Sími látins manns … eða „Nokia connects people?“

Kona að nafni Nína situr við borð í veitingahúsi og skrifar og les þegar farsími byrjar að hringja á næsta borði. Maðurinn sem þar situr gerir sig ekki líklegan til að svara enda er hann dauður. Það uppgötvar Nína þegar hún fer til að biðja hann að svara af því að síminn ónáði hana. Nú eru góð ráð dýr, Nína svarar sjálf og tekur skilaboð til hins dána. Hann reynist heita Hjörtur.

Hún „leiðréttir“ mynd annarra af hinum látna símaeiganda og leggur honum ýmis orð í munn sem benda til þess að hann hafi verið öndvegismaður.
Hún gerist nú eins konar einkaritari og umboðsmaður hans, hittir ástkonu hans, móður, eiginkonu og bróður. Aðspurð segist hún hafa verið starfsfélagi hans, kannski ástmey, og þar af leiðandi viti hún margt og mikið um hann. Hún „leiðréttir“ mynd annarra af hinum látna símaeiganda og leggur honum ýmis orð í munn sem benda til þess að hann hafi verið öndvegismaður. Það reynist hann alls ekki hafa verið, þvert á móti, og smám saman flækist hún æ meira inn í hans skuggalegu mál. En allt endar vel að lokum.

Ljósmynd: Óli Magg
Ljósmynd: Óli Magg

María Dalberg leikur Nínu.  Nína er ein af þessum manneskjum, sem enginn tekur eftir, til að byrja með (á t.d. ekki farsíma) en lifnar við og fær gegnum Hjört og persónuleg tengsl hans nýtt líf, sem hún býr til sjálf og er byggt á lygi. María Dalberg túlkar sakleysi hennar eða kannski fremur reynsluleysi á fallegan og sannfærandi hátt. Þó við vitum ekkert um bakgrunn persónunnar byggir hún upp samúð áhorfanda. Nína er jafnframt eina „eðlilega“ persónan í verkinu. Hún er um sumt eins og Lísa í Undralandi.

Ljósmynd: Óli Magg
Ljósmynd: Óli Magg

Allar aðrar persónur eru stílfærðar í leik og gervum. Þar ber hæst gervi og stílfærslu móðurinnar, frú  Gottlieb sem leikin er af Elvu Ósk Ólafsdóttur. Elva Ósk er afburða leikkona og ég skildi ekki þessa stílfærslu og fannst hún of mikið af því góða. Kolbeinn Arnbjörnsson leikur bæði hinn illa bróður Hjört og góða bróðurinn. Bolla. Hann er stórglæsilegur á velli og fór vel með sín hlutverk, einkum hlutverk Bolla sem hatar Hjört og þráir ást. Kolbeinn túlkar líka vel hina kaldhæðnu lífsskoðun illa bróðurins í eftirminnilegri einræðu þar sem hann lýsir afstöðu sinni til fólks og starfs síns.

Fyrir mína parta veit ég fátt kjánalegra en tilgerðarlegar handahreyfingar sem eru fólki ekki eðlilegar og draga gjarna athygli frá því sem sagt er í stað þess að undirstrika það. Í einræðu Hjartar notaði Kolbeinn slíkar  handahreyfingar til að skopgera þennan sjálfupptekna gaur. Hann nánast dansaði einræðuna..

Ljósmynd: Óli Magg
Ljósmynd: Óli Magg

Halldóra Rut Baldursdóttir lék tálkvendið sem Hjörtur hélt við, klædd í rauðan tæfukjól með vísun í Hollywood. Hún lék líka Hermíu Gottlieb, konu Hjartar, svikna og bitra en líka reiða og allt þetta braust fram í „trúnó“ með Nínu í lýsingum hennar á því hvað hún gerði til að lifa af sambandið og kynlífið með Hirti. Bæði hlutverkin urðu á sinn hátt lifandi og sannfærandi hjá Halldóru Rut.

 

 

Sími látins manns eftir ameríska leikritahöfundinn Söru Ruhl var frumflutt fyrir átta árum. Þar er deilt  á nútímatækni eins og farsímann sem á að létta fólki lífið og tengja það saman en verður oftar en ekki til að skapa stress og jafnvel áunninn athyglisbrest. Það gildir um þá sem mest er haft samband við. Hinir sem engin fá skilaboð eða hringingar eru líka alltaf að gá að því hvort eitthvert lífsmark komi nú ekki. Gamla slagorðið „Nokia – connecting people“ er trúlega oftast öfugmæli því að við sjáum allt í kringum okkur fólk sem getur alls ekki einbeitt sér að fólkinu kringum það heldur hangir í símanum og er ekki til staðar, heyrir ekki og sér ekki. En í leikritinu er líka siðferðisleg ádeila á og umræða um sölu á líffærum sem er ekkert grín. Nokkrar senur voru útúrdúrasamar og teygðar, leikritið er vel skrifað en ekki fágað.

Leikstjóri Síma látins manns, Charlotte Böving, velur stílfærða túlkun á verki og persónum sem hæfir farsa og það val virkar bæði vel og illa …
Frægðarstjarna Söru Ruhl hefur risið hratt síðasta áratuginn og eitt af því sem einkennir verk hennar eru hröð og „absúrd“ skipti milli hversdagslegra setninga og tuðs annars vegar og ljóðrænna, heimspekilegra setninga hins vegar. Verk hennar eru fyndin og í þeim er súrrealískur strengur en þau eru líka sálfræðileg og tilfinningarík, á mörkum tilfinningasemi.  Leikstjóri Síma látins manns, Charlotte Böving, velur stílfærða túlkun á verki og persónum sem hæfir farsa og það val virkar bæði vel og illa, margt er fyndið en fínni tónar fóru forgörðum. Fólk hló ekki mikið en sýningin fylgir því, trúi ég.

Búningar Fanneyjar Sizemore voru afar vel heppnaðir, sviðsmynd mjög góð og annað sem stóð upp úr var tónlist og hljóðmynd Ragnhildar Gísladóttur. Þýðing Ingólfs Eiríkssonar og Matthíasar Tryggva Haraldssonar er lipur en tekur staðfærslu verksins ekki alla leið enda er ég ekki viss um að það hefði verið skynsamlegt.[line]Leikstjórn: Charlotte Bøving.
Leikarar: María Dalberg, Kolbeinn Arnbjörnsson, Elva Ósk Ólafsdóttir og Halldóra Rut Baldursdóttir.
Tónlist: Ragnhildur Gísladóttir. Leikmynd og búningar: Fanney Sizemore.
Útlitshönnun og gervi: Steinunn Þórðardóttir.
Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson. Tæknimaður: Kristinn Ágústsson .
Íslensk þýðing: Ingólfur Eiríksson og Matthías Tryggvi Haraldsson.
Framleiðsla: María Dalberg, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Hallfríður Þóra Tryggvadóttir.

Ljósmyndir við grein: Óli Magg.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila