Marar báran blá

[container]„Febrúar er íslenskastur mánaða“ sagði einhver og ummælin komu í hug minn þar sem við keyrðum upp á Snæfellsnes á laugardaginn. Himinninn var úlfgrár, yfir tuttugu vindstig, lúmskir sviptivindir ofan úr fjöllum á nesinu og hafið hvítfyssandi á aðra hönd. Þetta var eins konar forleikur að sýningunni Mar í Frystiklefanum á Rifi.

Heimildaleikhús

Höfundar sýningarinnar eru Kári Viðarsson og Hallgrímur H. Helgason og meðhöfundar Birgir Óskarsson og Freydís Bjarnadóttir. Leikstjóri er Árni Grétar Jóhannsson.

Verkið er unnið upp úr heimildum og minningum um tvö sjóslys;  Þar er fyrst að nefna hið hræðilega slys þegar togarinn Elliði frá Siglufirði sökk 11. febrúar 1962 út af Öndverðarnesi. Tuttugu og sex manns var bjargað á síðustu stundu. Það er athyglisvert að skoða fréttir blaðanna af Elliðaslysinu og ekki minnst samsetningu áhafnarinnar. Aðeins fimm menn í áhöfninni voru yfir fertugu, sautján voru undir þrítugu og sex þeirra átján ára og yngri, niður í fimmtán ára.

Öryggisbúnaður skipsins var í herfilegu ástandi, aðeins einn bátanna var í lagi, hann var sjósettur of snemma, losnaði frá skipinu og hvarf útí myrkrið með tveimur mönnum um borð. Hinir bátarnir voru ónýtir eða fuku og kominn 70 gráðu halli á skipið eftir tvo tíma. Fyrsta neyðarkallið var sent út klukkan hálf sex, togarinn Júpíter var næstur Elliða og kom til hjálpar, skipin sáu hvort annað um níu leytið. Það var vestanrok og stórsjór. Um ellefuleytið var búið að ná öllum mönnunum ómeiddum um borð í Júpíter og Elliði sökk um sama leyti.

Annað slys varð raunar sama kvöld þegar báturinn Skarðsvík frá Hellissandi, splunkunýtt aflaskip, kom til hjálpar og fann björgunarbátinn frá Elliða á vettvangi. Hann var á hvolfi og mennirnir tveir í honum voru dánir. Leki kom að Skarðsvíkinni strax eftir þetta, allt gerðist óskiljanlega hratt og báturinn sökk. Mennirnir sex um borð komust í björgunarbát og var bjargað fljótt.

Hitt sjóslysið sem fjallað er um varð svo 35 árum síðar þegar trillan Margrét SH frá Hellissandi hvarf í júlí 1997, á henni voru tveir menn, annar þeirra var stjúpfaðir Freydísar Bjarnadóttur.

Einlægt og sterkt

Verkið er leikið í frystiklefanum sjálfum í þessu sérkennilega, samnefnda leikhúsi á Rifi. Það er mjög kalt í salnum og áhorfendur hvattir til að vera vel búnir. Risastóru rýminu er skipt í tvær eyjar; annars vegar er heimilið í landi sem einkennist af hlýju lampaljósi og stóru útvarpi, hins vegar er  pallur sem hangir niður úr loftinu og myndar klefa loftskeytamannsins og jafnframt vaggandi skipið í köldu ljósi eða skuggum. Lýsingin var hönnuð af Friðþjófi Þorsteinsyni og Roberg Youngsyni.  Rýmin tvö tala saman en eru eins og tveir aðskildir heimar.

Kári Viðarsson, leikhússtjóri, leikari og höfundur, fer með hlutverk loftskeytamannsins sem stóð vaktina þessa fimm síðustu klukkutíma togarans Elliða. Honum  tekst að halda sambandi fyrst við Slysavarnarfélagið og síðan við togarann Júpíter með neyðartækjum. Loftskeytamaðurinn á unga konu (Freydísi Bjarnadóttur) sem er komin á steypirinn. Við fáum innsýn í tilhugalíf þeirra í stuttri senu og dagbók hans er einn textanna sem notaðir eru í sýningunni.

Kári fer mjög vel með þetta hlutverk, býr til geðfelldan ungan mann sem hefur mikið dálæti á Óðni Valdimarssyni („Er völlur grær og vetur flýr, og vermir sólin grund…“), hann hefur faglegt stolt sem loftskeytamaður, kann tökin á tækninni, og er að auki tónlistarstjóri um borð og getur náð í útlendar stöðvar. Þegar lekinn kemur að skipinu og vatnið byrjar að pusast inn í klefann sýnir hann vel bæði æðruleysi persónunnar og ótta og tekst að byggja jafnt og þétt upp samlíðan áhorfandans. Kári gegnir einnig litlu hlutverki stjúpföður Freydísar.

Freydís fer með tvískipt hlutverk. Annars vegar er hlutverk sjómannskonunnar sem bíður eftir að barnið og maðurinn komi, fámál og stöðugt með áhyggjur sem alls ekki er hægt að tjá fremur en nokkuð annað í brakandi og brestandi talstöðvum sem allir hlusta á.  Freydís fer líka með hlutverk sjómannsdótturinnar, gelgju sem fer í fýlu við stjúpann útaf smámunum og allt í einu er hann horfinn og aldrei tækifæri til að sættast við hann eða segja hve vænt henni þótti um hann. Það er hjartaskerandi þegar hún lýsir hve óbærilegt það er þegar ástvinur hverfur í djúpið og finnst ekki, hvernig voninni og blekkingunni er haldið lifandi um að hann hafi komst af þrátt fyrir allt og hafi ekki dáið  – sé kannski á Grænlandi?  Hlutverkin í leikritinu flæða svolítið saman og trúlega markmið sýningarinnar að sýna að sjóslys snúast ekki bara um einstaklingsörlög heldur marka þau djúp spor í heil samfélög.

Bæði Kári og Freydís sýndu efninu fyllsta trúnað og einlægni en það sem er ef til vill sterkast við þessa einföldu sýningu er hve laus hún er við tilfinningasemi. Því þó öryggismálum hafi fleygt fram á þeim rúmu 50 árum sem liðin eru frá því Elliði sökk hefur samspil manns og náttúru á þessari ágætu eyju okkar alltaf í för með sér hættur. Það vita allir Íslendingar og best þó þeir sem búa við sjávarsíðuna. Þannig er það bara.  Og þetta endurspeglast í merkilega áleitnu veggspjaldi sýningarinnar sem er eftir Ragnheiði Þorgrímsdóttur.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar


Deila

[/container]