[container]
Jóhann Jóhannsson og Sinfóníuhljómsveit Íslands. The Miners´ Hymns.
Í skrúðgöngu verkalýðsfélaganna eru glæsilegir og flennistórir fánar og í skaranum eru að sjálfsögðu lúðrasveit og trommusláttur. Þetta er ekki lýsing á göngunni niður Laugarveginn þann 1. maí síðastliðinn heldur dæmi úr síðasta kafla myndarinnar The Miners’ Hymns. Myndefnið er gamalt og svarthvítt og því varpað á tjald. Tónarnir koma frá hljómsveitinni á sviðinu. Gamlar myndir glæddar tónum sem hljóma hér og nú. Erum við stödd á tónleikum eða bíósýningu? Bæði.
Það er ekki ofsögum sagt að tónlistin hafi mótað upplifunina af kvikmyndinni The Miners’ Hymns í Eldborgarsal Hörpu föstudaginn 7. nóvember síðastlistinn. Í mynd Bills Morrisons, sem fjallar um námuverkamenn í Englandi og arfleifð þeirra, er ekkert talað en þeim mun mikilvægari er tónlist Jóhanns Jóhannsonar sem flutt var af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sýningin/tónleikarnir voru hluti af Airwaves tónlistarhátíðinni. Tónlistin fléttaðist fallega saman við myndefnið og hvort studdi vel við annað, tónlistin væri ósköp rýr án kvikmyndarinnar og myndin máttlaus án tóna. Tónlistin einkenndist af málmblæstri sem naut stuðnings strengjahljóðfæra. Á tónleikunum spilaði Jóhann á hljómborð með hljóðeffektum en stjórnandi hljómsveitarinnar var Guðni Franzson.
Bíómyndin The Miners’ Hymns var frumsýnd árið 2010 og tónlistin kom út á samnefndum geisladiski árið 2011. Bíómyndin hefur þegar verið sýnd erlendis við góðar undirtektir og mun ferðast víða um heim á þessu ári. Jóhann Jóhannsson hefur mikla reynslu af því að tónsetja bíómyndir og er óhætt að fullyrða að hann hafi nú þegar slegið í gegn í hinum stóra heimi kvikmyndatónlistar og framsækinnar tónlistar. Í bíómyndinni blandar Bill Morrison saman gömlu myndefni og nýju og leyfir þannig fortíð og nútíð að kallast á. Myndir spannar brot úr 100 ára sögu námavinnslu í Bretlandi allt fram að árslöngu verkfalli námuverkamanna árin 1984-85.
Í byrjun myndar sáust úr lofti þau svæði þar sem námavinnslan fór fram. Þar voru engin ummerki um fortíðina en svæðin minntu helst á grafir án auðkennis, saga þeirra hefur verið flött út og tyrft yfir. Myndefnið í kafla tvö var sérstaklega áhugavert. Í gömlum myndskeiðum fór námuverkamennirnir með hrörlegum lyftum niður í iður jarðar þar sem voru grjótmulningar í námagöngum og stórar vélar sem skófu kolin niður á færibönd. Þarna voru vélar í bland við gamaldags handverkfæri. Drungaleg tónlistin passaði vel við myndefnið og jók tilfinningu áhorfandans fyrir þrengslum, einangrun og innilokun. Í næsta kafla var myndefnið að mestu ofanjarðar þar sem börn hlupu uppi á hólum og allt einkenndist af sól og æsku. Fjórði kaflinn sýndi samtakamáttinn þegar námuverkamenn mótmæltu og átök við lögregluna brutust út. Þessi kafli var mun styttri en hinir og gott mótvægi við blásturhljóðfærin að fá nú einleiksfiðlu með laglínuna. Í síðasta hluta myndarinnar fengu áhorfendur að fylgjast með skrúðgöngu verkalýðsfélaganna undir glæsilegum og flennistórum fánum með tilheyrandi lúðrasveit og kæti. Gangan endaði inni í stórri og glæsilegri kirkju. Í þessum kafla varð slagverkið meira áberandi en áður og það kallaðist vel á við myndefnið.
Þau sem eitthvað þekkja til tónverksins hafa án efa beðið eftir þriðja kaflanum en sá kafli er mjög grípandi og sérkennandi. Hann einkennist af einföldum stefjum trompetsins sem gellur björtum hljómi en önnur trompet og blásturshljóðfæri taka við og fylgja laglínunni og mynda þannig bergmál sem fléttast saman og deyr síðan út. Stefið er endurtekið aftur og aftur en þó má greina örlitla breytingu í hvert skipti. Þannig þróast stefið áfram út allan kaflann. Á nokkrum stöðum verður tónlistin ómstríð og þannig skapast spenna á milli hljóðfæra. Þetta er vandmeðfarið í flutningi og virkaði stundum eins og hljómsveitin væri örlítið ósamtaka á nokkrum stöðum í þessum kafla. Þessu til samanburðar er upptaka hljómdisksins hnökralaus en auðvitað er erfitt fyrir lifandi tónlistarflutning að keppa við sterílan heim hljóðupptökunar þar sem hægt er að lagfæra ýmsa hnökra eftir á. Þess má geta að á geisladisknum er verkið í sex köflum en á tónleikunum voru fluttir alls fimm kaflar. Jóhann útsetti verkið sérstaklega fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands en á geisladisknum eru engin strengjahljóðfæri.
Tónleikagestir fengu tónleikaskrá en þar voru helstu upplýsingar um flytjendur og höfunda. Meginuppistaðan í henni var samantekt eftir Lee Hall um sögu námuvinnslunnar á Englandi og endalok hennar. Hall skrifar áhrifaríkan texta en söguskoðun hans er full einhæf. Þar koma hvergi fram rök yfirvalda fyrir því að loka námunum og að sleppa slíkum upplýsingum fyrir Íslendinga sem þekkja lítið til þessarar sögu rýrir mjög trúverðugleika textans.
Tónlist Jóhanns er áferðarfögur með skýrum og grípandi laglínum. Á sama tíma er hún hvorki hefðbundin né væmin heldur dansar á mörkum margra hefða. Það má greina hina klassísku hefð en líka nútímalegri áhrif þar sem ólíkir tónar mynda ómstríðu og ögra hlustandanum. Útsetningin var tilgerðarlaus og strengjahljóðfærin stækkuðu og dýpkuðu hljóðheiminn enn frekar. Það er sérstaklega smekklegt í ljósi myndefnisins að undirstaðan í verkinu eru málmblásturhljóðfærin og þannig daðrar tónlistin við hefð lúðrasveitanna sem tengist verkalýðsbaráttu og sögu námuverkamanna á Englandi órjúfanlegum böndum. Það er áhugavert að sjá hvernig bandarískur kvikmyndagerðarmaður og íslenskt tónskáld vinna saman listrænt verk sem fjallar um sögu og arfleifð frá Englandi. Þetta sýnir enn og aftur að listin starfar án landamæra og henni eru allir vegir færir. Verkið (mynd og tónar) er í heild sinni óður til fortíðar, óður til vinnandi stéttar sem var þurrkuð út og þannig liður í endurmótun sjálfsmyndar Englendinga. Myndin minnir aðrar þjóðir á að líta sér nær, skoða sögu sína og reisa við það sem meðvitað og ómeðvitað hefur legið í dvala og þögn.
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply