Elskaðu mig!

Börn sem ekki fá að njóta sjálfsagðrar ástar foreldra sinna leita að staðgengli fyrir þessa ást hvar sem er annars staðar og reyna þannig að fylla upp í það tómarúm sem skapaðist í barnæsku þeirra. Þannig hugsaði ég að minnsta kosti þegar ég sat frumsýninguna á einleiknum Saknaðarilm sem er bæði leikinn og skrifaður af Unni Ösp Stefánsdóttur. Verkið er byggt á tveimur bókum Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, Aprílsólarkulda og Saknaðarilm. Bækurnar segja báðar frá ævi Elísabetar og þá einkum tveimur afgerandi atburðum í lífi hennar, þegar hún er svipt sjálfræði og nauðungarvistuð á geðdeild árið 1978 og svo þegar mamma hennar, rithöfundurinn (eða ferðamaðurinn) Jóhanna Kristjónsdóttir, deyr. Þessir atburðir tengjast raunar, því það er móðir Elísabetar sem sviptir hana sjálfræði og lætur leggja hana inn á Klepp. Fyrirferð móðurinnar er því mikil í sýningunni þó svo að aðalpersónan reyni sitt ýtrasta til að reka hana úr sýningunni sinni.

Gunnlaugur Bjarnason, íslenskufræðingur og söngvari, fjallar um einleikinn Saknaðarilm í sýningu Þjóðleikhússins.

Í byrjun verksins stendur staðgengill Elísabetar, Unnur Ösp, fyrir framan hvítt tjaldið og ávarpar áhorfendur. Til að undirstrika þennan fyrrnefnda skort á sjálfsöryggi og sífellda leit að viðurkenningu sem Elísabet naut ekki í barnæsku sinni, þá spyr Unnur áhorfendur, þegar sýningin á að hefjast, hvort það sé “ekki bara rétt að byrja?” Allt látbragð og leikur Unnar er magnaður. Henni tekst á afar sannfærandi máta að túlka maníska og óörugga konu sem finnst greinilega ennþá að hún þurfi að ritskoða sig eins og maður gerir gagnvart þeim sem hafa vald yfir manni, eins og foreldrum. Lítil smáatriði í leik Unnar, eins og sífellt fitl í leðurjakkaermi, vandræðalegar augngotur og fleira, gulltryggðu leikinn gjörsamlega.

Ég var efins áður en ég mætti á sýninguna enda hafði ég þá nýverið lesið bókina Saknaðarilm og átti erfitt með að finna til samkenndar með Elísabetu. Textinn er of berorður og harmþrunginn þannig að sú sátt sem Elísabet finnur loksins gagnvart móður sinni tapast og þar af leiðandi gat ég ekki fundið til sátt í lok bókar. Í leik og handriti Unnar var hinsvegar auðvelt að finna til með persónunni og hún vinnur afar vel úr efniviðnum. Aðrir höfundar hefðu mögulega beint efninu í ennþá dramatískari átt en Unnur nýtir sér húmor og galsa til að koma efninu enn betur til skila og tekst vel upp. Góður brandari getur sagt svo miklu meira heldur en hádramatísk einræða. Atriðið þar sem Elísabet áttar sig á að móðir hennar elskaði hana auðvitað verður til dæmis mun sterkara og fallegra en í bókinni. Það var eingöngu undir lokin sem mér þótti handritið verða full orðmargt, líkt og Unnur vildi koma eins miklu frá sér og mögulegt væri. Þá tapaði sýningin tempóinu að einhverju leyti en tók það svo aftur upp í fallegum lokadansi.

Það var þó ekki eina skiptið sem Unnur dansaði (enda varla hægt að gera sýningu byggða á ævi Elísabetar Jökuls án þess að dansa að minnsta kosti einu sinni á kortersfresti). Margrét Bjarnadóttir sá um sviðshreyfingar og samvinna hennar og Unnar hefur augljóslega verið með besta móti því dansatriðin voru einkar falleg og hreyfðu við mér. Þó sá ég glitta í einstaka danshreyfingar sem minntu mig á verkið Vertu úlfur en það þarf svosem ekki að koma á óvart því það er að miklu leyti sama teymi sem stendur að baki báðum sýningum. Í Vertu úlfur var það Unnur sem leikstýrði eigimanni sínum, Birni Thors, en nú hafa hlutverkin snúist við og nú er það Björn sem leikstýrir Unni. Þeim hjónum tekst einkar vel til og Birni tekst greinilega vel til að halda verkinu og leiknum á beinni braut án þess þó að draga um of úr þeim hluta verksins sem er mest heillandi, nefnilega sturlunin.

Tónlistin er í höndum þeirra Ólafar Arnalds og Skúla Sverrissonar. Á hápunktum sýningarinnar tekst þeim einkar vel til og þá fer hljóð og mynd fullkomlega saman. Það var sérstaklega vel til fundið að spila Land míns föður þegar það er greinilegt að Elísabetu finnst eins og hún geti aldrei slitið sig undan minningu föður síns. Það má samt finna að einu hjá tónlistarfólkinu en það er sú ákvörðun að spila bakgrunnstónlist á meðan Unnur fór með einræður enda bætti það litlu við og truflaði bara ef eitthvað var.

Það er tvímælalaust hægt að mæla með því að fólk skelli sér í leikhús á Saknaðarilm. Þar á eftir ætti það að fara heim og sinna börnunum sínum. Annars gæti það farið svo að börnin semji einleik eða skrifi bók um ömurlega æsku sína í framtíðinni.

Gunnlaugur Bjarnason, íslenskufræðingur og söngvari.