Strákar sem deyja og stelpur sem elska

Franziska Moll
Þegar þú vaknar
Þýðandi: Herdís M. Hübner
Björt, 2015

Jennifer Niven
Violet og Finch
Þýðendur: Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir
Björt, 2015

Fátt er rómantískara en elskhugar sem ekki fá að eigast nema ef vera skyldi að missa þann sem maður elskar. Um þetta fjalla hjartfólgnar og frægar ástarsögur á borð við Rómeó og Júlíu, Tristrams sögu og Ísöndar og Svanavatnið og þetta er einnig umfjöllunarefni nýrra og raunsærra unglingabóka. Þetta eru langt í frá tyggjóbleikar sögur um unglinga sem svífa um á ástarskýi heldur grafalvarlegar og afskaplega sorglegar sögur sem fjalla ekki aðeins um það að höndla ástina heldur einnig hvernig maður tekst á við að missa þann sem maður elskar. Þegar þú vaknar (Was ich dich träumen lasse) eftir hina þýsku Franzisku Moll og Violet og Finch (All the bright places) eftir Jennifer Nieven eru dæmi um slíkar bækur en þær eru nýútkomnar hjá bókaútgáfunni Björt.

Báðar bækur fjallar um strák og stelpu, Elenu og Rico í Þegar þú vaknar en Violet og Finch í samnefndri bók Jennifer Nieven, og í báðum tilvikum er um að ræða menntaskólanema. Strákurinn fellur fyrir stúlkunni sem vill ekkert með piltinn hafa og reynir að hrista hann af sér. Hún kærir sig ekki um athygli hans, finnst hún óþægileg en svolítið kitlandi en þarf svo að viðurkenna, þvert gegn vilja sínum, að hún getur ekki annað en elskað hann.

Elena og Violet hafa báðar sína djöfla að dröslast með. Violet saknar systur sinna sem fórst í bílslysi þar sem hún sjálf fékk aðeins minniháttar meiðsli. Elena býr hjá áfengissjúkri móður sinni en þær höfðu, áður en saga hófst, flúið heimilisföðurinn sem beitti þær ofbeldi. Báðar stúlkurnar eru ákaflega varar um sig en drengirnir, Rico og Finch, fá þær hvorar um sig til að vakna til lífsins, koma auga á hversu björt tilveran getur verið og til að elska þá sjálfa afar heitt. En svo gerist það: Drengirnir deyja. Í Þegar þú vaknar gerist það í upphafi bókar. Rico verður fyrir bíl og kemst ekki aftur til meðvitundar. Hann liggur á spítala og titill bókarinnar vísar til alls þess sem Elena ætlar sér að gera með Rico þegar hann vaknar. Í Violet og Finch bíður lesandann hreinlega eftir því að Finch deyi. Hann bjargar vissulega lífi Violet í upphafi bókar en bókina út í gegn berst hann við erfiðan geðsjúkdóm og við að finna hjá sér einhvern snefil af lífsvilja. Hann gefst upp í seinni hluta bókar og tekur eigið líf.

Elena reynir eins og hún getur að fá Rico til að vakna og þegar hún finnur lista yfir tíu hluti sem hann langar að gera áður en hann deyr ákveður hún að framkvæma allt sem á honum stendur. Sagan snýst þó síst um baráttu Ricos fyrir lífinu heldur fremur það að Elena þarf að sætta sig við yfirvofandi dauða hans, sem og sættast við drauga eigin fortíðar. Undir lok bókar hefur henni tekist að gera það og staðfesting á því fæst þegar Elena les fyrir Rico lista yfir tíu hluti sem hann vissi ekki um hana. Violet vaknar til lífsins í kringum Finch og fer að njóta lífsins á nýjan leik en um leið og sól hennar skín sífellt skærar dofnar lífsvilji Finch. Eftir að hann deyr þarf Violet að sætta sig við dauða hans, hans ákvörðun og hans sjúkdóm.

Allar fjalla þessar bækur um ástfangna unglinga með brotin og beygluð hjörtu sem eru einmana, einangraðir og útilokaðir á einn eða annan hátt frá samfélaginu og þurfa á öllu sínu að halda til að lifa af. Og það gera sumir en aðrir ekki.
Þegar þú vaknar og Violet og Finch eru prýðileg dæmi um tilfinningaþrungnar og átakanlegar unglingabækur og standast ágætlega samanburð við aðrar bækur svipaðs efnis, svo sem Eleanor og Park eftir Rainbow Rowell og Skrifað í stjörnurnar eftir John Green sem og Alaska eftir sama höfund. Allar fjalla þessar bækur um ástfangna unglinga með brotin og beygluð hjörtu sem eru einmana, einangraðir og útilokaðir á einn eða annan hátt frá samfélaginu og þurfa á öllu sínu að halda til að lifa af. Og það gera sumir en aðrir ekki. Violet og Finch minnir að sumu leyti á bækur John Green, einkum Skrifað í stjörnurnar, bæði hvað varðar samband stúlkunnar og stráksins og hvað varðar tilfinningayfirlýsingar söguhetja, einkum piltanna. Í báðum tilvikum er um að ræða bandarískar unglingabækur með tilheyrandi bandarísku sögusviði og tilfinningasveiflum og ástarjátningum. Vissulega er Violet og Finch að mörgu leyti afskaplega falleg og fer vel með viðkvæmt umfjöllunarefni en tilfinningabomburnar verða stundum helst til yfirgengilegar. Þegar þú vaknar er, í samanburði, sérlega hressandi tilbreyting frá bandarísku tilfinningarússíbönunum. Vissulega er heilmikið um hástemmdar tilfinningar í bók Franzisku Moll en bókin er á einhvern hátt jarðtengdari, svolítið hryssinglegri, kaldari og meira töff en bók Jennifer Nieven. Violet og Finch segir lesendum frá, leiðbeinir og kennir en Þegar þú vaknar segir aðeins það sem er og lætur lesendum eftir að dæma. Bækurnar fjalla þó ekki síst um upprisu stúlknanna sem þurfa hvorar um sig að læra að standa með sjálfum sér og meta sig að verðleikum – og það er mikilvæg lexía og sjaldan of oft kveðin í unglingaheimum.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila