Lokabindi Smásagna heimsins komið út

Undanfarin fimm ár hafa þrír kennarar á Hugvísindasviði, þau Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason, ritstýrt ritröðinni Smásögur heimsins sem kemur út hjá bókaforlaginu Bjarti. Fimmta og síðasta bindi ritraðarinnar er nú komið út og er það helgað smásögum frá Evrópu. Bindið hefur að geyma 20 smásögur eftir jafnmarga evrópska höfunda. Sú elsta, „Dómurinn“ eftir Franz Kafka, er frá árinu 1913 en sú yngsta, „Þegar ég var Pila gamla, dauð en í blóma lífsins“ eftir Króatann Zoran Malkoč, er frá 2008.

Með Smásögum heimsins: Evrópu lýkur viðamikilli kortlagningu á heimi smásögunnar undanfarna öld. Sögurnar eru orðnar 94 talsins og segjast ritstjórar í inngangi að Evrópubindinu, vonast til að þær hafi víkkað sjóndeildarhring lesenda enda hafa í ritröðinni verið kynntir margir áður óþýddir höfundar og birtar sögur frá löndum sem sjaldan eiga uppi á pallborðið hérlendis. Rúnar Helgi hefur birt á heimasíðu sinni samantekt um verkefnið þar sem kemur meðal annars fram að 45 þýðendur hafi komið að verki og voru sögurnar þýddar úr 20 ólíkum tungumálum.

Í inngangi Jóns Karls Helgasonar að Evrópubindinu segir að þrátt fyrir mállega fjölbreytni evrópskra bókmennta hafi þróun einstakra bókmenntagreina, þar á meðal smásögunnar, verið saga mikilla gagnkvæmra áhrifa. Ört vaxandi vinsældir smásögunnar sem bókmenntaforms í Evrópu á nítjándu öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu héldust í hendur við öfluga útgáfu tímarita og blaða og voru smásagnaþýðingar umtalsverður hluti þess efnis sem þar birtist. Af þessum sökum séu gildar forsendur til að fjalla um evrópsku smásöguna sem sérstakt bókmenntasögulegt fyrirbæri sem mótast hafi í deiglu nítjándu aldar og náð fullum þroska með tuttugustu aldar skáldum á borð við James Joyce og Virginiu Woolf. Þau síðarnefndu eiga bæði sögur í bindinu. Um leið megi líta svo á að Evrópa samanstandi af ýmsum menningarsvæðum þar sem bein áhrif milli höfunda eru virkari og sameiginleg einkenni augljósari. Þannig megi greina arfleifð rússneska nítjándu aldar skáldsins Nikolais Gogols með jafn skýrum hætti í sögu Serbans Nikolais Haitov í bindinu og í sögu hinnar rússnesku Tatyönu Tolstaya. Þá minna sögur grænlenska skáldsins Ole Korneliussens og norsku skáldkonunnar Lailu Stien, sem fjallar um veruleika Lappa, á að innan þjóðríkja Evrópu eru margháttuð jaðarsvæði og hópar sem eiga í álíka spennuþrungnu sambandi við menningarlegar „miðjur“ heimsálfunnar og ýmis önnur lönd og svæði heimsins eiga í við Evrópu.

Jón Karl Helgason, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Rúnar Helgi Vignisson ritstjórar ritraðarinnar Smásögur heimsins. Fimmta og síðasta bindi ritraðarinnar er nú komið út og er það helgað smásögum frá Evrópu.

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila