Brennivínið í Bónus og íslensk umræðuhefð

Mál málanna nú um stundir er frumvarp um breytingar á lögum um verslun með áfengi. Málið er rætt af kappi bæði á þingi og utan þings. Sitt sýnist hverjum og mörgum er niðri fyrir. Í þessu máli eins og svo fjölmörgum öðrum birtist íslensk umræðuhefð í öllu sínu veldi. Algeng birtingarmynd hennar er stílbragð sem kalla má pólaríseringu.

Auðvitað er um eldgamalt mælskubragð að ræða. Ugglaust hefur þó MORFÍS-keppni framhaldsskólanna fest það mjög í sessi upp á síðkastið. Þetta er í raun ómerkilegt bragð sem er notað til að drepa umræðu á dreif en er ekki til þess fallið að leiða málefni til lykta.

Nýlegt dæmi um pólaríseringu

Gott dæmi um mælskubragðið kemur fram í grein sem Guðmundur Edgarsson kennari og málmenntafræðingur birti í Fréttablaðinu 10. mars 2017 undir titlinum „Áfengisfrumvarpið enn og aftur“.

Í upphafi greinar sinnar lýsir Guðmundur breytingunni sem varð þegar „Ríkið“ gamla breyttist í Vínbúðina með þeirri nútímavæðingu sem þá átti sér vissulega stað og við fögnuðum mörg. Þar næst slær hann því föstu að breytingin sem nú er tekist á um sé aðeins næsti áfangi í þeirri sömu þróun. Í framhaldinu tekur hann næsta skref sem felst í að gera andstæðinga þess að færa áfengissöluna yfir í matvörubúðir hlægilega. Það gerir hann með að kalla skrif þeirra (þar á meðal að líkindum þennan pistil) „harmþrungnar ræður“ og „svartagallsraus“. Þá er komið að fjórða skrefinu, pólaríseringunni sjálfri. Guðmundur gefur enda í og staðhæfir að andstæðingar breytingarinnar hljóti í raun að vilja að „Ríkið“ verði endursreist í fornri mynd, dregið verði úr þjónustu, aðgengi að áfengi skert enn frekar en nú er, verð verði stórhækkað og vöruúrvalið minnkað til muna.

Guðmundur slær því síðan föstu að aðeins geti verið um tvo hópa að ræða í málinu. Annar er „frelsisþenkjandi fólk“ eins og hann sjálfur. Í hinum erum aftur á móti við sem erum mótfallin meginstefnu frumvarpsins. Guðmundur álítur að það sé þó ekki sú afstaða sem gerir okkur út heldur telur að við látum raunverulega stjórnast af neikvæðni, íhaldssemi, óþoli gagnvart frelsisþrá annarra og dálæti á ríkisrekstri. Eftir þessa yfirhalningu er auðvitað ekki heiglum hennt að ræða málefnið sjálft.

Varst ber gryfju Guðmundar

Öllum má ljóst vera að málið er ekki svona einfalt. Hóparnir sem þátt taka í umræðunni eru miklu fleiri. Ég ætla ekki að leitast við að skilgreina þá alla enda gæti ég þá fallið í gryfju Guðmundar. Dilkadráttur orkar líka alltaf tvímælis. Með hjálp pólaríseringarinnar hefur hann eiginlega alveg leitt hjá sér að ræða áfengismálið sjálft af einhverju viti. Því er grein hans lítils virði í annars mikilvægri umræðu.

Það er vel hægt að hafa þó nokkuð frjálslynda afstöðu til áfengis og áfengissölu án þess að vilja fullt frjálsræði í því efni. Ég vil t.a.m. geta keyp áfengi í aðlaðandi verslun þar sem bæði er góð og fagleg þjónusta og breitt vöruúrval. Mér er ekkert keppikefli að áfengi sé dýrt nema síður sé! Ég viðurkenni á hinn bóginn að verðið verði að endurspegla að ekki er um mjólk að ræða heldur þvert á móti drykk sem hefur mun meiri samfélagslegan kostnað í för með sér!

Ég er andvígur frjálsri sölu áfengis í matvöruverslunum vegna þess að ég dreg mjög í efa að breytingin sem frumvarpið boðar muni leiða til meira vöruúrvals. Ég er líka algerlega sannfærður um að breytingin mun draga úr þeirri faglegu þjónustu og ráðgjöf sem nú er í boði og ég efast stórlega um að verð muni lækka. Eftir sem áður hlýtur hagnaður af áfengissölu að þurfa að standa að hluta til undir forvarnastarfi og íslenskir verslunarrekendur munu svo sannarlega vilja fá sinn hluta af hagnaðinum af áfengi ekki síður en annarri vöru.

Auk þessa vil ég svo halda því blákalt fram að heilmikill munur sé á að selja áfengi samkvæmt núgildandi lögum en samkvæmt ákvæðum frumvarpsins verði það að lögum jafnvel þótt skammt kunni að vera milli Vínbúðar og matvöruverslunar. En um það má auðvitað deila.

Sakaðsemi pólaríseringar

Grein Guðmundar Edgarssonar er vissulega mjög gott dæmi um pólaríseringu enda er hún rituð af málmenntafræðingi. Pólarísering gerir þó víða vart við sig í íslenskri orðræðu. Hún er t.a.m. landlæg í trúmálaumræðunni í landinu. Einnig þar er oftar en ekki gert ráð fyrir tveimur hópum: skynsömu nútímafólki og bókstafstrúarmönnum. Það er sjaldan gert ráð fyrir að mögulegt sé að taka einhvern þriðja pól í hæðina hvað þá fleiri!

Afleiðingar pólaríseringar eru m.a. að við ræðum ekki saman heldur tölum hvert framhjá öðru, við opnum ekki dyr og glugga heldur reisum múra, reynum ekki að skilja hvert annað heldur ölum á tortryggni og óvild.

Hvernig væri að reyna aðeins að nálgast kjarna hvers máls og mismunandi viðhorf til hans af örlítið meiri víðsýni en í MORFÍS? Þar snýst keppnin nefnilega ekki um lausn vandamála eða gildi málstaðar heldur fyrst og fremst tækni.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila