Saga viðhorfa til Íslands og Grænlands

Út er komin bókin Í fjarska norðursins. Ísland og Grænland, viðhorfssaga í þúsund ár í útgáfu Sögufélagsins. Höfundur er Sumarliði R. Ísleifsson, lektor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, en hann hefur um langt skeið rannsakað ímyndasögu Íslands og Grænlands. Þjóðirnar sem byggja eyjarnar tvær hafa lengi verið framandi í augum annarra og ímyndir þeirra voru oft svipaðar en margt hefur líka greint á milli. Í þessari bók er leitað svara við því hvers vegna íbúum þessara landa hefur ýmist verið lýst sem verstu villimönnum eða fyrirmyndarfólki og af hverju Íslandi og Grænlandi hafi stundum verið lýst sem djöflaeyjum og stundum sem fjársjóðs- eða sælueyjum. Bókin er tæpar 400 síður með um 200 myndum.

Sumarliði R. Ísleifsson er doktor í sagnfræði. Hann hefur kannað ímyndasögu Íslands og Grænlands um langt skeið og fjallað um það í greinum og bókum. Hann hefur einnig fjallað um sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar, atvinnusögu á 19. og 20. öld og sögu stjórnsýslu. Þá hefur hann stýrt og tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, ritstýrt bókum og búið til prentunar og sett upp sýningar. Hann er nú lektor í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila