Rit í tilefni af siðbótarári

Árið í fyrra — eða réttara sagt kirkjuárið 1916–1917 — var mikið hátíðar- og minningarár hér á landi eins og víðar um hinn lúherska heim en þá var haldið upp á að 500 ár voru liðin frá upphafi siðbótarinnar. Þar er átt við guðfræðilegt umbótarstarf Marteins Lúthers og helstu samstarfsmanna hans en ekki allt það pólitíska brambolt sem fylgdi í kjölfarið.

Hér skipulagði sérstök nefnd sem skipuð af kirkjustjórninni hátíðahöldin en þau samanstóðu af margs konar uppákomum og atburðum sem dreifðust á árið og fóru fram víða um landið. Spönnuðu uppákomurnar allt frá kynningu á sérmerktum bjór til hástemmds helgihalds.

Auðvitað orkar alltaf tvímælis hvernig minnast skal viðburða á borð við siðbótina. Þó verður að telja að um margt hafi tekist vel til. T.a.m. er lofsvert að ekki skyldi farið út í að kalla til þjóðhátíðar í tilefni af 500 ára afmæli lúthersku kirkjunnar líkt og gert var í tilefni af 1000 ára afmæli kirstni hér aldamótaárið 2000 en ólíklegt er að þjóðin hefði fengist til þátttöku. Lúthersk sjálfsmynd Íslendinga er síður en svo sterk enda hefur evangelísk-lútherska kirkjan hér lengst af ekki þurft að skilgreina sig eða aðgreina frá öðrum kirkjudeildum líkt og raun er á víðast erlendis. Slíkt skerpir vissulega hina lúthersku vitund bæði til ills og góðs.

Þegar frá líður verða minningar þeirra sem á annað borð tóku þátt í Lúthers- árinu eða einhverjum af atburðum þess óhjákvæmilega með ýmsu móti. Það sem lengst mun þó halda árinu á lofti eru þau rit sem gefin voru út í tilefni af því. — Hér verður staldrað við þau helstu.

Svipmyndir úr siðbótarsögu

Gunnar Kristjánsson:

Marteinn Lúther; Svipmyndir úr siðbótarsögu.

Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2014.

487 bls., myndir og skrár.

Bókaútgáfu í tilefni af afmælisárinu verða tæplega gerð fullnægjandi skil án þess að minnst sé viðamiklis verks dr. Gunnars Kristjánssonar  fyrrv. prófasts um ævi, störf og hugmyndir siðbótarfrömuðarins. Ritið kom þó ekki út á afmælisárinu heldur þremur árum fyrr og gat því þjónað sem mikilvæg upphitun undir það sem framunda var.

Hér er á ferðinni breytt og viðamikið verk. Það hefst með að gerð er grein fyrir aðstæðum á siðbótartímanum og breyttum viðhorfum til tímabilsins. Þar bendir höfundur á að Lúther og verk hans eru ekki lengur skoðuð út frá þröngu sjónarhorni persónusögunnar heldur er nú beitt fjölþættum aðferðum hugarfars-, menningar- og félagssögu. Þetta er þó raunar ekki lengur nýjung a.m.k. ekki þegar um hið alþjóðlega rannsóknarsamfélag er að ræða. Síðan taka við kaflar sem fjalla ýmist um ævi siðbótarmannsins, mikilvæga atburði siðbótarsögunnar á slóðum Lúthers sem og þematískir þættir um ýmiss atriði sem tengjast siðbótinni. Loks taka við kaflar um siðbótina í Danmörku, sem og hér á landi. Þar fær siðbótarhugtakið raunar býsna víðtæka merkingu eins og sjá má af þætti um Vídalínspostillu sem raunar kom ekki út fyrr en á árunum 1718–1720 og tilheyrir því ekki siðbótartímanum. Bókinni lýkur svo með nokkrum köflum þar sem fjallað er um túlkun og endurtúlkun á Lúther.  Sjálfur lítur Gunnar þó svo á að þungamiðjan í verki hans felist í umfjöllun um tímabilið 1517–1525 sem var mesti umbrotatíminn í lífi Lúthers.

Áhorfsmál er raunar hversu frjótt er að nota siðbót sem lykilorð eða regnhlífarheiti yfir svo fjölbreytta þróun. Það er vissulega vel nothæft þegar fjallað er um kirkjuleg markmið og sjálfsmynd Lúthers sjálfs og annarra siðbótarmanna um hans daga. Þegar því viðfangsefni sleppir verður orðið óhjákvæmilega gildishlaðið. Um innleiðingu lúthersks siðar í Danmörku og miklu frekar hér á landi væri heppilegra að nota annað orð eins og siðaskipti sem lýsir ágætlega ferlinu sem varð þegar skipt var um kirkju- og helgisiði af trúar-pólitískum ástæðum. Loks má líta svo á að útgáfa Vídalínspostillu sé einn af mikilvægustu þáttunum í að aðlaga hugsun og hætti Íslendinga að lútherskunni, koma hér á lúthersku samfélagi og menningu. Í því sambandi hefur verið rætt um siðbreytingu í seinni tíð. Er hér vísað til orðnotkunar sem t.d. kemur fram í 3. b. Kristni á Íslandi sem út kom í tilefni af kristnitökuafmælinu árið 2000. Með henni næst ákveðið hlutleysi en umfram allt rými til að nálgast fyrirbærið — lútherskuna og helstu afleiðingar hennar — á fjölþættan máta eins og Gunnar keppir vissulega að.

Í upphafi verksins vekur Gunnar athygli á að siðbótin og áhrif hennar bárust hingað til lands á undraskömmum tíma en komið var á lútherskri kirkjuskipan í Skálholtsbiskupsdæmi meðan upphafsmaðurinn var enn á lífi. Þetta minnir okkur á að á 16. öld var Ísland ekki einangrað heldur í fjölþættum samskiptum við umheiminn. Það sem hefði getað tafið þróunina var aftur á móti hversu gríðarlega ólíkar aðstæður voru hér á landi og í upphaflegu umhverfi siðbótarinnar. Almenningur í Skálholtsbiskupsdæmi varð heldur ekki lútherskur fyrr en löngu seinna. Varðandi siðaskiptin hér skipti hinn þungi þrýstingur Kristjáns III. Danakonungs auðvitað miklu meira máli en viðleitni innlendra siðbótarmanna sem þó voru vissulega til staðar í guðfræðingaklíkunni eða -sellunni í Skálholti í tíð Ögmundar Pálssonar, síðasta kaþólska biskupsins þar. Þetta var hópur manna sem vissulega hafði ekki haslað sér völl í kerfinu þegar þeir hófu að beita sér fyrir lútherskunni. Undir það verður þó ekki að öllu leyti tekið með Gunnari að þeir hafi verið valdalausir eða dæmigerðir fulltrúar einhvers þess afls sem hrundið gat af stað byltingu neðan frá og upp samfélagsstigann (sjá bls. 14). Þetta voru þvert á móti ungir karlar sem forframst höfðu erlendis, höfðu sterk tengsl við valdamenn sem vissulega aðhylltust gamla málstaðinn en ekki þann nýja og a.m.k. einn var beinlínis af háaðli. Formleg völd þeirra kunna að hafa verið takmörkuð en sambönd þeirra voru taust og áhrifamáttur mikill auk sem þeir áttu bakland í trúarlegri og pólitískri stefnu konungs.

Vissulega er mikinn fróðleik að sækja til ritsins Marteinn Lúther; Svipmyndir úr siðbótarsögu þegar um sögu siðbótarinnar og helstu afleiðinga hennar er að ræða sem og um hinn lútherska hugar- og hugmyndaheim. Erfitt er að tíunda eitt öðru fremur í því efni. Það sem kveikti hvað helst í þessum lesanda hér var þó ekki hvað síst „samtal“ Gunnars við hina lúhersku hefð í gegnum aldirnar undir lok bókarinnar. Þar dregur hann saman það sem okkur nútímafólki varðar hvað mest um í arfleifiðinni frá Lúther og vekur margar áhugaverðar vangaveltur sem gaman er að spinna áfram.

Hér hefur verið staldra við örfá atriði sem koma upp í hugann við lestur hins mikla rits Gunnar Kristjánssonar sem var mikill fengur fyrir alla sem vildu skerpa sýn sína á Lúther í aðdraganda hátíðarhaldanna. Það mun einnig nýtast til fróðleiks og endurmats í framtíðinn.

Smárit um Lúther

Karl Sigurbjörnsson:

Lúther; Ævi — áhrif —arfleifð,

[Reykjavík]: Skálholtsútgáfan, [2017].

88 bls., heimildaskrá.

Í landi með jafn langa „lútherska“ sögu og Ísland er þörf á alls konar ritum um siðbótarfrömuðinn, persónu hans og áhrif. Því er fagnaðarefni að Skálholtsútgáfan, forlag þjóðkirkjunnar, skyldi senda frá sér stutta samantekt um þetta efni fyrir þau sem ekki hafa ástæðu eða tóm til að ráðast í lestur viðameiri bóka. Það ber hins vegar að harma að forlagið hefur tæpast langt í útgáfuna þá vinnu eða alúð sem vert hefði verið.

Í öllum útgefnum verkum er nauðsynlegt að í kynningartextum og vönduðum inngangi komi fram hverjum ritin séu ætluð, hver markmiðin með útgáfu þeirra eru, sem út frá hvaða forsendum þau séu ritað. Þá þurfa rit að vera þannig úr garði gert að auðvelt sé að fá yfirlit yfir efnistök höfunar og uppbyggingu ritsins. Þetta er sérstaklega mikilvægt um smárit sem oftast er ætlað að ná til markhópa sem ekka hafa mikla þekkingu fyrir og hafa ekki svigrúm til að greina ritin sjálfir. Það hlýtur að vera hlutverk forlagsritsjóra að tryggja að þessir þættir séu í lagi.  Ritinu sem hér um ræðir er hvorki fylgt úr hlaði með formála né inngangi og það sem meiri athygli vekur er að í því er ekki að finna neitt efnisyfirlit en þó skiptist það í allmarga kalfa. Allt gerir þetta að verkum að burtséð frá því hvernig verkið er úr garði gert frá höfundarins hendi verður það mun óaðgengilegra en vera þyrfti.  Hætt  er við að þessir ágallar komi í veg fyrir að ritið rati til annarra en þeirra sem eru sérstaklega áhugsamir um efni þess. Er það mikill skaði þar sem vönduð smárit leiða lesendur oft til að kynna sér efnið betur og í viðameiri ritum.

Í þessu riti Karls biskups vekja ekki síst eigin áherslur, ályktanir og túlkanir höfundarins áhuga enda hefur tæpast vakað fyrir höfundi að miðla mikilli nýfenginni þekkingu til lesenda. Fyrir Karli virðist vaka öðru fremur að miðla þeirri sýn að Lúther hafi verið umdeildur tímamótamaður. Strax á fyrstu síðu verksins bendir hann þannig á að siðbótarmaðurinn hafi ýmist verið talinn „frelsishetja“ eða „þröngsýnn þverhaus“, fyrsti nútímamaðurinn eða síðasti miðaldamaðurinn. Síðar varpar Karl fram þeirri fullyrðingu að margir líti svo á að með tilvísun Lúthers til samvisku sinnar á ríkisþinginu í Worms 1521 hafi nútímamaðurinn komið fram. Þarna er vissulega staldrað við mikilvægt atriði í túlkun ekki aðeins á Lúther sjálfum heldur ekki síður eðli siðbótarstarfs hans. En þarna er raunar um að ræða spurninguna um hvort sé meira einkennandi á siðaskiptatímanum samhegnið við miðaldarinar eða rofið sem þá varð. Svar Karls kemur skýrt í ljós í lok bókarinnar er hann reynir að greina „Fingraför Lúthers í hversdeginum“. Þar er svo að sjá að hann telji að til Lúthers megi rekja gjörvallan nútímann. Hætt er þó við að nútímavæðingin sé fjölþættara fyrirbæri en svo. Í því sambandi má t.d. benda á að nú árið eftir siðbótarafmælið er þess minnst að 100 ár eru liðin frá fæðingu Karls Marx. Ugglaust má deila má um hvort þeirra hafi lagt meira til nútímavæðingarinnar. Í öllu falli verður að líta til þeirra beggja í því sambandi.

Í riti Karls Sigurbjörnssonar er annars dergin upp fjölþættari mynd af Lúther sem einstaklingi í skurðarpunkti fjölþættra átakalína þar sem róttæk og íhaldssöm sjónarmið mætast. Gaman hefði verið að láta það sjónarhorn móta bókina í ríkari mæli hvað varðar uppbyggingu, efnistök og heiti. Þetta er þó vandmeðfarin hugmynd þar sem alltaf er stutt í rómantíska upphafningu ef ein stök persóna er sett um of í sviðsljósið. Það er einmitt klassískur vandi í  ritum sem gefin eru út af tilefni á borð við siðbótarafmæli. — Þessi athugasemd á þó ekkert sérstaklega við um rit Karls Sigurbjörnssonar.

Siðbót á Íslandi?

Torfi K. Stefánsson Hjaltalín (höf. og ritstj.),

Siðaskiptin á Íslandi 1541–1542 og fyrstu ár siðbótar; Kirkjuskipan Kristjáns III. Danakonungs, Gissur Einarsson biskup og Skálholtsstaður,

Reykjavík: Flateyjarútgáfan, 2017.

176 bls., myndir, skrár.

Þetta rit Torfa K. Stefánssonar Hjaltalín er þrískipt og hlutverk hans mismunandi eftir því um hvaða hluta þess er að ræða. Í fyrsta hluta er að finna útgáfu á kirkjuskipan Kristjáns III. sem er grundvallarskjal varðandi siðaskiptin í Danmörku sem og hér á landi. Þar er Torfi ritstjóri sem býr kirkjuskipanina til prentunar og fylgir henni úr hlaði. Í kjölfarið fylgja svo tvær sjálfstæðar frumsamdar ritgerðir, önnur um Gissur Einarsson, fyrsta lútherska biskupinn í Skálholti, en í hinni er fjallað um staðinn í tíð Gissurar. Þá gefur Torfi ritið líka út á eigin forlagi. Sýnir verkið eljusemi höfundar sem þegar er þekkt.

Textaútgáfur eru þarfaverk og eiga vel við á afmælisári og hvaða texti liggur þá beinna við en einmitt kirkjuskjuskipun Kristjáns III. sem lagði grunninn að lúhersku kristnihaldi hér og er raunar á margan hátt í fullu gildi sem grundvallandi leiðarvísir um lútherskt kristnihald. Deila má um hvort kirkjuskipanin hafi ekki verið almenningi aðgengileg fyrr en nú. Auðvelt er að nálgast sama texta og hér er birtur í Íslenzku fornbréfasafni á netinu (bækur.is) en þar er textinn þó vissulega torlesnari en í útgáfu Torfa sem hefur fært hann til nútímamáls. Er það vissulega fengur. Textinn sem hér er gefinn út er þýðing Gissurar Einarssonar á hluta kirkjuskipunarinnar en hér er því jafnfram sleppt sem Gissur sleppti. Af þessum sökum bætir útgáfan minnu við það sem fyrir var en vert hefði verið. Svo virðist sem mögulegt hefði verið að snara því sem upp á vantar í þýðingu Gissurar úr dönsku og skapa þar með heildarmynd. Úrfellingar á borð við þær sem Gissur gerði eru alltaf forvitnilegar og vekja margháttaðar spurningar. Það hefði verið freistandi að varpa skýrara ljósi á þær í tengslum við þessa útgáfu.

Titill verksins vekur vangaveltur um orðnotkun þegar um hina margbrotnu atburðarás er að ræða sem markaði upphaf lútherskunnar bæði hér á landi og úti í Þýskalandi líkt og drepið var á í tengslum við bók Gunnars Kristjánssonar. Titillinn kann sem sé að benda til að siðaskipti og siðbót séu notuð sem samheiti. Sé siðbót ekki notað í afmarkaðri merkingu, þ.e. um sjálfsmynd og persónuleg markmið einstakra kirkjugagnrýnenda á 16. öld, er hætt við að það verði fljótt gildishlaðið og spurning er hvort svo sé ekki hér enda segir framarlega í bókinni að aðstandendur hennar telji að um raunverulega siðbót hafi verið að ræða í kjölfar siðaskiptanna (bls. 13). Raunar dregur það ekki úr gildishleðslu þótt réttilega sé bent á að ýmsar endurbætur hafi verið gerðar í kaþólsku kirkjunni um svipað leyti. Það sýnir bara að „siðbótar“-bylgjan á 16. öld var þverkirkjuleg þótt hún væri alls ekki samkirkjuleg!

Sjálfur velti ég því stundum fyrir mér hvort siðbótar-heitið geti yfir höfuð haft merkingu og tilgang í íslenskri sögu. Hér á landi urðu vissulega siðaskipti (trúarpólitísk hvörf) á 16. öld  og í kjölfarið siðbreyting í merkingunni langvarandi menningarleg aðlögun. En átti siðbót — markvisst umbótastarf á grundvelli trúar- og guðfræðilegrar gagnrýni  — sér stað hér?  Hér varð a.m.k. ekki til nein siðbótarhreyfing meðal almennings eins og raun varð á víða í þéttbýli erlendis. Umfjöllun Torfa í þessu riti styrkti mig vissulega í þeirri trú að þrátt fyrir allt megi svara spurningunni játandi og að líta megi á félagana í Skálholts-„sellunni“ í kringum Gissur Einarsson (sjá framar) sem íslenska siðbótarmenn í þröngri merkingu. Torfi beinir sjónum einkum að Gissuri sem fyrsta íslenska  endurreisnar- og þar með nútímamanninum sem minnir á mat Karls Sigurbjörnssonar á Lúther sjálfum.  Sú hliðstæða segir raunar mikla sögu. Það er svo áhugavert að þegar blaðað er í elstu frásögnunum af þessum atburðum virðist hafa verið litið svo á um 1600 að Oddur Gottskálksson síðar lögmaður hafa verið hinn íslenski Lúther sem hafi eins og „frummyndin“ barist við sálarangist og efasemdir. Það hefur e.t.v. þótt við hæfi þar sem það var þrátt fyrir allt hann sem þýddi Nýja testamentið. Því verður þó ekki mótmælt að Gissur Einarsson gegndi lykilhlutverki í íslensku siðbótinni og raunar siðaskiptunum líka. Því er við hæfi að hans hafi sérstaklega verið minnst á Lúthers-árinu.

Úrval Lúthers-rita

Marteinn Lúther,

Úrval rita 1. b. (1517–1523) og 2. b. (1524–1545).

Aðalþýðandi Gunnar Kristjánsson sem jafnframt bjó ritin til útgáfu.

Ritstjórn: Arnfríður Guðmundsdóttir, Gunnar J. Gunnarsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson,

[Reykjavík]: Nefnd um fimma alda minningu siðbótarinnar, Skálholtsútgáfan, [2017 og 2018].

395 og 417 bls., skrár.

Hvernig sem á allt er litið hljóta þessi tvö viðamiklu bindi með ritum Lúthers að teljast merkasti afrakstur afmælisársins og muni þegar til lengdar lætur skila hvað mestu gagni. Það var enda mjög við hæfi að á afmælisárinu væri einmitt miklu púðri varði í að gefa út ritverk Lúthers sjálfs á íslenski. Ber þar margt til. Prentað mál réð langmestu um þann framgang sem hugmyndir Lúthers fengu og þau áhrif sem þær höfðu. Heildarritsafn hans fyllir á annað hundrað viðamikilla binda. Þá lagði hann grunn að þýsku ritmáli með bibilíuþýðingu sinni. Það var mál til komið að við Íslendingar ættum greiðari leið að verkum þessa mikla höfundar.

Furðu lítið hefur farið fyrir ritum siðbótarfrömuðarins hér á hjara hins lútherska heims. Halldór Laxness drap á þessa staðreynd í Atómstöðinni en þar segir m.a. frá samtali norðastúlkunnar Uglu við lífskúnstnerinn, spekinginn og organistann sem tekið hafði hana í læri. Þegar hann spyr hvaða trú eigi að boða í kirkju stóðbóndans Fals í Eystridals  sem þá var í byggingu svarar stúlkan: „Og ég held nú sosum ekki neitt merkilega trú, […] ætli að verði ekki þessi sama gamla lúterstrú.“  Viðbrögð organistans verða sterk: „Ég hef aðeins þekt einn mann sem las Lúter, hann var sálfræðíngur og var að skrifa vísindarit um klám.[1] —Þýðingar- og útgáfusaga rita eftir Lúther hérlendis bendir til að nóbelshöfundurinn hafi hitt naglann á höfuðið. En vonandi verður nú breyting til batnaðar.

Ritin í fyrra bindinu eru frá þeim tíma er átök Lúthers við andleg og veraldleg yfirvöld stóðu sem hæst. Þarna er að finna greinar 95 um aflátssöluna sem hleyptu öllu í bál og brand og marka upphaf siðbótarinnar. Þá er þarna að finna nokkur af þekktustu siðbótarritum Lúthers: Um góðu verkin, Um frelsi kristins manns, og Um Babýlonarherleiðingu kirkjunnar. Ákall hans til hins þýska aðals og Um ánauð viljans  hafa aftur á móti þegar komið út í Lærdómsrita-röð HÍB. Þá er þarna að finna ýmsa forvitnilega texta eins og bréf til páfa og keisara, varnarræðuna frá ríkisþinginu í Worms og sýnihorn af predikunum.

Síðara bindið hefur aftur á móti að geyma texta frá því skeiði er siðbótin var að festa sig í sessi og þróast yfir í lútherska kirkju. Þarna er að finna rit sem lögðu grunninn á lútherskri alþýðufræðslu, Fræðin minni sem öldum saman lágu beint eða óbeint til grundvallar fermingarundirbúningnum og Fræðin meiri sem ætluð voru fræðurunum. Þarna eru líka rit sem lögðu grunn að lúthersku helgihaldi og raunar kristnihaldi í víðum skilningi, Þýsk messa og skipan guðsþjónustu auk skírnar- og giftingarkvers, stefnumarkandi plögg á borð við Schmalkaldengreinarnar auki ýmissa annarra texta.

Saman gefa bindin tvö fjölbreytta mynd af verkum Lúthers. Upphaflega mun hafa verið að því stefnt að safna nú einkum saman þeim verkum Lúthers sem þegar lágu fyrir á víð og dreif í íslenskum þýðingum frá eldri tímum og öll löngu orðin ófáanleg. Þessu máli gegnir um sum verkanna. Ljóst er þó að hér birtast margar nýþýðingar. Auðvitað má alltaf velta vöngum yfir vali á borð við það sem hér hefur átt sér stað. Fyrir mestu er þó að bindin tvö rúma athyglisverða breidd, hafa að geyma mörg af þekktustu ritum Lúthers en líka önnur miður þekkt. Á útgáfan vonandi eftir að hleypa nýju lífi í lestur á ritum Lúthers hér sem og rannsóknir á hinu margþætta framlagi hans.

Vonandi verður tækifæri til að fjalla frekar um einstök rit í þessu áhugaverða úrvali úr höfundarverki Lúthers bæði hér á Hugrás og á öðrum vettvangi á komandi tímum.

Áhrif Lúthers

Áhrif Lúthers; Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár.

Rirstjórar: Hjalti Hugason, Margrét Eggertsdóttir og Loftur Guttormsson.

Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2017.

516 bls., heimildaskrár.

Hér skal að lokum samhengisins vegna drepið á rit sem líta má sem framlag akademíunnar til siðbótarafmælisins. Hér er um að ræða 20 ritrýndar greinar sem eru afrakstur af þverfræðilegu rannsóknarverkefni — 2017.is — sem Guðfræðistofnun Háskóla Íslands hleypti af stokkunum 2011.

Ritgerðirnar skiptast í sex staði undir fyrirsögnunum „Samfélag og almenningsfræðsla“, „Þýðingar og úgáfa“, „Kirkjubyggingar og búnaður“, „Hugarfar og menning“, „Konur og kristni“ og loks „Guðfræði í sögu og samtíð“. Yfirskriftirnar varpa vonandi ljósi á fjölþætt viðfangsefni ritsins.

Vegna aðildar undirritaðs að bókinni er ekki við hæfi að segja á henni frekari kost og löst.

Uppskeran

Af þeirri samantekt sem hér hefur verið gerð má ráða af uppskeran af 500 ára afmælishátíð lúthersku siðbótarinnar er þó nokkur. Ættu flestir sem áhuga hafa á Lúther og/eða siðbótinni og áhrifum hennar að finna eitthvað við sitt hæfi. Ritin eru fjölbreytt og hvert og eitt þeirra leggur nokkuð af mörkum til skilnings á siðbótinni og afleiðingum hennar. Þegar þau eru öll lögð saman fæst vonandi einhver heildarmynd.

[1] Halldór Laxness, Atómstöðin, Reykjavík : Vaka-Helgafell, 1998, bls. 23.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila