Líf á samviskunni

Hugras_djup_spor1Sýningin Djúp spor fjallar um ungan mann, Alex, (Jóel Sæmundsson) og unga konu, Selmu, (Jenný Láru Arnórsdóttur) sem hittast af tilviljun við leiði í kirkjugarði og hafa ekki sést í fimm ár. Bæði þurfa að gera upp við sameiginlega fortíð sem geymir trámatíska reynslu.  Þau voru par en sambandið brast þegar Selma gerði sig seka um alvarlegan dómgreindarbrest, ók drukkin og varð yngri systur Alex að bana. Það getur hann ekki fyrirgefið þó að hann sé ennþá tengdur Selmu sterkum böndum.

Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson skrifa leikritið en Jenný Lára hefur áður unnið verk upp úr viðtölum við fólk, hér fólk sem hefur misst ástvini af völdum drukkinna ökumanna. Aðferðin er kölluð „verbatim“ aðferð eða „orð fyrir orð“, þ.e. hlutar úr viðtölunum eru notaðir óbreyttir – en það er sama leikritunaraðferð og notuð var í heimildaleikritinu Flóði eftir Björn Thors og Hrafnhildi Hagalín og sýnt í Borgarleikhúsinu.

Af gáleysi …

Efnið sem þau Jenný Lára hafa valið sér er mjög dramatískt og alvarlegt, því að fylliríisakstur kostar samfélagið alltof mörg mannslíf og bylgjuáhrifin eru mikil, sorgin verður beiskari og ásökunin óbærilegri ef missir ástvina verður af „gáleysi“, sem sagt af tómlæti eða kæruleysi einhvers.  Í leikritinu felast stórar spurningar um ábyrgð og sekt og upp úr því væri hægt að gera efni sem ætti erindi inn í alla framhaldsskóla landsins til kennslu – og umræðu.
En í leikhúsverki um þetta efni veldur öllu hvernig handritshöfundar halda á spilum. Við höfum öll lesið endalaus tilfinningaþrungin viðtöl og frásagnir í blöðum og tímaritum við fólk sem hefur orðið fyrir þungum skrokkskjóðum í lífinu,  af annarra eða eigin völdum. Þetta eru tilfinningaþrungnar sögur og lesendur hugsa: Hvílík harmsaga! Að fólk skuli þurfa að þjást svona!

Í leikverki verður samúðin að rista dýpra, fólk hrekkur oft frá tilfinningasemi og það þarf að forðast hana en kalla þess í stað fram samlíðun hjá áhorfanda. Djúp spor nær ekki að feta þennan meðalveg, leikritið er ekki nógu vel fléttað, engar hliðarsögur eða undirtextar, og bæði glæpurinn og refsingin fyrirsjáanleg frá upphafi.

Betur má ef duga skal

Samleikur Jennýar Láru og Jóels var merkilega ópersónulegur og stífur, einkum framan af, en hvort um sig átti þó falleg atriði eins og þegar Jenný dansaði við kústinn  á meðan allt var gott og glatt í sambúðinni. Búningar Söndru Hrafnhildar Harðardóttur voru látlausir en frekar litlausir, myndir Sigurðar Hólm, sem varpað var á bakvegg sviðsins, sögðu aftur á móti of mikið. Það hefði farið betur á að  reyna  að fanga stemninguna eða myndræna framsetningu hennar í kirkjugarðssenunum fremur en sýna umhverfið, raðir af leiðum.  Arnar Ingvarsson hefur gert góða hluti í lýsingum sýninganna í Tjarnarbíói og gerir það líka hér. Þetta er fyrsta leikstjórnarverk Bjartmars Þórðarsonar sem ég sé en af því sem ég hef heyrt hlýtur hann að geta gert miklu betur en þetta.

[line]

Aðstandendur:
Höfundar – Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson
Leikstjóri – Bjartmar Þórðarson
Leikarar – Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson
Búningar – Sandra Hrafnhildur Harðardóttir
Tónlist og hljóð – Mark Eldred
Ljós – Arnar Ingvarsson
Markaðssetning – Jenný Lára Arnórsdóttir, Katla Rut Pétursdóttir og Þórunn Guðlaugsdóttir
Grafískur hönnuður – Sigurður Hólm

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila