Töfraheimur Góa

Guðjón Davíð Karlsson
Fjarskaland
Þjóðleikhúsið
Stóra sviðið, 2016
Eitt það skemmtilegasta við að fara á barnaleikrit er að skoða heillandi sviðsmyndirnar sem listafólk leikhúsanna galdrar fram. Fjarskaland, nýtt leikrit Guðjóns Davíðs Karlssonar í leikstjórn Selmu Björnsdóttur, veldur þar engum vonbrigðum. Finni Arnari Arnarssyni, sviðsdeild og smiðum tekst í samvinnu við ljósadeildina að skapa ekki aðeins eitt ævintýri heldur fjöldamörg á stóra sviði Þjóðleikhússins. Á sviðinu gefur að líta gríðarhátt og mjótt borð og stól þar við. Ógnarhár ljósastaur minnir einna helst á röndóttan jólabrjóstsykur og lengst, lengst uppi liggur ofsastór og galopin bók.

Í kringum þessa einkennilegu muni raðast ævintýralegir sviðsmunir, í orðsins fyllstu merkingu, því í leikritinu er unnið með fjölda ævintýra, ýmist í heild eða að hluta, fyrir utan sæg af persónum. En þarna er líka að finna blákaldan raunveruleikann í formi hefðbundins íslensks sumarbústaðar. Sviðið er fagurt að sjá og myndar, þótt ótrúlega hljómi, heildstæðan ramma utan um sjálft leikritið.

Kjarni sögunnar snýst um að bjarga gömlu, góðu ævintýrunum frá útrýmingu.
Kjarni sögunnar snýst um að bjarga gömlu, góðu ævintýrunum frá útrýmingu. Dóra (Snærfríður Ingvarsdóttir), ósköp venjulegur bókaormur, er hetja sögunnar og bjargvættur. Í sumarbústaðnum hennar ömmu álpast hún ofan í stóru ævintýrabókina hennar og lendir í Fjarskalandi. Þar hittir hún verndara ímyndunaraflsins og sjálfs Fjarskalands, hann Númenór (Hallgrímur Ólafsson) sem upplýsir Dóru, og áhorfendur, um að hver ævintýrapersónan á fætur annarri sé að hverfa þar sem svo fáir lesi núorðið ævintýri. Hlutverk Dóru er að bjarga ævintýrunum og um leið henni ömmu gömlu sem er pikkföst og týnd í Fjarskalandi.

Dóra leggur af stað í leiðangur og með í för er fyrrnefndur Númenór, Gilitrutt (Gunnar Jónsson) og sjálf Dísa ljósálfur (Rakel María Gísladóttir/Selma Rún Rúnarsdóttir). Þetta er einkennilega samsettur hópur en þarna eru samankomin stúlkubarn, drýsill, tröllskessa og álfur. Engu að síður vinna þau vel saman og ferðast frá ævintýri til ævintýris, kippa þeim í liðinn og seiða horfna ævintýrapersónur til baka inn í sínar sögur. Snæfríður Ingvarsdóttir er sannfærandi í hlutverki hetjunnar hugrökku, hvort sem hún talar, syngur, sýnir færni sína í bardagaíþróttum eða treður andstyggilegri norn inn í bakarofn. Gunnar Jónsson smellur eins og flís við rass í hlutverk Gilitruttar og Hallgrímur Ólafsson er bæði fyndinn og vekur samúð áhorfenda sem Númenór. Í þessu gengi er það þó stjarna Dísu litlu ljósálfs sem skín hvað hæst. Hún er vissulega smærri en allir aðrir og segir einnig minna, en það sem hún segir, fíngerðar hreyfingar hennar og blæbrigðarík svipbrigði eru sannarlega hróssins virði. Og búningurinn, skreyttur glampandi ljósum, gerir hana vissulega meira áberandi en aðra.

Aðrir leikarar og dansarar fylltu líka sviðið. Ber þar sérstaklega að nefna Sigurð Þór Óskarsson sem brá sér í hlutverk Lilla klifurmúsar, Hans og dvergs nokkurs. Áberandi fyndinn var hann þó sem fúll og vanþakklátur unglingspiltur sem telur sig alltof svalan fyrir internetlausa sumarbústaðarferð. Senuþjófur sýningarinnar er Þröstur Leó Gunnarsson sem hefur nú endanlega sannað að það fer engum manni betur að leika úlf eða ref. Honum tekst að vera bæði fráhrindandi og aðlandandi í einu, slepjulegur og einlægur, stórhættulegur og einstaklega bjánalegur. Betra verður það ekki. Loks verður að minnast á búninga Maríu Th. Ólafsdóttur sem eru það vel útfærðir að auðvelt er fyrir sæmilega sjóaða ævintýra- og barnabókaaðdáendur, unga sem aldna, að þekkja persónurnar án þess þær segi eitt orð.

Senuþjófur sýningarinnar er Þröstur Leó Gunnarsson sem hefur nú endanlega sannað að það fer engum manni betur að leika úlf eða ref.
Guðjón Davíð hefur sýnt það og sannað í Stundinni okkar og öðrum verkum að hann er laginn að setja saman söngtexta fyrir börn. Fjarskaland er engin undantekning og leikhúsgestir dilluðu sér við skemmtilega tónlist Vignis Snæs Vigfússonar og það var einkar ánægjulegt hve vel fram bornir textarnir voru – maður átti ekki í nokkrum vandræðum, eins og svo oft er, að greina orðaskil. Sex ára fylgisveinn gagnrýnanda hafði það meira að segja á orði að hann kynni „barasta lögin“ án þess að hafa heyrt þau áður. Þetta hlýtur að flokkast undir leikhústöfra.

Fjarskaland er fyndin, hröð og á stundum farsakennd sýning.
Fjarskaland er fyndin, hröð og á stundum farsakennd sýning. Söngvar eru sungnir, dansar dansaðir og ætt úr einni sögu yfir í aðra. Það er nóg um að vera, stundum jafnvel um of þannig að það mætti hægja örlítið taktinn. Einkum fannst mér þetta eiga við um dansatriðin, sem litlu bæta við sjálft leikritið og söguna en eru að öðru leyti vel útfærð af Láru Stefánsdóttur.

Öll ævintýri hafa boðskap og boðskapur Fjarskalands er fyrst og fremst sá að við verðum að vera dugleg að lesa. Aðeins þannig höldum við lífi í elskuðum sögum og sögupersónum. Á þetta þurfum við að minna börnin okkar og en líka okkur sem sjáum um bókmenntauppeldi ungviðisins. Töfraheimur Góa er þó fyrst og fremst til vitnis um þá frumlegu endursköpun sem oft á sér stað í barnaleikhúsi og ekki aðeins heldur lífi í gömlum sögum heldur glæðir þær spánnýju lífi.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila