Verkamenn í víngarði kvikmyndanna

Ræman eftir Annie Baker er óður til amerískra kvikmynda. Leikritið gerist í kvikmyndahúsi, því síðasta í borginni sem sýnir kvikmyndir í gamaldags sýningarvél. Starfsmennirnir þrír eru á lúsarlaunum en una því vegna þess að þau eru með ólæknandi kvikmyndadellu og bæta launin upp með því að stela svolitlu af miðaverðinu. Öll hafa þau sinn djöful að draga.
Annie Baker
Ræman
Þýðandi: Halldór Laxness Halldórsson
Leikstjóri: Dóra Jóhannsdóttir
Borgarleikhúsið, 2017
Rósa (Kristín Þóra Haraldsdóttir) er eins konar yfirmaður og sýningarstjóri. Hún þræðir vélina og hefur séð ókjör af bíómyndum. Hún reynir að tæla nýja strákinn (Davíð Þór Katrínarson) af því að hann sýnir henni engan áhuga.  Kristín Þóra fer á kostum í því táldragelsi, er bæði heillandi og fyndin.  Rósa virðist hafa lítið sjálfstraust en þegar á reynir afhjúpar hún hörkuna sem undir býr og hún þarf til að lifa af í eitilhörðum heimi lítt menntaðs verkafólks í stórborginni. Þar verður hver að bjarga sjálfum sér.

hugras-raeman-3

Andrés er kvíðasjúklingur, reiður út í móður sína, býr hjá föðurnum. Hann er„ nörd“ sem veit ALLT um kvikmyndir og heldur dauðahaldi í það menningarlega kapítal sitt. Davíð Þór, sem leikur hér í fyrsta sinn á íslensku leiksviði, túlkar feimni hans og óöryggi, varnarleysi og bældar hvatir af miklu næmi. Andrés treystir Rósu í meðallagi en laðast að Sigga (Hjörtur Jóhann Jónsson) og þarf engan freudista til að ráða drauma hans um þann samstarfsmann sinn.

Tengsl þessara þriggja persóna eru í senn morðfyndin og sorgleg.
Siggi (Hjörtur Jóhann Jónsson) vinnur með Andrési í því að þrífa bíósalinn. Hann er afar jarðbundinn náungi, þusari, seinheppinn og sárnar fljótt ef eitthvað ber útaf. Hann hefur þó lúmskan húmor. Strákarnir tveir byggja smám saman upp brothætta vináttu í vinnunni. Siggi er skotinn í Rósu en svolítið hrifinn af Andrési líka fyrir þekkingu hans og skrítilegheit. Hann finnur líka til sín sem kennari Andrésar sem er byrjandi í að sópa poppkorni í skóflur og skafa tyggjó neðan af stólsetum og bregðast við alls kyns óvæntum tilbrigðum í þeim sóðaskap sem uppáfellur eitt kvikmyndahús. Þeir eiga það sameiginlegt að tilbiðja þetta hefðbundna kvikmyndahús.

hugras-raeman-2

Leikritið stendur og fellur með samleik þessara þriggja leikara vegna þess að sviðsmyndin er föst og óhagganleg og þrengir að þeim.
Tengsl þessara þriggja persóna eru í senn morðfyndin og sorgleg. Það er ekki laust við að Anton Chekhov láti á sér kræla hér; öllum persónunum leiðist tilbreytingarlaus hverdagurinn og þrá þá sem ekki þrá þá heldur næsta mann. Leikritið stendur og fellur með samleik þessara þriggja leikara vegna þess að sviðsmyndin er föst og óhagganleg og þrengir að þeim. Í Bandarikjunum hefur leikritið verið gagnrýnt fyrir einmitt þetta,  óleikræna umgjörð, en um leið fyrir  næm og vel skrifuð samtöl og djúpan undirtexta.

Halldór Laxness Halldórsson, Dóri DNA, þýðir textann og gerir það vel. Það má um það deila að staðfæra leikritið með því að þýða nöfn og vísanir á meðan þetta leikrit er njörvað niður í ameríska menningu, hugarfar, sögu og fagurfræði –fyrst og fremst gegnum kvikmyndirnar en líka hugsunarhátt og viðmið ungmennanna.

Ræman er að mínu mati fyrst og fremst ungmennaleikrit
Að því sögðu fannst mér þýðingin allajafna fyndin og samspil leikaranna þriggja mjög fínt í leikstjórn Dóru Jóhannsdóttur sem hér þreytir sína frumraun – og kemst vel frá henni.

Ræman er að mínu mati fyrst og fremst ungmennaleikrit – fyndið, tilfinningaríkt, mátulega flókið og afar vel leikið. Sýningin hefur verið stytt um næstum þriðjung frá frumútgáfunni sem er vel – eftir stendur skemmtilegt verk sem ég er viss um að myndi hrífa áhorfendur með sér. Vona að þeir hópist á sýninguna.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila