Englaryk


[container]

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

 Englaryk Guðrúnar Evu Mínervudóttur (JPV 2014) fjallar m.a. um hvað gerist þegar einhver tekur trú sína alveg bókstaflega. Þar á meðal fyrirheiti Krists: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Mt 28. 20) og tekur afleiðingunum af því.

Í sögunni verður Alma Boulanger úr Hólminum líkt og einhvers konar síðbúinn Emmaus-fari. Jesús slæst í fylgd með henni og opnar augu hennar fyrir hulinni vídd. Annars er spurning hvað gerist með Ölmu þegar hún verðu viðskila við foreldra sína og bræður suður í Cádiz.  Fékk hún sólsting eða sjokk? Sjálf var hún ekki í vafa. Hún mætti Jesú klæddum bleikum kjól og gráblárri skikkju umluktum reykelsisangan og lykt af þurrum sandi. Öll skilningarvit hennar skynjuðu hann.

Í heiti bókarinnar felst ef til vill túlkunarlykill. Engalryk er íslenskt heiti á ofskynjunarlyfinu Angel Dust eða fencýklídín (PCP). Titillinn er þó skýrður á annan veg í bókarlok þar sem Alma tengir það ofurskynjun sinni á náttúrunni og umhverfinu sem hún upplifir sem lífræna heild hjúpaða ryki sem þyrlast upp af englavængjum.

Til að túlka sýn eða reynslu þarf túlkunarramma. Íslenskum unglingum almennt og yfirleitt er líklega ekki tamt að túlka reynslu sína á trúarlegum nótum. Hugsanlega er það þess vegna sem Alma er  sett í kallfæri við kaþólskuna. Hún býr í Sykkilshólmi, móðurætt hennar er kaþólsk að nafninu til, faðirinn hálffranskur en er sekúler. Í hönd fer þó lútherskur fermingarvetur hjá Ölmu.

Jesú-nálægðin er ekki stundarfyrirbæri heldur fylgir Ölmu og fjölskyldu hennar að minnsta kosti þar til  Alma undir vor smeygir sér yfir götu, gegnum glufu í Reykjavíkurumferðinni. Ferðin yfir götuna markar líklega þáttaskil. Alma er í þann veginn að breyta um stíl. Í sögulok heldur hún sem sé inni í óræða framtíð þar sem allir þræðir eru óhnýttir.

Englaryk segir sögu venjulegrar fjölskyldu úti á landi. Móðirin er kennari, faðirinn í veitingarekstri, eldri bróðirinn að slíta naflastrenginn og tekinn að feta sig inn í stærri heim, sá yngri að hasla sér völl í samfélagi jafnaldra. Reynsla Ölmu setur strik í reikninginn hjá þeim öllum og samfélaginu í víðari skilningi. Alma er sjúkdómsvædd þegar fjölskyldan fer í meðferð hjá fjölskylduráðgjafa og sálgreini. Þá er hún sett í sóttkví en foreldrar bestu vinkonunnar setja þær í samskiptabann. Óvíst er hvort er verra blygðunarlaust tal Ölmu um um Jesú-nálægðina eða hitt þegar hún tekur að feta í fótspor hins nýja leiðtoga síns. Það gerir hún með að leggjast með hinum „félagslega holdsveika“ Jóni Stefáni sem allir bæjarbúar hafa ímigust á og taka að sér Snæbjörn bæjardrykkjumann. Í bæði skiptin snýst samstaðan hugsanlega í höndum hennar. Líknsemi er vandmeðfarin og leiðir ekki óhjákvæmilega til góðs.

Alma er þó fyrst og fremst holdi klædd ögrun, laus við faríseisma og óviss um flesta hluti nema þetta eina að Jesús vitjaði hennar viltrar í sólinni suður í Cádiz. Sá sem á hvað erfiðast með að umbera trú Ölmu er sr. Hjörtur. Hann þekkir köllun sína á trúlausu samfélagi. Hann telur hlutverk sitt vera „…að trúa fyrir fjöldann“, „… að hvíla öruggur í trúnni; til að fólk geti hallað sér að [honum] tímabundið þegar þörf er á. Trúað í gegnum [hann]…“ (bls. 61). Hann á hins vegar erfitt með að lifa með ofurtrú Ölmu sem hrekur hann fram á hengiflug guðsafneitunar. Enn erfiðara reynist honum þó að semja frið og sýna Ölmu samstöðu þegar líður að lokum fremingarundirbúningsins.

Englaryk má lesa á mörgum plönum. Á ýmsum tímum hefur brúðar-mystík verið sterk í kristinni trúarhefð og fjöldi kvenna gegnum tíðina hefur lýst sambandi sínu við Krist með erótískum yfir- og undirtónum. Tæpast ber að setja Ölmu undir þann hatt. Hjá henni haldast vaxandi kyn- og trúarvitund þó náðið í hendur. Einfaldast er ef til vill að sjá umbrot Ölmu sem ofurvenjulega unglingauppreisn sem fellur í sérstakan farveg trúarreynslunnar. Hún er tvíátta, óráðin, skilur ekki tilfinningar sínar, þekkir ekki hvar mörk hennar liggja og er ekki sátt við þau.  Þessi mynd af henni er styrkur sögunnar og gerir það að verkum að Alma gleymist ekki strax að lestri loknum. — Ég er að minnsta kosti enn nokkrum vikum eftir lestur að vona að hún hafi ekki látið klippa sig stutt eftir síðasta tímann hjá Snæfríði sálgreini. Hárið og teygjan ýmist um stertinn eða úlnliðinn hafði gegn of þýðingarmiklu hlutverki í pælingum hennar.

Englaryk er saga um fólk, ungt og gamalt, vígt og óvígt, trúað og vantrúað sem er að leita að merkingu, reyna að skilja sig og sína, lífið, tilveruna og trúna. Það gerir söguna svolítið sérstaka miðað við þá epísku skáldsagnahefð sem hér er svo sterk.

Deila

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *