Og við höfum séð það fyrr – og síðar.
Lér konungur hyggst afsala sér ábyrgð á konungsríkinu en halda þó vissum völdum – hljómar kunnuglega. Hugmyndin er að skipta ríkinu milli dætranna þriggja og skal skerfur hverrar ráðast af ástinni sem þær bera til hans. Hann lætur blekkjast af fagurgala og skjalli eldri dætranna tveggja sem fara langt umfram eðlilega föðurhollustu í blaðri sínu og er það túlkað í uppsetningu Þjóðleikhússins með heldur óföðurlegum kossi á varirnar sem svo mjúkt mæla. Svo mikil er þörf konungsins fyrir ást að hann álítur einlægni hinnar sönnu Kordelíu vera dramb. „Ekkert sprettur af engu,“ segir hann þegar hún neitar að taka þátt í skjallkeppninni og gerir hana arflausa: „Þinn sannleik hljóttu í heimanmund.“
Hver hefur ekki flaskað á því að álíta viðhlæjendur vini og byggja afdrifaríkar ákvarðanir á því?
Í hliðarsögunni reynist jarlinn af Glostri síst meiri mannvitsbrekka. Hann hefur leikritið á því að kynna Játmund son sinn sem hórunga – aldeilis gaman að eiga svoleiðis pabba. Jarlinn fær það auðvitað launað því sá óskilgetni rægir þann skilgetna í þeim tilgangi að komast yfir föðurarfinn. Jarlinn trúir fláráðum hórunganum og gerir eldri soninn arflausan. Þar með hafa bæði Lér og jarlinn úthýst sínum einlægustu börnum. Þeir reka líka ráðgjafana sem eru líklegastir til að hafa vit fyrir þeim. Þetta endar með því að augun eru stungin úr jarlinum og hlutgerist þar blindan sem þeir Lér eru báðir haldnir á börn sín.
Þeir vissu ekki að yfirlýsingar barnanna voru innistæðulausar. Eitthvað hefur misfarist í uppeldinu.
Svo veltast þeir um heiðina bölvandi og ragnandi sínum svikulu og gráðugu afkvæmum, vitstola menn sem leiddu fólkið sitt í glötun, rétt eins og afsettir ráðamenn ráfa nú geipandi um móana í útjaðri annars borgríkis. Ýmsum skjöplast við að skipta ríkinu á milli barna sinna og hrasa sjáandi eins og jarlinn á Glostri.
Þetta er sem sagt ný saga og gömul eins og hin mótsagnakennda uppfærsla Þjóðleikhússins ber með sér. Textinn er í senn nýr og gamall, framsögn leikaranna ýmist hversdagsleg eða upphafin, klæðaburður og sviðsmynd óþægilega gróðærisleg í svo goðsagnakenndu leikriti. Undarlegar kenndir togast á í áhorfandanum, hann trúir varla eigin augum og eyrum í fyrstu en fyllist samúð í lokin þegar hið sanna ferst.
Lér og jarlinn af Glostri gangast þó við sekt sinni að lokum. Í útgáfunni með nútímastafsetningunni erum við ekki komin þangað enn, sumir eru ennþá að hrasa sjáandi.
Má bjóða þér te?
3. maí, 2023Katelin Marit Parsons, nýdoktor við Árnastofnun, fjallar um leikritið The Secret to Good Tea sem var nýverið frumsýnt við Manitoba Royal Theatre Centre í Winnipeg.„Hér höfum við alltaf verið“
28. apríl, 2023Magnús Orri Aðalsteinsson, BA-nemi í ensku og íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, fjallar um leikverkið Góða ferð inn í gömul sár eftir Evu Rún Snorradóttur.Svartþröstur
26. apríl, 2023Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, skrifar um Blackbird eftir David Harrower í sýningu Borgarleikhússins.Deila