Engin smá pilla

Ég get sagt það blygðunarlaust að ég elska söngleiki. Jafnvel þegar handritið er ekki upp á marga fiska þá get ég allaveganna tekið gleði mína yfir góðum söng og lögum. Og það var svo sannarlega raunin á föstudaginn síðastliðinn þegar ég fór á frumsýninguna á Eitraðri lítill pillu (Jagged Little Pill) eftir handritshöfundinn Diablo Cody sem skrifaði meðal annars handritin að bíómyndunum Juno og Jennifer’s Body. Verkið er sýnt í Borgarleikhúsinu og það er Álfrún Örnólfsdóttir sem leikstýrir. Verkið markar ákveðin tímamót því Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Hansa, snýr aftur á svið á svið í því eftir fimm ára fjarveru.

Gunnlaugur Bjarnason fjallar um sýningu Borgarleikhússins á leikritinu Eitruð lítil pilla.

Verkið er unnið út frá einni frægustu plötu 10. áratugarins, Jagged Little Pill, frá kanadísku tónlistarkonunni Alanis Morissette. Í kringum lögin er búin til saga af húsmóðurinni Mary Jane Healey og fjölskyldu hennar. Mary Jane (Jóhanna Vigdís) hefur nýlega lent í bílslysi og í bataferlinu ánetjaðist hún ópíóðum.

Umfjöllunarefnið er því afar dramatískt og áhorfendur fá að fylgjast með því þegar Mary Jane sekkur dýpra og dýpra í fíknina. Þó eru töluvert af fyndnum köflum í verkinu enda skrifað fyrir ameríkana sem eru ekki hrifnir af (of) miklum harmagrúti. Það sem stendur verkinu helst fyrir þrifum er að það er skrifað í kringum tónlist sem var þegar samin. Þess vegna verður söguþráðurinn heldur þunnur og þó að það eigi að heita að aðalefni verksins sé ópíóðafíkn þá er hlaðið utan um það efni fjöldinn allur af baráttumálum og vandamálum í nútímasamfélagi. Þannig fær áhugaverð umræða oft fremur snautlega yfirferð og handritið veður úr einu í annað í stað þess að staldra við. Gott dæmi um þetta er persónan Jo (Íris Tanja Flygenring). Jo er augljóslega kynsegin, eða að minnsta kosti afar leitandi. Þetta er ávarpað nokkrum sinnum óbeint í verkinu en ekki til lykta leitt. Endir verksins fannst mér svo einum of amerískur og heldur hallærislegur (ég hugsaði með sjálfum mér að ég væri að horfa á Hallmark-mynd en í þeim endar allt, alltaf, vel). Þá kemur á móti að þetta er söngleikur og ég gat vissulega gleymt mér yfir lögunum og flutningi þeirra. Enda eru lögin ekkert slor.

Mig grunaði alveg að ég yrði ekki svikinn af söng og leik Hönsu. Hún getur leikið sér afar vel með tímasetningar þannig að útkoman verður bráðfyndin. Hlutverk Mary Jane er þó nokkuð bandarískt, að því leyti að þessi týpa af kaþólskri, smábæjar-úthverfamömmu er okkur á Íslandi fremur framandi nema áhorfendur séu þeim mun betur að sér í amerískum poppkúltur.

Hansa fór vel og sannfærandi með hlutverk Mary Jane Healey og samleikur hennar og hins klámfíkna og heldur hallærislega eiginmanns, Steve Healy, (Valur Freyr Einarsson), var verulega góður.  

Raddbeiting Hönsu er afskaplega traust og hún flakkar áreynslulaust milli höfuð- og brjóstraddar líkt og kom mjög vel fram í fyrsta einsöngslagi Mary Jane, “Brosi”.  Ég hlustaði til gamans á flutning Elisabeth Stanley, leikkonunnar sem lék Mary Jane í Broadway flutningnum, á þessu sama lagi og ég ætla að láta hafa það eftir mér að Hansa gerir þetta miklu betur. Elisabeth Stanley “skúbbar” leiðinlega upp í efstu tónana en Hansa lætur það ekki eftir sér, syngur tónana af töluvert minni áreynslu og treystir greinilega hljóðfærinu sínu.

Það var bara á einum stað sem mér fannst hún taka listræna ákvörðun sem var mér ekki að skapi en það var í laginu “Ekki í boði” (Uninvited). Þá hefur ópíóðafíknin tekið alveg völdin af Mary Jane og hún stefnir hraðbyri niður í “helvítis helvíti”. Hansa gerði allt vel nema í hápunkti lagsins en þá hóf hún að öskra í stað þess að syngja. Þetta er svosem bara smekksatriði en ég held að hún hefði mögulega getað tjáð sömu tilfinningar án þess að hætta að syngja.

Álfrún Örnólfsdóttir, leikstjóri söngleiksins, benti reyndar sjálf á það í viðtali við Morgunblaðið henni finnist “stundum betra að söngurinn sé ekki algjörlega fullkominn heldur hrár og fallega ófullkominn. Aðalmálið er að hann komi frá hjartanu, frá innsta kjarnanum eins og hjá Alanis Morissette sjálfri.” Þessari listrænu sýn er ég hjartanlega sammála en ég er bara ekki sammála útfærslunni í þessu tilviki. Fyrir söngkonu eins og Hönsu sem er vön að syngja mjög fallega þá gæti ég trúað því að syngja ófullkomið gæti verið erfitt og þess vegna hefur framkvæmdin ekki heppnast sem skyldi.

Þetta gekk hins vegar alveg upp hjá leikkonunum Írisi Tönju Flygenring og Rán Ragnarsdóttur. Íris Tanja er algjör senuþjófur í hlutverki Jo, en Rán leikur Bellu, unga konu sem verður fyrir grófri árás – um það verður ekki meira sagt án þess að spilla sýningunni fyrir væntanlegum áhorfendum. Hlutverk Jo er afar spennandi og Íris Tanja gefur mikið af sér bæði í leik og söng. Jo syngur til dæmis eitt af frægustu lögum Alanis Morissette, „You Oughta Know“ sem heitir „Þú færð að sjá“ í íslenskri þýðingu. Lagið er frekar einfalt, en engu að síður nokkuð flókið í flutningi vegna þess að það er að miklu leyti á miðsviði raddarinnar, þar sem söngvarar geta átt erfitt að leyfa tónunum að ná flugi. Íris Tanja fór hinsvegar leikandi með þennan flutning, bæði þannig að allur texti skildist og að hver nóta skar í gegnum undirspil hljómsveitarinnar. Söngurinn var að auki fullkomlega í stíl við tónlistina, hrár og óheflaður og með mikið „attitjúd“.

Óvænt stjarna sýningarinnar var fyrrnefnd Rán Ragnarsdóttir. Rán hefur ekki margra ára reynslu í leikhúsi eins og aðrir í leikhópnum en bætti upp fyrir það með svo stórri rödd og svo góðu belti (e. belting) að ég féll í stafi. Hennar hápunktur í sýningunni er lagið „Gerandi“ („Predator“) en það var sérstaklega samið fyrir söngleikinn ásamt laginu „Brosi“. Lagið hefur gífurlega dramatískan endi sem ekki er á færi allra. Ekki nóg með að rödd Ránar sé traust, hún er líka spennandi, sérstaklega á efra sviðinu þar sem hún gat þrumað út afar skýrum og hljómmiklum nótum. Og þær komu greinilega beint frá hjartanu.

Hlutverk Frankie Healy, ættleiddrar dóttur þeirra Steve og Mary Jane, leikur Aldís Amah Hamilton. Það má segja að það sé annað aðalhlutverk sýningarinnar en líður fyrir það að önnur hlutverk eru áhugaverðari og skemmtilegri og handritið gerir persónunni ekki nógu hátt undir höfði. Mér leið stundum eins og eina hlutverk Frankie í handritinu væri að líma saman atburðarásina en persóna hennar kæmi málinu ekkert við – sem er mjög leitt. Aldís stóð sig samt afar vel með þennan takmarkaða efnivið. Það kom í hennar hlut að flytja eitt frægasta lag Alanis, „Ironic“, en í söngleiknum er það flutt sem upplestur í ritlistartíma (sem gefur viðvaningslegum texta lagsins nýtt samhengi). Það var eitt af fáum atriðum þar sem áhorfendur fá að kynnast Frankie betur og þá sömuleiðis þar sem Aldís fær að njóta sín sem leikkona.

Að þýðingu verksins stóðu þeir Matthías Tryggvi Haraldsson og Ingólfur Eiríksson. Samtölin voru óþvinguð að heyra og þeir hugsuðu greinilega út í að hafa mun á máli hinna eldri og yngri. Sums staðar þótti mér setningagerð yngri kynslóðarinnar enskuleg en mig grunar helst að þýðendurnir hafi ætlað að hafa það þannig. Söngtextana þýða þeir af miklu hugviti og þeim tókst meira að segja að koma inn íslenskri tvíræðni orðsins „pilla“. Ég vona bara að Borgarleikhúsið sjái sér fært að gefa út upptökur að lögunum svo við getum fengið að njóta þeirra í þýðingunni um ókomin ár. Þá mætti líka laga jafnvægið í hljóðstyrk milli hljómsveitar og söngvara, sérstaklega í samsöngsatriðum. Þar átti ég stundum erfitt með að greina orðaskil. Þannig mistök ættu ekki að eiga sér stað á stóra sviðinu og vonandi að það verði lagað á næstu sýningum.

Leikmynd Evu Signýjar Berger er einföld og stílhrein, hún nýtir sér nokkur einföld tákn eins og krossinn og hlekki á keðjum til að koma skilaboðunum á framfæri. Sviðið er aldrei ofhlaðið eins og er oft hætta á með stóra söngleiki. Búningar Karenar Briem minntu mig helst á þættina Sex Education sem voru sýndir á Netflix, tímalausir en samt svo kunnuglegir.

Áhorfendur mega eiga von á góðri skemmtun ef þeir geta litið framhjá illa unnu handritinu. Ég get allavega sagt það sjálfur að lög Alanis Morissette hafa verið í stanslausri spilun síðan á föstudaginn og verða það eitthvað eitthvað áfram.

Gunnlaugur Bjarnason, íslenskufræðingur og söngvari.