Mynd af verkinu Sjónarrendur sem listakonurnar þrjár unnu saman

Það sem náttúran skráir

Elva Hreiðarsdóttir, Phillis Ewen, Soffía Sæmundsdóttir
Við sjónarrönd
Sýningarstjóri; Inga Þórey Jóhannsdóttir
Listasafn Reykjanesbæjar 11. nóvember 2016 – 15. janúar 2017
Við Sjónarrönd er heiti á samsýningu þeirra Elvu Hreiðarsdóttur, Phillis Ewen og Soffíu Sæmundsdóttur í Listasafni Reykjanesbæjar. Listakonurnar eiga sameiginlegan grunn í grafíklist og hún liggur einmitt til grundvallar samvinnu þeirra. Allar fást þær við náttúruna og birtingarmynd hennar í verkum sínum, meðal annars með tilliti til loftslagsbreytinga, hlýnunar jarðar, jarðfræðirannsókna og sköpunarkraftsins sem í náttúrunni býr.

Eins og Ragna Sigurðardóttir nefnir í grein sinni í sýningarskrá hefur náttúran  lengi verið viðfangsefni listamanna og tekið á sig ýmsar myndir í gegnum aldirnar.[i] Með aukinni þekkingu á orsökum og afleiðingum loftslagsbreytinga á síðustu áratugum hafa myndlistarmenn beint sjónum sínum í auknum mæli að þeim ógnum sem af þeim stafa í hnattrænu samhengi og leitast við að gera þeim skil í verkum sínum.

yfirlitsmynd yfir sýninguna
Yfirlitsmynd. Ljósm. Aðalheiður Valgeirsdóttir

Þannig verða til einskonar sýni í anda vísindalegra vinnubragða þar sem síbreytilegar birtingarmyndir náttúrunnar endurspeglast í blæbrigðaríkum þrykkjum.
Meðal þess sem veitti listakonunum innblástur var kortlagning hafsbotnsins á sjötta áratug 20. aldar og kenningin um flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins, og þau ummerki jarðhræringa, eldsumbrota og landmótunar sem sjá má á Reykjanesskaga. Enda þótt nálgun þeirra á viðfangsefnið sé ólík má finna í verkunum sameiginlegan snertiflöt, sem birtist í tilvísunum í jarðvísindi, kortagerð, og huglæga túlkun, þar sem unnið er með mælitækjum listarinnar. Á sýningunni eru verk eftir listakonurnar hverja fyrir sig, en einnig röð verka sem þær unnu í sameiningu.

Elva kannar yfirborð jarðarinnar í grafíkverkum sínum bæði stórum og smáum. Verkin eru unnin með svokallaðri collograph tækni, að hluta til úti í náttúrunni, þar sem jarðvegurinn sjálfur er færður yfir á málmplötur sem svo eru unnar áfram með aðferðum grafíklistarinnar og þrykkt af. Þannig verða til eins konar sýni í anda vísindalegra vinnubragða þar sem síbreytilegar birtingarmyndir náttúrunnar endurspeglast í blæbrigðaríkum þrykkjum.

Jarðteikn – Það sem náttúran skráir, Collograph, 2016. Ljósm. Aðalheiður Valrgeirsdóttir
Jarðteikn – Það sem náttúran skráir, Collograph, 2016. Ljósm. Aðalheiður Valrgeirsdóttir

Elva Hreiðarsdóttir, Jarðteikn – Það sem náttúran skráir, Collograph, 2016. Ljósm. Aðalheiður Valgeirsdóttir
Elva Hreiðarsdóttir, Jarðteikn – Það sem náttúran skráir, Collograph, 2016. Ljósm. Aðalheiður Valgeirsdóttir

Myndröðin Jarðteikn – það sem náttúran skráir, samanstendur af sjö grafíkverkum þar sem vinnubrögð Elvu njóta sín vel. Litaskalinn er grátóna og hvert verk verður eins og afrit af náttúrunni sjálfri. Ummerki breytinga, mótunar og tíma vitnar um hið hverfula og þá stöðugu umbreytingu sem á sér stað í náttúrunni og setur mark sitt á yfirborð jarðar.

Í kröftugum kolateikningum Soffíu Sæmundsdóttur birtist dulúðugt landslag á mörkum hins ímyndaða og jarðneska. Ólíkt Elvu sem vinnur með nálægðina í verkum sínum birtir Soffía víðáttuna og fjarskann. Framsetning verkanna undirstrikar óendanleikann og það sem okkur er hulið. Upprúllaður pappírinn gefur til kynna áframhald og óendanleika og vísar til landakorta og uppdrátta af ákveðnum landsvæðum.

Soffía Sæmundsóttir, Hulið landslag – sjávarbotn. Kol á pappír, 2016. Ljósm. Inga Þórey Jóhannsdóttir
Soffía Sæmundsóttir, Hulið landslag – sjávarbotn. Kol á pappír, 2016. Ljósm. Inga Þórey Jóhannsdóttir

Verkið Hulið landslag – sjávarbotn, sem er stærsta verk Soffíu á sýningunni og unnið með kolum á pappír, sýnir undraheima sjávarlandslags sem eru okkur huldir. Landslag undirdjúpanna er í senn hrikalegt og tignarlegt og vitnar um hið ægifagra og kraft náttúruaflanna. Áhorfandinn er leiddur inn í hið óendanlega og ókunna sem birtist í fjarlægum bjarma sem lýsir upp miðbik verksins og gefur því dýpt.

Soffía Sæmundsdóttir, Framhald, verk í sýningarborði, Blek, blýjantur á japanskan pappír, 2014-2016. Ljósm. Aðalheiður Valgeirsdóttir
Soffía Sæmundsdóttir, Framhald, verk í sýningarborði, Blek, blýjantur á japanskan pappír, 2014-2016. Ljósm. Aðalheiður Valgeirsdóttir

Framhald er heiti á upprúlluðum verkum í sýningarborði sem unnin eru með blandaðri tækni. Þar hefur Soffía bætt við næma blýantsteikninguna gulbrúnum,  blágrænum og rauðum litum sem ljá landslaginu ævintýraljóma um leið og aukið er á jarðneska nálgun. Verkin rúllast upp frá báðum hliðum, og því sést aðeins hluti þeirra.  Framsetningin minnir á útprentun úr sírita sem skráir rannsóknaniðurstöður, líkt og jarðskjálftamælar, og vitnar um framvindu og framhald.

Listakonan vinnur endurtekið með landakort í verkum sínum þar sem meðal annars er vísað er til þeirrar eyðingar sem á sér stað vegna hlýnunar jarðar sem hefur áhrif á strandlengjuna
Í samsettum pappírslágmyndum sínum vinnur Phyllis Ewen bæði með tilvísanir í náttúru heimaslóða sinna og náttúrufyrirbæra á Reykjanesi. Sandur Cape Cod strandarinnar í Massachusetts og jarðhiti Reykjanessins tvinnast saman eins og kubbar í púsluspili sem ýmist rekast hver á annan eða gliðna í sundur líkt og jarðskorpuflekar. Listakonan vinnur endurtekið með landakort í verkum sínum þar sem meðal annars er vísað er til þeirrar eyðingar sem á sér stað vegna hlýnunar jarðar og sem hefur áhrif á strandlengjuna. Jarðhitasvæðin á Reykjanesi vitna um umbreytingu, hreyfingu og þá ógnarkrafta sem búa í iðrum jarðar.

Pyllis Ewen, Reykjanes Gunnuhver´s Ghost, Collage, paint, 2016. Ljósm. Inga Þórey Jóhannsdóttir
Pyllis Ewen, Reykjanes Gunnuhver´s Ghost, Collage, paint, 2016. Ljósm. Inga Þórey Jóhannsdóttir

Verkið Reykjanes: Gunnuhver´s Ghost hefur beina skírskotun til þekktasta  hversins á Reykjanesi. Leirljósir litir hversins, gufur og leirslettur sem einkenna hverasvæðin mynda marglaga klasa og gefa til kynna virkni og umbrot. Heiti verksins vísar í gamla þjóðsögu sem segir af konu sem gengið hafði aftur, en var fyrirkomið með því að varpa henni í hverinn.[ii]

Pyllis Ewen, Reykjanes Gunnuhver´s Ghost, Collage, paint, 2016. Ljósm. Inga Þórey Jóhannsdóttir
Phillis Ewen, Liminal Break, Cape Cod. Ljósm. Aðalheiður Valgeirsdóttir

Á sýningunni er röð fimmtán verka með blandaðri tækni, sem ber heitið Sjónarrendur, sem listakonurnar unnu í samvinnu. Verkin sendu þær sín á milli og hver um sig bætti við það sem fyrir var. Í verkunum eru samankomnir þeir þættir sem tengja verkin á sýningunni þ.e. landakort, yfirborð, tími, eyðing, umbreyting, og skráning náttúrufyrirbæra og staða.

Sýningin er heildstæð og nálgun sem listamannanna á staðbundinn og hnattrænan veruleika tekur á áhugaverðan hátt á birtingarmyndum náttúrunnar í staðbundnu samhengi Reykjanessins og strandlengju Cape Cod í Bandaríkjunum. Með tilvísunum í náttúruvísindi og hugmyndafræðilega túlkun á þeim er viðfangsefninu komið til skila með mælitækjum myndlistarinnar.[line][i] Ragna Sigurðardóttir, „Við sjónarrönd“, Við sjónarrönd, Listasafn Reykjanesbæjar, 2017.
[ii] Gunnuhver – saga, Ferlir.is, sótt 8. des. 2016.

Mynd ofan við grein: Elva Hreiðarsdóttir, Soffía Sæmundsdóttir, Phillis Ewen, Sjónarrendur, 2016, samvinnuverk, Einþrykk á stafrænt þrykk. Ljósm. Aðalheiður Valgeirsdóttir

Um höfundinn
Aðalheiður Valgeirsdóttir

Aðalheiður Valgeirsdóttir

Aðalheiður er myndlistarmaður, sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk MA-prófi í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014, og hafði áður lokið BA-prófi í listfræði með menningarfræði sem aukagrein frá sama skóla. Aðalheiður hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum víða um heim. Hún hefur fengist við sýningarstjórn, kennslu og haldið erindi um myndlist.

[fblike]

Deila