Leitið og þér munuð finna

Bryndís Björgvinsdóttir, Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson
Leitin að tilgangi unglingsins
JPV útgáfa, 2015
Unglingabókum er, eðli málsins samkvæmt, ætlað að tala til unglinga, höfða til unglinga og fjalla um málefni sem eru unglingum hugleikin. Það eru hins vegar ekki bara unglingar sem lesa unglingabækur – börn lesa upp fyrir sig og því ekki óvanalegt að 8, 9 eða 10 ára börn lesi bækur sem markaðssettar eru kyrfilega sem unglingabækur. Einnig færist það sífellt í aukana að fullorðið fólk lesi unglingabækur og hugtök á borð við ungmennabækur og krosslestur hafa skotið upp kollinum, sem virðast eiga að brúa bilið á milli eiginlegra unglingabóka og fullorðinsbóka, eða jafnvel eyða því. Leitin að tilgangi unglingsins eftir þau Bryndísi Björgvinsdóttur, Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson telst þó seint til bóka sem ekki aðeins er ætlað að höfða til ungs fólks heldur einnig þess sem eldra er. Bókin öll og sú menning sem hún sprettur úr er of vandlega stimpluð unglingum til að það sé mögulegt. Um leið er þetta það sem gerir það ansi flókið að skrifa um hana eða leggja á hana mat þar sem bókarýnirinn telst síður en svo til unglinga, þótt hann hafi vissulega gert það einu sinni.

Árið 1994, þegar undirrituð var á hátindi gelgjunnar, kom út bókin Blautir kossar og ber hún undirtitilinn Unglingabók eftir unglinga, um unglinga, fyrir unglinga. Höfundar voru tveir unglingspiltar, Smári Freyr og Tómas Gunnar, og áttu þeir eftir að gefa út þrjár bækur til viðbóta við hina votu kossa, bækurnar Ufsilon, Á lausu og Berthold – kjötfarsi. Blautir kossar var afskaplega vinsæl meðal jafnaldra minna og þóttumst við himin hafa höndum tekið þegar höfundar mættu í skólann til að lesa upp úr bókinni.

Orð, orðalag, frasar og slangur nútímaunglinga er áberandi, aðalsöguhetjan er óþroskaður unglingspiltur og fjallað er um leit hans að hinni einu sönnu.
Í Blautum kossum eru það unglingarnir sem hafa orðið og bókin er skrifuð á vandlegri unglingsku með tilvísanir í hvaðeina sem þótti smart á fyrri hluta tíunda áratug síðustu aldar. Maarud-snakk kemur til dæmis víða við sögu og gos af ýmsum sortum. Sagan sjálf er nokkuð hefðbundin: Aðalsöguhetjan er drengur og sagan snýst um það hvernig a) drengurinn nær ákveðnum þroska og b) hvernig hann nær saman við stúlkuna. Leitin að tilgangi unglingsins er á yfirborðinu ansi lík bók þeirra Smára Freys og Tómasar Gunnars. Orð, orðalag, frasar og slangur nútímaunglinga er áberandi, aðalsöguhetjan er óþroskaður unglingspiltur og fjallað er um leit hans að hinni einu sönnu. Munurinn á þessum tveimur bókum er fyrst og fremst sá að sem bókmenntaverk stendur Leitin að tilgangi unglingsins hinni skör framar. Blautum kossum var aldrei ætlað að vera bókmenntaverk, eins kom fram í nokkrum blaðagreinum á sínum tíma en þeir Arnór og Óli Gunnar hafa sér til fulltingis verðlaunahöfundinn Bryndísi Björgvinsdóttur. Bókin öll nýtur þess og er fyrir vikið að öllu leyti mun betur skrifuð en Blautir kossar sem er ugglaust flestum horfin í gleymskunnar dá.

Leitin að tilgangi unglingsins fjallar um ástarþreifingar og þroska aðalsöguhetjunnar, Stebba, sem í upphafi bókar er að hefja nám í tíunda bekk og ætlar aldeilis að taka hann með trompi. Sú saga er út af fyrir sig hvorki ný né spennandi en það sem gerir hana skemmtilega eru stöðug inngrip hinna uppátækjasömu sögumanna sem ekki eru alltaf sammála og gera í sífellu athugasemdir við sögupersónuna sjálfa eða þá átt sem sagan virðist ætla að fara. Hér má sem dæmi nefna að þegar Arnór hefur lokið við að lýsa Stebba í upphafi bókar treður Óli Gunnar sér inn á síðuna og lýsir því yfir að Stebbi sé alltof fullkominn, hann verði að hafa einhverja galla, annars sé ekki nógu mikil dýpt í sögunni. Eftir nokkra rekistefnu tekur lýsingin á Stebba allnokkrum breytingum en fljótlega kemur svo upp annað tilvik þar sem sögumenn eru ósammála um gang sögunnar.

… það sem gerir hana skemmtilega eru stöðug inngrip hinna uppátækjasömu sögumanna sem ekki eru alltaf sammála
Leitin að tilgangi unglingsins lætur lesendur hvað eftir annað vita að hér sé um bók að ræða – einfaldlega með orðunum „þetta er bók“. Í upphafi bókar er að auki stuttur kafli um uppbyggingu skáldverka sem er samtímis leiðarvísir eða efnisyfirlit bókarinnar. Uppbygging bókarinnar er líka hugvitssamlega sett upp í myndrænt form. Þrátt fyrir að vera bók – og taka það fram nokkrum sinnum – er í henni að finna hlé, aukaefni og „kreditlista“ eins og um kvikmynd sé að ræða en á vorum stafrænu tímum kemur það lítið á óvart að ungir höfundar tengi við kvikmyndaformið. Þá má ekki heldur gleyma þeim köflum þar sem höfundarnir ungu kynna sjálfa sig til sögunnar, lýsa sér bæði í texta og teikningum auk þess sem víða er að finna neðanmálsgreinar þar sem orð, setningar og hugtök eru útskýrð fyrir yngri eða eldri lesendum, allt eftir því sem við á hverju sinni.

Leitin að tilgangi unglingsins er ansi löng bók eða tæpar 300 síður en ég efast þó um að margir unglingar eigi eftir að lenda í erfiðleikum við að klára bókina sem er fyndin, hugvitssöm og frumleg að mjög mörgu leyti ásamt því að vera skemmtilega skrifuð og boða unglingum góðan boðskap – að standa með sjálfum sér. Engu að síður er ég hrædd um að hennar bíði að einhverju leyti sömu örlög og Blautra kossa, að verða barn síns tíma; að brandararnir og allt þetta nýja, ferska og flotta sem í henni er að finna verði á endanum álíka lummulegt og Jees-gallabuxurnar í Blautum kossum sem voru á sínum tíma hámóðins. En það er kannski í góðu lagi, Leitin að tilgangi unglingsins er það sem unglingar dagsins vilja lesa og mikið er gott ef þeir finna það sem þeir leita að.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila