefnum á sviði náttúru- og lífsiðfræði sem hugvísindafólk verður að glíma við og taka þátt í að leysa. Við eins og allir aðrir sem dvelja á landinu orkum á umhverfi okkar. Það verðum við að gera á ábyrgan máta og leggja okkar af mörkum til að hernaðinum gegn landinu megi loks linna og raski vistkerfanna verði verði veitt viðnám á þeirra eigin forsendum. Hugvísindin hafa upp á fjölmargt að bjóða í því sambandi sem okkur ber að halda á lofti hvert og eitt út frá okkar bæjardyrum séð. Getur það bæði falist í fræðilegu framlagi og baráttu fyrir „praktískum“ aðgerðum og „aktívisma“.

Sem kirkjusagnfræðingi hafa mér t.a.m. stórlega blætt í augum framræsluskurðir sem göptu við nýgrafnir í votlendinu niður við Hvítá í landi Skálholts þegar ég kom fyrst á staðinn snemma á 8. áratug liðinnar aldar. Mýrarnar voru aldrei ræktaðar. Það er mér sérstakt keppikefli að þeim verið skilað að nýju sem kjörlendi jaðrakans og annarra votlendisfugla. Það væri þjóðkirkjunni, eiganda jarðarinnar, til meiri sóma en stórhýsi í „miðaldastíl“ sem suma í hennar röðum dreymir um að rísi á staðnum

Rétt er að taka fram að bókin Lífríki Íslands er hreint augnayndi, prýdd fjölda ljósmynda auk þeirra skýringarmynda og korta sem beinlíns er ætlað að koma efni ritsins til skila á sem auðskiljanlegastan máta.

Lífríki Íslands er sannkölluð verðlaunabók sem á erindi við okkur öll.

Deila

[/container]