Völundarhús þrárinnar

Við Guðrún Steinþórsdóttir sáum danska leikritið „Kannibalen“ í stútfullu Tjarnarbíói.  Aðsóknin að verkinu er skiljanleg, það er ögrandi og sjokkerandi og öðruvísi en allt annað sem verið hefur á senunni um langa hríð.

Verkið er byggt á raunverulegum atburðum (2001) þar sem þýski tölvunarfræðingurinn Armin Meywes  auglýsti á netinu, nánar tiltekið á spjallþræði áhugamanna um mannát, eftir ungum, stæltum manni um þrítugt sem vilji láta slátra sér og éta sig.

Margir svöruðu auglýsingunni og buðu sig fram, en hann valdi Berndt Jürgen, farsælan verkfræðing sem var í góðri sambúð með indælum manni en þráði það eitt að vera borðaður, helst lifandi. Þeir tala lengi saman á netinu og undirbúa gjörninginn í þaula, hvert smáatriði er skipulagt í smáatriðum og frágengið þeirra á milli.

Hinn raunverulegi Meywes var dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Armin Meywes er í sýningu Tjarnarbíós leikinn af Fjölni Gíslasyni og Berndt Jürgen af Jökli Smára Jakobssyni. Báðir fara þeir mjög vel með hlutverk sín, 

Smám saman dragast áhorfendur inn í atburðarás þar sem við kynnumst forsendum þeirra hvors um sig. Berndt/Jökull Smári er stressaður í upphafi, kaldur og hranalegur, vill bara „drífa í þessu“ en Armin/Fjölnir vill fara í öllu eftir reglunum sem þeir hafa sett og „njóta“ verknaðarins. Í báðum tilfellum reynist vera eyða í sálinni þar sem móðurást hefði átt að vera, ástarþrá og hungur sem báðir trúa að verði aðeins satt með algjörum samruna við aðra manneskju sem vill hið sama. Og þegar þessum draumi er fylgt eftir er engin leið til baka.

Venjulegt og sæmilega geðheilt fólk eins og við Guðrún og allir þeir sem fylltu Tjarnarbíó skilur alls ekki þá sjúku hugaróra sem liggja að baki svona verknaðar og enn minna þann hrylling sem fylgir því að raungera hann. Það er nú einu sinni svo að bannið við mannáti skilur menn frá (öðrum) dýrum. Að hunsa þetta  tabú, jafngildir að segja sig úr lögum við sína tegund og jafnvel þar sem stigið er yfir þau mörk í frumstæðum helgisiðum eða mikilli hungursneyð er það aldrei sjálfsagt.

Höfundur verksins „Kannibalen“ er danski höfundurinn Johannes Lilleøre, leikari og rithöfundur. Hann gefur verki sínu undirtitilinn, „ástarsaga“. Samspilið milli þeirra Meiwes og Jürgen í leikritinu afhjúpar smám saman að einmanaleiki þeirra og blekkingin sem knýr þá báða áfram er bæði sterk og óafurkræf og kannski harmræn og rómantísk.

En eitt er víst og það er að þessi sýning fer (því miður) ekki úr kolli áhorfanda um leið og gengið er úr salnum en heldur áfram að trufla mann!

Adolf Smári Unnarsson og Júlía Gunnarsdóttir þýddu leikritið á íslensku. Adolf Smári leikstýrði því og Júlía sá um búninga. Ronja Jóhannsdóttir sá um tónlistina.

Lýsing í verkinu var verk Magnúsar Thorlacius, nákvæm og mínimalísk, áhrifamiklar nærmyndir af hinum deyjandi Berndt sem varpað var á svartan bakgrunn sviðsmyndar, voru næstum óbærilegar.

Vel gert Tjarnarbíó!

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.