Íslensk samtímaljósmyndun frá ólíkum sjónarhornum

Átta fræðimenn fjalla um íslenska samtímaljósmyndun í bókinni Fegurðin er ekki skraut sem Fagurskinna gefur út. Ritstjórar bókarinnar eru Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur og dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Sigrún Alba Sigurðardóttir, menningarfræðingur og dósent við Listaháskóla Íslands. Greinahöfundar eru Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, listfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands, Birkir Karlsson listfræðingur, Brynja Sveinsdóttir, listfræðingur og sýningarstjóri, Einar Falur Ingólfsson, ljósmyndari og blaðamaður, Linda Ásdísardóttir, sérfræðingur við Þjóðminjasafn Íslands, Sigrún Alba Sigurðardóttir og Æsa Sigurjónsdóttir.

Í bókinni er fjallað um samtímaljósmyndun út frá ólíkum sjónarhornum og hún sett í samhengi við alþjóðlega strauma í ljósmyndun, myndlist, heimspeki og listasögu. Í bókinni er jafnframt að finna fjölda ljósmynda eftir marga helstu ljósmyndara landsins. Í kynningartexta segir að samtímaljósmyndun sé mikilvægur og áhrifaríkur þáttur í íslenskum myndlistarheimi, enda hafi ljósmyndun það að markmiði „að vekja til umhugsunar, hreyfa við, breyta, rugla okkur í ríminu eða endurspegla gildismat og sýn okkar á heiminn, miðla hugmyndum og jafnvel afstöðu til lífsins og samfélagsins sem við erum hluti af.“

Titill bókarinnar Fegurðin er ekki skraut er vísun í ljóð Sigurðar Pálssonar  (1948–2017) „Raddir í loftinu“:

Hvað sem hver segir
er fegurðin ekki skraut
heldur kjarni lífsins.

Átta fræðimenn fjalla um íslenska samtímaljósmyndun í bókinni Fegurðin er ekki skraut. Meðal höfunda eru Æsa Sigurjónsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir, Gunnar Harðarson og Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir.

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila