Skynheild ímyndarinnar

Hjartasteinn er fyrsta kvikmynd leikstjórans Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd, en Guðmundur skrifar jafnframt handritið. Með þessari mynd skipar Guðmundur sér í röð efnilegra ungra leikstjóra sem kvatt hafa sér hljóðs á undanförnum árum.

Hvað hugðarefni og þematískar áherslur varðar, til að mynda löngunina til að fanga mynd af „Íslandi“ sem er ekki beinlínis nútímaleg og verður seint tengd táknmyndinni „101 Reykjavík“, virðast Rúnar, Grímur og Guðmundur vinna með skýlausum hætti innan kvikmyndahefðar sem búin er til af Friðriki Þór Friðrikssyni.
Hef ég þar ekki síst í huga leikstjóra á borð við Rúnar Rúnarsson (Eldfjall, Þrestir), Grím Hákonarson (Sumarlandið, Hrútar), og Baldvin Zophoníasson (Órói, Vonarstræti), en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa stigið fram með myndrænni og fagurfræðilegri fágun og öryggi í sínum fyrstu myndum. Hvað hugðarefni og þematískar áherslur varðar, til að mynda löngunina til að fanga mynd af „Íslandi“ sem er ekki beinlínis nútímaleg og verður seint tengd táknmyndinni „101 Reykjavík“, virðist Guðmundur jafnframt eiga nokkra samleið með þeim tveimur fyrstnefndu en Rúnar og Grímur (og Guðmundur af Hjartasteini að dæma) vinna með skýlausum hætti innan kvikmyndahefðar sem búin er til af Friðriki Þór Friðrikssyni.[1]

Árið 2013 sendi Guðmundur frá sér stuttmyndina Hvalfjörður en Brynja Hjálmsdóttir benti nýverið á það í Morgunblaðinu að rekja megi ákveðinn þráð hvað söguefni varðar milli myndanna tveggja.[2] Auk þess leggur Brynja áherslu á hversu tilkomumikil myndræn hlið Hvalfjarðar hafi verið, en þar snertir hún á því sem kann að vera einn helsti styrkleiki leikstjórans, myndskyn hans og næmi fyrir hverfulli fegurð. Brynja bendir jafnframt á þá umtalsverðu velgengni sem stuttmynd Guðmundar naut á erlendum vettvangi en þar ber hæst að Hvalfjörður var valin til þátttöku í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í flokki stuttmynda.

Viðtökur og væntingar

Þeir sem fylgdust með velgengni Hvalfjarðar kunna að hafa beðið Hjartasteins með nokkurri eftirvæntingu og víst er að sú síðarnefnda hefur hlotið prýðilegar viðtökur, bæði hvað gagnrýnendur varðar og aðsókn. Áðurnefndri umfjöllun Brynju í Morgunblaðinu fylgja fjórar og hálf stjarna og í Lestinni á Rás 1 fjallar Gunnar Theodór Eggertsson lofsamlega um myndina, svo aðeins tvö dæmi séu nefnd um viðbrögð gagnrýnenda.

Umfjöllun Gunnars á það jafnframt sameiginlegt með dómi Brynju að taka velgengni Guðmundar á erlendri grund til umfjöllunar, en í samhengi við nýju myndina, Hjartastein. Gunnar fer í gegnum ákveðna hápunkta og staksteina og nefnir meðal annars að Hjartasteinn hafi hlotið gagnrýnendaverðlaunin FIPRESCI í Kiev, sérstök dómnefndarverðlaun á Thessaloniki-hátíðinni í Grikklandi, leikstjóraverðlaun á ónefndri kvikmyndahátíð í Varsjá, og svo það sem áhugaverðast er – eða virkar sem vísbending um þann flöt myndarinnar sem gerir hana frábrugðna öðrum myndum íslenskum sem annars gætu þótt Hjartasteini keimlíkar hvað efnistök varðar –  en það eru viðurkenningar sem sérstaklega taka fyrir umfjöllun myndarinnar um málefni og reynsluheim samkynhneigðra og LBGTQ samfélagsins. Í þessu samhengi bendir Gunnar sérstaklega á Hinsegin-ljónið í Feneyjum og Q Hugo verðlaunin í Chicago (en um allt þetta og margt fleira má fræðast á heimasíðu myndarinnar þar sem vegferð hennar um heiminn, og heim kvikmyndahátíða er kortlögð).

Er kvikmyndalandslag aldrei asnalegt?

Umfjöllun sinni um viðtökusögu Hjartasteins á erlendri grundu lýkur Gunnar með eftirtöldum orðum: „Af þessum ástæðum hefur Hjartasteinn dúkkað upp í kvikmyndafréttum reglulega síðustu mánuði og sjaldan sem við áhorfendur fáum að heyra svo mikið rætt um íslenska mynd áður en við fáum tækifæri til að sjá hana sjálf. Kvikmyndin kemur því heim til Íslands með heilmiklar væntingar í farteskinu“.

Veggspjöld kvikmyndanna Hrútar og Englar alheimsins.

Það sem Gunnar snertir hér á tengist í víðara samhengi vaxandi erfiðleikum við að markaðssetja svokallaðar „íslenskar listamyndir“ hér á landi, en aðsókn að slíkum myndum hefur dregist saman á að allt að því katastrófískan hátt síðan Friðrik Þór Friðriksson var á markaðslegum hápunkti ferilsins og hátt í hundrað þúsund áhorfendur sóttu kvikmyndir á borð við Djöflaeyjuna (1996) og Engla alheimsins (2000) í kvikmyndahúsum. Allt annar veruleiki blasir við nú um mundir. Ef litið er á árið 2015 má til að mynda sjá að aðsókn á íslenskar myndir á borð við Þresti (Rúnar Rúnarsson, 2015), Albatross (Snævar Sölvason, 2015) og Bakk (Davíd Óskar Ólafsson og Gunnar Hansson, 2015) reyndist á bilinu 4000–7000 seldir miðar – og þá kannski ekki að undra að sú af þrennunni sem minnst á skylt við „listabíóið“ svokallaða, Bakk, gekk best.

Jafnvel „smelli“ eins og Fúsa (2015) eftir Dag Kára Pétursson sáu aðeins um 13.000 manns og Hrúta eftir Grím Hákonarson fóru um 20.000 að sjá í bíói þetta sama ár.

Punkturinn er sá að öruggasta leiðin til að „listræn“ íslensk mynd fái einhverja aðsókn hér á landi er að sýna hana fyrst sem víðast erlendis og vonast eftir velgengni á kvikmyndahátíðum, lofsamlegum umsögnum og fögrum orðum í þekktum tímaritum og dagblöðum, The Hollywood Reporter eða Variety til dæmis. Hrútar er besta dæmið síðustu ár um hversu vel þessi leið getur reynst, það er að segja ef viðkomandi verki er tekið opnum örmum erlendis. Aðstandendur Hjartasteins virðast hafa hafa spilað hönd sína vel og tekist að nokkru leyti að endurtaka leikinn. Staðfesting á því eru orð Gunnars um að „Hjartasteinn [hafi] dúkkað upp í kvikmyndafréttum reglulega síðustu mánuði og sjaldan [sé það] sem við áhorfendur fáum að heyra svo mikið rætt um íslenska mynd áður en við fáum tækifæri til að sjá hana sjálf.“ Hér ræðir Gunnar um óbeinar auglýsingar.

Öruggasta leiðin til að „listræn“ íslensk mynd fái einhverja aðsókn hér á landi er að sýna hana fyrst sem víðast erlendis og vonast eftir velgengni á kvikmyndahátíðum, lofsamlegum umsögnum og fögrum orðum í þekktum tímaritum og dagblöðum
Athyglisvert dæmi um hvernig áherslur í kynningu myndarinnar tóku breytingum eftir að ljóst varð að gangur væri á Hjartasteini erlendis er kynningarstikla myndarinnar frá sl. hausti annars vegar og hins vegar sú sem notuð hefur verið við markaðssetningu myndarinnar undanfarnar vikur, og má meðal annars sjá á kvikmyndir.is. Um er að ræða nokkurn veginn sömu stikluna, nema inn í þá síðari er umsögnum erlendra kvikmyndagagnrýnenda, verðlaunum og hátíðarflakki flaggað svo hressilega að sífelld innskotin eru að lokum það sem sýnishornin virðast fyrst og fremst fjalla um.

Hér er vitanlega ekki verið að leggja dóm á markaðsaðferðir eða gagnrýna þær, þvert á móti, gangur Hjartasteins erlendis er gleðiefni og vonandi kveikir útlenskur áhugi þann innlenda, eða heldur lengur við.

Sú sérstaða er hvorki menningarleg né tengist hún landshluta eða byggðarlagi heldur sjónrænni birtingarmynd söguheimsins, myndatöku og klippingu, en óhætt er að segja að það sé á þessu sviði sem Hjartasteinn njóti sín best og sé sterkust
Einfaldlega er verið að gaumgæfa ákveðið stofnanalegt og markaðslegt umhverfi sem íslenskar myndir búa við í dag, og atriði sem þessi segja okkur ýmislegt um íslenska kvikmyndamenningu samtímans og það landslag sem blasir við kvikmyndagerðarfólki hérlendis. Það á sér vafalaust margþættar skýringar að erfitt sé að markaðssetja íslenska „listamynd“ (nokkuð sem lesa mætti sem „hefðbundna“ evrópska kvikmynd) á Íslandi og áhorfendur kjósi í auknum mæli glæpamyndir og melódrömu í anda Hollywood –  tvö dæmi sem hér mætti nefna um tiltölulega velheppnaða aðlögun á bandarískum formúlum eru Svartur á leik (2012) eftir Óskar Axelsson og Vonarstræti (2014) eftir Baldvin Zophoníasson, einkum sú fyrrnefnda  –  en hlutaðeigandi hlýtur að vera hversu samofin íslensk kvikmyndamenning er þeirri bandarísku, og hversu fjarri hún er Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu (nokkuð sem aftur tengist framboði, kvikmyndakúltúr sem Árni Samúelsson öðrum fremur festi í sessi á níunda áratugnum, ungum aldri íslenskra bíógesta o.s.frv.)

Þorpið

Hjartasteinn segir frá félögunum Kristjáni (Blær Hinriksson) og Þóri (Baldur Einarsson), ungum strákum á miðjum unglingsaldri, og lífi þeirra í litlu þorpi á landsbyggðinni. Myndin var tekin í Borgarfirði en sögusviðið er aldrei staðsett með neinni vissu, hvorki í tíma né rúmi. Að sumu leyti er hér um hina eilífu þorpsmynd íslenskra kvikmynda að ræða en ekki er þó ráðlegt að einfalda málin svo mjög, ýmislegt er gert til að ljá sögusviðinu sérstöðu. Sú sérstaða er hvorki menningarleg né tengist hún landshluta eða byggðarlagi heldur sjónrænni birtingarmynd söguheimsins, myndatöku og klippingu, en óhætt er að segja að það sé á þessu sviði sem Hjartasteinn njóti sín best og sé sterkust, líkt og vikið er að hér að ofan.

Tímaóvissan truflar ekki frásagnarflæðið og kemur þar til að ljóst er að ekki er horfið ýkja langt aftur á bak í tíma. Meðan á áhorfi stóð freistaðist ég til að staðsetja söguna á árunum 2002-2005, og miðaði þar við tónlistarval og ýmislegt annað, en þetta er reyndar ekkert lykilatriði fyrir merkingarvirkni myndarinnar, ekki frekar en hvar nákvæmlega sögunni vindur fram.

Nærsamfélagið

Nærsamfélag Þórs og Kristjáns eru foreldrahúsin og fjölskylda annars vegar og svo vinahópurinn hins vegar. Hvað vini varðar eru jafnöldrur drengjanna, Beta og Hanna, leiknar af Diljá Valsdóttur og Kötlu Njálsdóttur, mikilvægastar – erfitt er reyndar að segja til um aldursbil persónanna (rétt einsog tíð og stað), og þess má geta að Kristján virkar ávallt töluvert eldri en Þór – þar sem þær renna hýru auga til drengjanna, og þeir sýna þeim áhuga á móti, eða virðast gera það.

Katla Njálsdóttir sem Hanna og Diljá Valsdóttir sem Beta.

Heimilisaðstæður eru erfiðarar hjá Þóri og Kristjáni báðum, sýnu ömurlegri þó hjá Kristjáni. Faðir hans er fyllibytta, þurs og ofstopamaður, og fær Kristján að finna skapgerð föður síns á eigin skinni, líkt og sumir aðrir þorpsbúar raunar einnig. Ásamt systrum sínum er Þór alinn upp af einstæðri móður, Huldu sem leikin er af Nínu Dögg Filippusdóttur. Hulda er sveimhugi en fyrst og fremst er hún óhamingjusöm, aðþrengd af fordómum smábæjarhugarfarsins. Hulda er álitin hóra ef hún lyftir sér upp og finnur sér næturlangan félagsskap, jafnt af þorpsbúunum og börnum sínum.

Nína Dögg Filippusdóttir og Baldur Einarsson í hlutverkum sínum.

Samband Kristjáns og Þórs við stúlkurnar og nývöknuð og ringluð kynverund drengjanna, einkum Kristjáns, reynast svo helstu viðfangsefni myndarinnar. Kristján er samkynhneigður, hann veit það en hefur ekki viðurkennt fyrir neinum, nema þá kannski helst Þóri, besta vini sínum, og það þá óbeint og með líkamlegri hegðun sinni. Við taka svo þrotlausir fyrirvarar um að aðeins sé um leik að ræða, engin meining sé á bak við hegðunina o.s.frv.

Þór er vinur sem Kristján er jafnframt skotinn í, nokkuð sem augljóslega er flókin og brothætt staða. Félagslegt umhverfi þorpsins takmarkar enn umsvifarými og andrými Kristjáns og gerir hreinskilna tjáningu á hans innra lífi erfiða í framkvæmd.

Þessum hluta sögufléttunnar er miðlað að miklu leyti óbeint, bæði fer söguþráðurinn sér hvergi óðslega og fálmið og hikið sem fylgir stöðu Kristjáns og hans innra lífi er þannig gert áþreifanlegt í formgerðinni sjálfri.

Sjónræn nautn

Ólíkt þorpsbúum og vinahópnum velkjast áhorfendur hins vegar ekki í neinum vafa um kynhneigð Kristjáns, tökuvélin rammar hann gjarnan af sem viðfang hómóerótískrar (eða kvenlegrar) sjónrænnar þrár og nautnar, eins og sjá má í myndaröð 1. Jafnvel þegar angist grípur Kristján, líkt og á þriðju myndinni, er hann ber að ofan og eymdin því ekki öll þar sem hún er séð.

Þá vaknar reyndar spurning um hver sé að horfa, og oftar en ekki er það Þór, nokkuð sem flækir málin því Þór er hinn klassíski gagnkynhneigði vinur í sögum sem þessum, sá sem fetar hina réttu braut kynferðislegra dyggða: Hafnar hommanum og byrjar með stelpu.

Þessi endurkastandi dýnamík sjónmálsins er stundum mjög áberandi eins og sjá má í myndaröð 2.

Horfa má sérstaklega eftir því í þessu samhengi hvernig breytiskerpa er notuð á fyrstu tveimur myndrömmunum. Á þeim fyrsta gefur að líta Kristján í grunnskerpu í stellingu sem minnir á framsetningaraðferðir í 19. aldar myndlist á föngulegum konum. Á þessari mynd er vangasvipur Þórs úr fókus, en á þeirri næstu er Kristján kominn úr fókus en við sjáum Þór skýrt, sem og hvert hann horfir – á Kristján. Ekki ósvipaða sjónmálsfestingu gefur að líta í sundlaugaratriði síðar í myndinni þegar tökuvélin beinir fyrst sjónum að Kristjáni, aftur kynferðislega framsettum, og svo sýnir gagnskot hver horfir.

Hinn sýnilegi heimur

Þá sýnist mér hið alþjóðlega hinsegin bíó jafnframt vera að mestu komið yfir píslarvættisblætið sem Hjartasteinn gerir svo sannarlega að sínu og hefur jafnvel tekið að hafna melódramatískum merkingaraukunum sem fylgja slíkum fléttum
Vissulega er athyglisvert að Hjartasteinn taki erfiðleika hinnar ósamþykktu kynverundar í litlu landsbyggðarþorpi til umfjöllunar. Það er langt í frá sjálfsagt í hinu hetrónormatífa íslenska þjóðarbíói. Að öðru leyti er sögufléttan þó kunnugleg og í alþjóðlegu samhengi er samkynhneigði vinkillinn auðvitað gamalgróinn. Þá sýnist mér hið alþjóðlega hinsegin bíó jafnframt vera að mestu komið yfir píslarvættisblætið sem Hjartasteinn gerir svo sannarlega að sínu og hefur jafnvel tekið að hafna melódramatískum merkingaraukunum sem fylgja slíkum fléttum. Það er ekki söguframvindan með öðrum orðum sem dregur fram styrkleika myndarinnar. Styrkleiki myndarinnar er hvernig hinu sjónræna sviði er miðlað af leikstjóranum Guðmundi og með kvikmyndatöku Sturlu Brandt Gøvlen, að ógleymdri klippingu Janus Billeskov Jansen og Anne Østerud.

Tökuvélin er lifandi vera í myndinni, hún hreyfist í návígi við leikara, sveimar um á milli þeirra og kann svo að taka fimlega sveiflu frá líkömum og í átt að náttúrunni, eða kannski sólinni sjálfri sem skyndilega er í miðgrunni. Myndavélin er áköf, innileg, nákvæm og afskaplega falleg á köflum, falleg á máta sem er frábrugðin hjakki landslagsklisjumyndatökunnar sem sýnir fossa og fagrar grundir úr öruggri og hófstilltri fjarlægð. Myndheimur Hjartasteins er tilvistarlegur, heimspekilegur (skrifa mætti snarpt og skemmtilegt greinarkorn um kvikmyndatökuna í Hjartasteini með hliðsjón af hugmyndum Heideggers um hið ljóðræna og náttúrlega, svo dæmi sé nefnt), og þar slær hjarta myndarinnar. Sums staðar er eins og myndavélinni sé ekki leyfður aðgangur. Mætti þar nefna heimili Kristjáns sem sjaldan er sýnt, enda ofstopamaður þar innandyra, á meðan fá sveitaheimili hafa lifnað við með jafn afdráttarlausum hætti í íslenskri kvikmynd og heimili Þórs gerir hér.

Myndavélin er áköf, innileg, nákvæm og afskaplega falleg á köflum
Í lok myndarinnar er eini vettvangurinn fyrir hinar sönnu tilfinningar Þórs og Kristjáns strigi málverks og á sambærilegan hátt mætti benda á að í hinum sýnilega heimi sögunnar, heimi manna sem löngu hafa lagt náttúruna undir sig, sé sannleikann um fagurfræði kvikmyndarinnar að finna. Í stráum morgunþulunnar, í spegilmynd Huldu sem dregur fram einmanaleika hennar, og svo í því hvernig lífskraftur æskunnar er fangaður, þarna glittir stundum í kvikmyndagaldur.

Hjartasteinn er fumlaus og að mörgu leyti afar athyglisverð frumraun, vitanlega ekki gallalaus (alltof löng til dæmis), en stendur á eigin fótum og lofar góðu um framtíð þeirra sem að henni koma.

Leikstjóri: Guðmundur Arnar Guðmundsson; handrit: Guðmundur Arnar Guðmundsson; stjórn kvikmyndatöku: Sturla Brandt Gøvlen; klipping: Janus Billeskov Jansen og Anne Østerud; aðalhlutverk: Baldur Einarsson, Blær Hinriksson, Diljá Valsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Katla Njálsdóttir og Nína Dögg Filippusdóttir. Ísland og Danmörk, 126 mín., 2016.

[line][1] Um hefðarhugtakið, íslenska kvikmyndasögu og hlut Friðrik Þórs þar í hefur Björn Ægir Norðfjörð nýlega skrifað fróðlega grein, sjá „The Emergence of a Tradition in Icelandic Cinema: From Children of Nature to Volcano“, Companion to Nordic Cinema, ritstj. Mette Hjort og Ursula Lindquist, New York: Wiley-Blackwell, 2016.
[2] Brynja Hjálmsdóttir, „Ber er hver að baki“, Morgunblaðið, 14. janúar, 2016, bls. 46.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila