Samfélagslíkaminn í hjáveituaðgerð

Um höfundinn

Þröstur Helgason

Þröstur Helgason hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands, sinnt ritstjórn, meðal annars á Lesbók Morgunblaðsins, og er nú dagskrárstjóri Rásar 1

Harpo Marx
“Verðum við kannski mállaus eins og Harpo Marx?”

[container]Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur hélt því fram í fyrirlestri hjá Sagnfræðingafélaginu 2009 að íslenskir menntamenn beri talsverða ábyrgð á hruninu vegna þess að þeir hafi misst sjónar á samfélagsheildinni og þróunaröflunum. Vilhjálmur Árnason heimspekingur hefur tekið undir þessa gagnrýni í grein í Ritinu (2-3:2009). Árni Daníel kennir póstmódernismanum um vegna þess að hann geti ekki horft á heildarmyndina, hann einblíni á orðræðuna en ekki þau valdatengsl sem liggi henni að baki. Vilhjálmur hnýtir líka í póstmódernismann og segir hann ekki geta haft sannleiksleitina sem viðmið fræðastarfs.

Ég held að Árni Daníel og Vilhjálmur séu á villigötum. Hugvísindamenn fylgdust með samfélagsheildinni og þróunaröflunum, meðal annars vegna þess að þeir voru margir hverjir að sinna póstmódernískum fræðum. Það kom hörð gagnrýni úr röðum hugvísindamanna á samfélagsþróunina. Þeir hefðu vafalaust getað haft sig meira í frami en ég held það sé rangt að halda því fram að þeir hafi brugðist algerlega. Gagnrýni hugvísindamanna snerist meðal annars um ímyndarsköpunina og brenglað veruleikaskyn, sem Vilhjálmur telur hafa ráðið ríkjum í íslensku samfélagi á undanförnum árum, og hún fjallaði um sífellda endurhönnun eða umritun sannleikans. Hún snerist líka um gildismat, meðal annars um gildi ósnertrar náttúru. Þar fóru fram átök um hvað væri satt og rétt. Margir hugvísindamenn voru í framvarðarsveit verndunarsinna sem vildu vinna gegn því kerfi sem miðaðist að því að hámarka skammtíma arð á kostnað varanlegri verðmæta.

Vandinn er þess vegna ekki endilega sá að hugvísindamenn hafi verið að beita rangri aðferðafræði heldur sá að þeir náðu ekki nægilega vel í gegn. Ástæðurnar fyrir því eru held ég mjög flóknar. Þær gætu tengst strúktúr orðræðukerfisins, innbyggðu stigveldi hugmyndanna – hverjir mega með öðrum orðum tala um efnahagsmál, útrás og nýtingu náttúrunnar? Hverjir eru marktækir? Á hverja er hlustað þegar upp er staðið? Við vitum að ástæðurnar eru að hluta til efnahagslegar og pólitískar. Og líka að ástæðurnar liggja að nokkru leyti í gildismatinu en það er einmitt gildismatið sem samfélagsumræðan mætti snúast um núna.

Ein birtingarmynd hrunsins er sú að menningarumfjöllun fjölmiðlanna hefur verið skorin niður við trog og það á reyndar við um fleiri efnisþætti þeirra. Fjölmiðlar eru mikilvægur hluti af viðtökukerfinu ef við getum nefnt það því nafni, fjölmiðlarnir taka við listaverkum og öðrum menningarafurðum, upplýsingum, umræðu, og vinna úr þeim. Þeir eru eins konar meltingarfæri, hluti af meltingarveginum í samfélagslíkamanum. Með því að taka þetta líffæri úr líkamanum eða skerða starfsgetu þess er augljóslega verið að bjóða hættunni heim, næringin skilar sér ekki jafnvel út í líkamann. Menntakerfið og ekki síst Háskóli Íslands er líka mikilvægt meltingarfæri. Framlag til hans er verið að skera niður um 25%. Þetta er að gerast víðar: Í styrkjakerfinu, í stuðningi atvinnulífsins við mennta- og menningarmál osfrv. Ef fram heldur sem horfir endar með því að tennurnar verða dregnar úr samfélaginu. Það er spurning hvort tungan fái að lafa, eða verðum við kannski mállaus eins og Harpo Marx?

Spyrja má hvaða áhrif það hefur á umræðuna að skerða starfsemi meltingarfæra eins og fjölmiðla og háskóla. Það virðist liggja í augum uppi að meltingarvegurinn styttist sem þýðir í raun og veru að einstök viðfangsefni hljóta minni almenna umræðu. Samfélagslíkaminn fer í hjáveituaðgerð, ef svo má segja. En er það slæmt?

Það þarf að rannsaka samspil menningar og samfélags hér á landi. Það þarf að skoða hvernig hugmyndir eins og þær sem lágu að baki útrásaræðinu verða til. En til þess að það sé hægt þarf auðvitað umfram allt að sjá til þess að meltingarfæri samfélagslíkamans geti áfram gert gagn. Það þarf að grípa til forvarna áður en til frekari hjáveituaðgerða kemur.

Greinaröð Þrastar:
Hvað veit Harpo Marx? 
Hvernig gat svo vond hugmynd orðið að veruleika

 [/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *