Fimmta guðspjallið – Hver er Jesús Kristur súperstjarna?

Sú var tíðin að dagskrá Ríkisútvarpsins um páskana var helguð löngum heimildarmyndum um Martein Lúter eða öðru kristilegu efni. Á föstudaginn langa var svo bíóhúsum lokað til þess að tryggja að enginn skemmti sér á þessum sorgardegi. En tímarnir breytast og þeir sem vilja nota páskana til að rifja upp Biblíuna ganga nú sjálfala. Þess vegna þóttist undirritaður góður að komast á rokkóperuna Jesus Christ Superstar í Hörpunni seinastliðinn skírdag. Áður en sýningin hófst hitti ég gamlan vin sem spurði hvort ég væri að komast í samband við hippann í mér. Ég bar við áhuga á viðfangsefni óperunnar, Jesú Kristi. Sá áhugi er engin uppgerð þar sem Biblíusögur voru uppáhaldsnámsefni mitt í barnaskóla og Biblían hefur alltaf verið eftirlætislesefni mitt. Hafi Jesus Christ Superstar verið saminn fyrir markhóp fólks með áhuga á Biblíusögum þá telst ég til þess markhóps.

Kynningarmynd af sýningunni Jesus Christ Superstar í Hörpunni. Eyþór Ingi - Jesús, Þór Breiðfjörð - Júdas, Ragga Gröndal - María Magdalena.
Kynningarmynd af sýningunni Jesus Christ Superstar í Hörpunni. Eyþór Ingi – Jesús, Þór Breiðfjörð – Júdas, Ragga Gröndal – María Magdalena.

Rokkóperan er komin í stöðu fimmta guðspjallsins og er ekkert síðri lykiltexti að kristnum viðhorfum samtímans heldur en Passíusálmar Hallgríms Péturssonar.
Rokkóperan Jesus Christ Superstar var samin árið sem ég fæddist, árið 1970, af tveimur mönnum á þrítugsaldri, Andrew Lloyd Webber og Tim Rice, og er endursögn á sögunni um krossfestingu Krists fyrir nýja kynslóð fólks í hinum kristna menningarheimi. Þeir félagar höfðu áður samið söngleikinn Joseph and the Amazing Technicolor Dreamcoat sem sækir efnivið sinn í Gamla testamentið. Má líta svo á að með rokkóperunni hafi þeir verið að róa á svipuð mið. Jesus Christ Superstar varpar áhugaverðu ljósi á trúarhugmyndir vestrænna manna á okkar dögum; líklega þekkja einhverjir söguna um píningu Krists fyrst og fremst í gegnum rokkóperuna. Hún er komin í stöðu fimmta guðspjallsins og er ekkert síðri lykiltexti að kristnum viðhorfum samtímans heldur en Passíusálmar Hallgríms Péturssonar.

NEW YORK, NY - APRIL 04: Andrew Lloyd Webber and Tim Rice speak onstage during the press conference for Jesus Christ Superstar Arena Rock Spectacular at Hammerstein Ballroom on April 4, 2014 in New York City. Jesus Christ Superstar Arena Rock Spectacular North American Tour kicks off June 9, 2014 in New Orleans. (Photo by Kevin Mazur/WireImage)
Andrew Lloyd Webber og Tim Rice ræða við blaðamenn um Jesus Christ Superstar. Mynd fengi að láni héðan.

Frásögn þessara passíusálma nútímans hefst með Júdasi Ískaríot, postulanum sem sveik Jesúm í tryggðum. Kannski finnst mörgum augljóst að Júdas hljóti að vera aðalpersóna í öllum sögum um Krist en hann kemur þó ekki mikið við sögu í elstu frásögninni um krossfestinguna – Markúsarguðspjalli. Þar er ekki annað sagt um Júdas en að hann hafi svikið Krist með kossi og þegið fé fyrir. Í yngri gerð ævisögu Jesú, Matteusarguðspjalli, er hins vegar greint frá örlögum Júdasar og því er lýst hvernig hann iðraðist og hengdi sig. Þá kemur fram sú fræga sögn að silfurpeningarnir sem Júdas tók fyrir að svíkja Krist hafi verið 30. Höfundur Matteusarguðspjalls hefur þó varla haft mikið fyrir sér um þetta annað en það sem segir í Markúsarguðspjall auk óskhyggju um ill örlög svikarans.

Því verður boðskapur rokkóperunnar allt annar en heimildar hennar, Jóhannesarguðspjalls. Júdas fimmta guðspjallsins er hugsjónamaður sem vill að Jesús berjist fyrir hina fátæku.
Sú frásögn af Júdasi sem hefur haft mest áhrif á þá Webber og Rice er hins vegar í Jóhannesarguðspjalli. Þar kemur fram að Júdas hafi kvartað yfir því þegar fætur Jesú voru smurðir með „ómenguðum, dýrum nardussmyrslum“ (Jóh. 12.3) og lagt til að þau væru gefin fátækum. Þetta hafa Webber og Rice eftir Júdasi en þeir sleppa hins vegar útleggingu Jóhannesarguðspjalls: „Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur“ (Jóh. 12.6). Því verður boðskapur rokkóperunnar allt annar en heimildar hennar, Jóhannesarguðspjalls. Júdas fimmta guðspjallsins er hugsjónamaður sem vill að Jesús berjist fyrir hina fátæku. Í rokkóperunni á Júdas í sálarstríði vegna þess að hann verður fyrir vonbrigðum með Jesúm og svik hans stafa af því að hann telur að Jesús hafi misst stjórn á söfnuðinum á meðan skýring Jóhannesarguðspjalls er einfaldari; Júdas sveik Jesúm vegna þess að Satan sjálfur fór inn í hann. Í Jóhannesarguðspjalli er ekkert sagt um að Júdas hafi iðrast eða svipt sig lífi; þar nýtir rokkóperan sér bæði frásögn Matteusarguðspjalls og Jóhannesarguðspjalls og bræðir þessa ólíku texta saman; eins og kristnir menn hafa gert fyrr og síðar. Líkt og í Jóhannesarguðspjalli kemur fram að Jesús veit af svikum Júdasar og hvetur hann áfram: „Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt!“ (Jóh. 13.27) Í rokkóperunni gera óvinir Jesú, sem skipa ráð æðstuprestanna í Jerúsalem, sér grein fyrir því að hvatir Júdasar eru ekki illar og hvetja hann til að gefa fátækum silfurpeningana sem hann tekur að launum fyrir að svíkja Jesúm; þeir leika sér þannig með hugsjónir Júdasar.

Skjáskot af Júdasi úr kvikmyndinni Jesus Christ Superstar frá 1973.
Skjáskot af Júdasi úr kvikmyndinni Jesus Christ Superstar frá 1973.

Jóhannesarguðspjall er einnig lykiltexti fyrir þá Webber og Rice varðandi viðhorf æðstuprestanna. Í hinum guðspjöllunum þremur kemur fram að prestarnir vilja Jesúm feigan þar sem hann telji sig vera Messías en þeir viðurkenna hann ekki sem slíkan. Ágreiningur þeirra snýst einungis um innri mál Gyðinga. Í Jóhannesarguðspjalli er önnur skýring gefin á afstöðu þeirra. Þar kemur fram að prestaráðið óttast að allir Gyðingar muni að lokum fylgja Jesú „og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð“ (Jóh. 11.48). Sérstaklega er vitnað í einn þeirra, Kaífas sem segir „að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist“ (Jóh. 11.50). Þessar þjóðernislegu forsendur enduróma um allt í rokkóperunni sem samin er á öld þjóðríkisins. Hjá Webber og Rice verða átök Krists við prestana jafnframt átök einstaklingsins við heildina. Honum skal fórnað svo að þjóðin lifi. Þessi hugmynd um einstaklinginn gegn heildinni er þó fjarri þeim guðfræðilegu hugmyndum sem voru ríkjandi meðal fyrstu kynslóðar kristinna manna og einkennast af mikilli heildarhyggju. Í bréfi Páls postula til Galatamanna, einni af elstu heimildum sem til eru um trúarhugmyndir kristinna manna, segir til dæmis: „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú“ (Gal. 3.28).

Líkt og í mörgum kristnum textum frá miðöldum og síðar er gert ráð fyrir að María Magdalena, einn fylgismanna Jesú, hafi verið vændiskona. Í guðspjöllunum segir þó ekkert slíkt og hlutverk hennar er fyrst og fremst að vera mikilvægt vitni um upprisu Jesú. Í rokkóperunni er hins vegar engin upprisa og María Magdalena því óþörf. Einhver kona þarf þó að vera með, til þess að vera fulltrúi fyrir allar konurnar sem fylgdu Kristi en fá ekki sömu athygli í guðspjöllunum og postularnir tólf og aðrir karlkyns lærisveinar. Því er Maríu Magdalenu blandað saman við aðra fylgikonu Krists, sem er fullyrt að hafi smurt fætur hans samkvæmt Jóhannesarguðspjalli, og persónan fær í raun nýtt hlutverk. Þessi hugmynd um Maríu er ekki frumsmíð þeirra Webber og Rice; hún er þvert á móti ævagömul en þó ekki frá árdögum kristni. Hún varð ekki ríkjandi innan Rómarkirkjunnar fyrr en á sjöttu öld og hefur aldrei náð fótfestu innan austrænnar kristni.

Myndskeið úr kvikmyndinni frá ’73 þar sem María Magdalena syngur I don’t know to love him.

Önnur kona, sem sagt er frá í Matteusarguðspjalli, er hins vegar skrifuð út úr frásögninni.
Önnur kona, sem sagt er frá í Matteusarguðspjalli, er hins vegar skrifuð út úr frásögninni. Það er eiginkona Pílatusar sem dreymdi fyrir aftöku Krists og varaði eiginmann sinn við því að leyfa hana. Í rokkóperunni er það Pílatus sjálfur sem dreymir fyrir þessu og er af þeim sökum efins um réttmæti þess að taka Jesúm af lífi. Líkt og í öllum guðspjöllunum er Pílatus hikandi; höfundum þeirra var öllum mjög í mun um að kenna Gyðingum frekar en Rómverjum um aftöku Krists. Annað viðhorf kemur fram hjá sagnaritaranum Josephusi, sem skrifaði um sögu Gyðinga í lok fyrstu aldar. Hann kennir Pílatusi alfarið um aftöku Jesú en lýsir hins vegar ágreiningi æðstaráðsins við áhangendur Krists nokkrum áratugum síðar, þegar Jakob bróðir Krists var líflátinn að undirlagi æðstuprestanna. Guðspjöllin eru öll samin eftir lát Jakobs og eyðileggingu Jerúsalem í stríðum Rómverja og Gyðinga (66-73) og einkennast af hugmyndum um guðlega refsingu vegna óhlýðni hinna síðarnefndu.

Í seinni hluta rokkóperunnar er sagt frá svikum Júdasar, handtöku Jesú og að lokum frá aftöku hans. Sem fyrr er frásögnin sambland af guðspjöllunum fjórum. Frásögn Lúkasarguðspjalls er lögð til grundvallar í atriðinu þegar Heródes konungur Galíleumanna er látinn taka þátt í að pína Jesú, en ekki segir frá hlut Heródesar í neinni annarri heimild. Í sjálfu sér er hvorki mikil söguleg né frásagnarfræðileg ástæða til að bæta Heródesi þarna við en höfundar gátu greinilega ekki staðist freistinguna að bæta enn einni flottri karlpersónu við frásögnina og gefa honum glæsilegt söngatriði. Í máli Heródesar í Jesus Christ Superstar kemur fram að Jesús sé talinn vera guð en því er þó ekki haldið fram í Lúkasarguðspjalli, hvorki af Jesú né öðrum. Mynd hans er því samsett og guðshugmynd Jóhannesarguðspjalls undirliggjandi.

Myndskeið úr kvikmyndinni frá ’73 af söng Heródesar.

Jesús er látinn ganga frá Heródesi til Pílatusar, er píndur og að lokum krossfestur. En hvað gerist svo? Í Markúsarguðspjalli hverfur Jesús úr gröf sinni en í hinum guðspjöllunum þremur birtist hann lærisveinum sínum upprisinn. Í bréfum Páls postula kemur skýrt fram að upprisan var lykilatriði í hugmyndum fyrstu kynslóðar kristinna manna; Jesús hafði sigrað dauðann og vegna hans myndu aðrir menn sigrast á dauðanum. Páll postuli taldi að dómsdagur væri í nánd; hann myndi koma um leið og Páll sjálfur hefði náð að boða fagnaðarerindið um Krist alls staðar. En í Jesus Christ Superstar er engin upprisa; verkinu lýkur með dauða Jesú en áheyrendur verða að geta sér til um framhaldið. Páll postuli hefði ekki verið ánægður. Honum fannst fátt frásagnarvert við Krist sem gerðist fyrir upprisuna.

En í Jesus Christ Superstar er engin upprisa; verkinu lýkur með dauða Jesú en áheyrendur verða að geta sér til um framhaldið. Páll postuli hefði ekki verið ánægður.
Í meginheimild Jesus Christ Superstar, Jóhannesarguðspjalli, kemur fram róttæk hugmynd sem ekki er að finna í hinum guðspjöllunum þremur:  Jesús var ekki eins og aðrir menn heldur guð; sjálft Orð hins eina guðs Gyðinga sem hafði orðið hold og dvalið meðal manna. Jesús Jóhannesarguðspjalls óttast ekki píningar eða dauða og Pílatus hefur ekkert raunverulegt vald yfir honum. Þessi kjarnaboðskapur Jóhannesarguðspjalls er hins vegar ekki til staðar í rokkóperunni, ólíkt hugmyndum um Júdas sem höfuðandstæðing Jesú og þjóðleg viðhorf æðstuprestanna sem einnig eru sóttar til Jóhannesarguðspjalls. Í atriðinu sem gerist í Getshemane, þegar Kristur ávarpar Guð, virðist hann staðráðinn í að öðlast píslarvættisdauða en jafnframt kemur fram að hann þekkir ekki vilja Guðs og sér ekki í hug hans. Annað kemur fram í Jóhannesarguðspjalli þar sem Kristur þekkir ekki einungis vilja Guðs, heldur framkvæmir hann: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig“ (Jóh. 6.38).

Skjáskot úr kvikmyndinni frá '73 af krossfestingu Jesú.
Skjáskot úr kvikmyndinni frá ’73 af krossfestingu Jesú.

Í atriðinu sem fjallar um krossfestingu Jesú verður vandi höfunda rokkóperunnar allskýr þar sem hinstu orð Jesú eru endursögð, fyrst eftir Lúkasarguðspjalli („Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“; Lúk. 23.34), því næst Markúsar- og Matteusarguðspjalli („Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“; Mark. 15.34; Matt. 27.46), síðan eftir Jóhannesarguðspjalli („Mig þyrstir“; Jóh. 19.28, og „Það er fullkomnað“; Jóh. 19.29) og að lokum aftur eftir Lúkasarguðspjalli („Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn“; Lúk. 23.46). Lokaorð Krists, sem eru stutt og hnitmiðuð í öllum guðspjöllunum, verða að langri og sundurlausri ræðu þegar þau eru flutt öll í einu og vaðið úr einu samhengi í annað. Kristnir guðfræðingar gerðu sér grein fyrir að þetta mundi ekki ganga þegar þeir fóru þá leið að halda guðspjöllunum fjórum aðskildum frekar en að bræða texta þeirra saman í eitt heildarverk. Sögurnar um Krist eru margar en ekki ein og ekki fer vel á því að blanda saman ósamhljóða vitnisburði.

Rokkóperunni lýkur á tilvísun í Jóhannesarguðspjall: „En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í“ (Jóh. 19.41). Þannig lýkur sögu Jesú Krists í þessu fimmta guðspjalli en í raun og veru var hún rétt að hefjast.

Um höfundinn
Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækurnar Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100-1400 (2005), Saga Breiðfirðinga I. Fólk og rými frá landnámi til plágunnar miklu (2015) og Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281 (væntanleg 2016). Sjá nánar

[fblike]

Deila