Þriðjudagurinn 5. apríl 2016

Dagurinn í dag er fyrir margra hluta sakir merkilegur. Þetta er t.d. fyrsti dagurinn á 64 ára ævi sem ég hef hangið fyrir framan sjónvarpsskjá frá hádegi og fram á kvöld. Það er þó ekki þess vegna sem dagsins mun verða minnst heldur sem undarlegasta dagsins í stjórnmálasögu okkar til langs tíma.

Dagskrá sjónvarpsins

Margt merkilegt bar fyrir augu á skjánum í dag. Ástæða er til að dást að rúmlega 5 klst. löngum spunnum frétta- og fréttaskýringarþætti RÚV í beinni þar sem sveiflast var milli Efstaleitis, Alþingishússins og Bessastaða með stuttu stoppi við stjórnarráðið og undir lokin á Austurvelli þar sem beittustu aðgerðarsinnarnir voru mættir á vaktina. Lengst af stýrði Heiðar Örn Sigurfinnsson umræðunni en prófessorarnir Ragnhildur Helgadóttir og Guðni Th. Jóhannesson lögðu einnig sitt af mörkum, greindu, skýrðu, settu í samhengi og leyfðu sér það sem háskólafólk hikar oft við: að spá og spekúlera, hugsa upphátt og varpa fram tilgátum sem stundum stóðust og stundum ekki.

Skjáskot úr aukafréttatíma RÚV á hádegi í dag.
Skjáskot úr aukafréttatíma RÚV á hádegi í dag.

Einu sinni, einu sinni enn …

Forsetinn kom enn einu sinni á óvart — og þó. Hann hélt áfram að troða áður ófarnar slóðir í embætti sínu. Mat okkar á gjörðum hans er þó ábyggilega með ýmsu móti. Einhver sagði í RÚV að hann hefði tekið sér stöðu sem verndari ríkisstjórnarinnar. Er það augljóst? Var það ekki þingræðið sem hann stóð vörð um að þessu sinni? Að mínu mati aftengdi hann sprengju og það er alltaf virðingarvert að koma í veg fyrir skemmdir.

Ég sannfærðist í það minnsta um að forsetaembættið er ekki þægileg innivinna. Í því dugar ekki að hafa karl eða konu sem ekki þekkir stjórnskipunina út í æsar, þorir að taka áhættu, er læs á aðstæður, stendur í báðar lappir og getur spunnið fyrir framan sjónarpsvélarnar eins þaulvanur leikari eða uppistandari. Þessa eiginleika öðlast enginn nema með langri reynslu opinberu sviði. Er slíkur kandídat kominn fram? Tæpast.

ruv_frettir_forseti
Skjáskot af klippu á RÚV af blaðamannafundi forsetans.

„Á eirðarlausum flótta um auða hafsins vegi …“

Leiðarstefið var þó svartklæddur karl sem þeyttist í svörtum bíl á milli staða skellandi hurðum af ýmsu tagi á eirðarlausum flótta undan fréttamönnum. Í örvæntingu reyndi hann að haga atburðarrásinni sér í vil, jafnvel eftir að hann játaði sig sigraðan en þá á vefnum. — Sér í vil. — Það var einmitt það sem hinn fallni forsætisráðherra lét stjórnast af í dag, á tæplega þriðja degi eftir að hann hafði staðið upp og gengið út úr sjónarvarpsviðtali eins og blasti við í Kastljóssþættinum sl. sunnudagskvöld. Þar með gekk hann út úr öllu vitrænu pólitísku atferli.

Það sem var sláandi við hátterni forsætisráðherra þennan síðasta dag í embætti var hve einangraður hann var og ofurseldur arfavitlausum ráðgjafa eða spunameistara sem hafði það eina markmið að keyra áfram pólitíska öndunarvél ráðherrans.

Það er hlálegt að Framsókn skuli ætla að sætta sig við Sigmund sem formann sinn eftir pólitískt fall hans. Þetta er þó heimilisböl þess flokks sem pistilshöfundur hefur svo sannarlega ekki áhyggjur af.

Skjáskot úr aukafréttatíma RÚV.
Skjáskot úr aukafréttatíma RÚV.

Nýjar kosningar

Mörg krefjast þingrofs og tafarlausra kosninga. Svona frá svolítið varfærnu sjónarhorni séð virðist þó ekki fráleitur kostur að eftirhreyturnar af ráðuneyti Sigmundar Davíðs sitji í nokkra mánuði í viðbót — þó í mesta lagi hálft ár. Þannig gefst Pírötum ráðrúm til að byggja upp innviðina, Samfylkingunni að leysa formannsvandann. VG og Björt framtíð geta líka skýrt stefnumál sín. Flokkarnir geta þannig búið sig undir kosningar í betra tómi en ef kosið yrði í vor. Þannig gefst okkur kjósendum líka betur kostur á að skila pólitísku hlutverki okkar sem er að ganga til kosninga af ábyrgð og yfirvegun.

Í haust liggja upplýsingar úr Panama-skjölunum líka ljósar fyrir. Við getum þá greint einstaka anga kolkrabbans betur og séð hvaða öfl við eigum að sniðganga í kosningum.

Sigurður Ingi getur þó ekki leitt ríkisstjórn. Hann féll í beinni sl. sunnudagskvöld með hörðum varnarleik sínum fyrir forsætisráðherrann.

Aftur á 0-punkti

Það sárasta í kvöld er þó að við Íslendingar eru aftur stödd á 0-punkti líkt og haustið 2008.

Aftur hefur traustið og trúnaðurinn meðal þjóðarinnar hrapað niður fyrir frostmark. Enn er langt í land að reiðinni og sársaukanum í samfélaginu linni. Það var þó stungið á kýlið á sunnudagskvöldið var. Vonandi getur lækningin nú loksins hafist. En hún mun taka tíma.

Ljósmynd ofan við grein: Andri Haraldsson

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila