Næstum því eins en þó ekki alveg …

Hið marglofaða sænska leikrit ≈ [um það bil jafngilt …] er um margt vel skrifuð og fyndin tragíkómidía en af því að persónurnar þrá fyrst og fremst peninga en hafa takmarkaðan áhuga hver á annarri verður leikritið sundurlaust og sýning Unu Þorleifsdóttur hefur ekki þá sterku heildarsýn eða túlkun sem gæti límt það saman.
Nýja leikritið hans Jonas Hassen Khemiri heitir á sænsku “ ≈ [Ungefär lika med].“ Stærðfræðitáknið fyrir framan svigann er útskýrt í hornklofanum og þýðir „um það bil jafnt og…“ Táknið þýðir sem sagt „nánast sambærilegt við“ og er trúlega notað meðal annars yfir sænsk samheitalyf eða eitthvað sem gerir sama gagn en er ekki eins gott og fyrirmyndin, ímyndaður hápunktur eða einhvers konar „frumútgáfa“. Íslenskur titill verksins í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl er „≈ [Um það bil]“ og það finnst mér vera hálfur titillinn og því sleppt sem síst skyldi þ.e. „sambærileg“ eða „jafngild“. Leikritið snýst um jafngildið. Fólkið í því er ekki nógu gott eða ekki eins gott og það gæti verið.

Flísar og formúlur

Leikmynd og búningar eru sköpunarverk Eva Signýjar Berger. Leikmyndin er hvít og flísalögð og það eina sem virðist brjóta upp hin stöðluðu, gerilsneyddu form eru plaststólar í laginu eins og (stærðfræði-)tákn og tölur og formúlur í neonljósadýrð ofarlega á bakvegg sviðsins en þær eru líka verkfæri stöðlunar og reglufestu. Búningarnir og leikgervi eru sömuleiðis afar vel hugsuð og útfærð (nema stundakennarinn sem var í flauelsjakka). Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar og hljóðmynd þeirra Kristins Gauta Einarssonar lék mikið hlutverk í sýningunni og lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar var flott, ekki síst í lokaatriðinu.

Hugras_umthadbil1

Fallegi bróðirinn

Einhverra hluta vegna hafa Svíar verið kallaðir „fallegi bróðirinn“ á hinum Norðurlöndunum og þeir líta líka stærst á sig – þó samkeppnin sé hörð. Það er hins vegar hluti af sænska kerfinu að einhver sé ósáttur og gagnrýninn og segi það. Það er lýðræðislegt.

Jonas Hassen Khemiri er afskaplega spennandi höfundur og mikið „óskabarn“ sænskrar menningar nú um stundir. Hann hefur fengið hver verðlaunin öðrum virtari síðustu ár og sameinar einhvern veginn allt sem menn vilja fá, hann er ljónskarpur, fyndinn, afar vel skrifandi, ungur og fagur, alþjóðlegur en sænskur. Hann hefur ekkert vandað sænska velferðarsamfélaginu kveðjurnar í skáldsögum sínum og leikritum og er þekktur fyrir mjög hvassa og beina gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir hæpnar ákvarðanir, hræsni og rasisma í viðhorfum til flóttamanna, til eigin sjálfsmyndar og til fjölbreytileika. Um leið er hann fyndinn og stundum tilfinningasamur og bækur hans hafa selst eins og heitar lummur.

Þetta nýja leikrit er myrkara og öðruvísi en fyrri leikrit hans og gerir sænska gagnrýnendur svolítið ráðvillta ef marka má sænska umfjöllun um verkið.

Hugras_umthadbil2

Sex sögur

Í sýningunni eru sjö leikarar, fjögur aðalhlutverk og fjölmörg önnur aukahlutverk. Þar eru fjórar sögur fjögurra alpersóna. Sögurnar eru sagðar aftur á bak, þannig að verkið byrjar á endinum, það er fullt af fjöri og sprelli í atriðum sem tengja oft langar einræður. Persónurnar fjórar tengjast en tala ekki mikið saman.

Hugras_umthadbil3

Þær eru: Andrej (Snorri Engilbertsson) innflytjandi og atvinnuleitandi, sem fær ekkert að gera enda útilokaður fyrirfram þó ekki væri nema útaf skrýtna eftirnafninu sem enginn getur borið fram. Hann fyrirlítur Pétur útigangsmann (Þröst Leó Gunnarsson), eina manninn sem er enn verr settur en hann sjálfur og grunar hann um græsku. Kannski réttilega. Hvorugur þeirra á sjens í samfélaginu. Máni (Stefán Hallur Stefánsson) stundakennari þráir frægð og peninga og fasta stöðu en fær hana ekki og kemst ekki að kjötkötlunum. Margrét kona hans er sú eina sem er af ríku fólki komin en hún hafnar lífsgæðakapphlaupinu og vill verða bóndi á lífrænu sjálfbæru búi. Hana dreymir um það við vinnu sína í sjoppunni. Hún á sér leyndarmál eins og maður hennar. Freyju (Guðrún Snæfríður Gísladóttir) hefur verið sparkað útúr góðri vinnu og hún svífst einskis til að komast inn í hana aftur. Skemmtistjórinn (Oddur Júlíusson) var líka yngri bróðir Andrej og margvíslegir kúnnar í sjoppunni og, „hið illa sjálf“ Margrétar, afgreiðslukona í ríkinu og hagfræðingur á áttunda áratugnum var Katrín Halldóra Sigurðardóttir.

Reynsluboltarnir í leikaraliðinu bjuggu til verulega áhrifamiklar persónur; Þröstur Leó breyttist líkamlega í útigangsmann og fékk að sýna reiðina sem undir getur búið, Stefán Hallur átti óhugnanlega ljóðrænt og magnað lokaatriði og Guðrún Snæfríður Gísladóttir var svo mikill óþverri í hlutverki Freyju að ég var lengi eftir sýninguna að ná illskunni undir því yfirborði. Oddur Júlíusson lék líka vel á salinn en það vantaði eitthvað upp dýptina eða spennuna í hinum persónunum sem líka rúma miklar andstæður.

Hugras_umthadbil4

Skrímslið?

Persónurnar mótast allar af afstöðu sinni til grundvallar-trúarsetningar kapítalismans: Að eiga eða eiga ekki – þar liggur efinn“. Kapítalisminn og neyslusamfélagið hefur innhverfst og mótar öll mannleg samskipti í verkinu. Í viðtali við Fréttablaðið segir Una Þorleifsdótir söguna af því hvernig Dramaten bað Khemiri að skrifa leikrit um Frankenstein en hann skrifaði þetta verk í staðinn og hún segir að kapítalisminn sé það manngerða skrímsli sem „við“ höfum misst stjórn á og ríki yfir lífi „okkar“. En kapítalisminn er ekki yfirskilvitlegur og hann er ekki rómantísk hrollvekja, hann snýst um hagsmuni þeirra sem bjuggu hann til og hann snýst um peninga. Sá sem á peningana og fjölmiðlana ræður því hver er „um það bil jafn góður og …“ viðmiðið sem er alltaf þeir ríkustu og hagsmunir þeirra. Eða eins og Homi Bhabha segir um stöðu þeirra nýlendubúa sem lengst ná í samfélagi nýlenduherranna, þeir eru: „Almost the same – but not quite“ og sá litli munur nægir til að halda þeim niðri. Fyrirlitningin á þeim sem verður undir litar sjálfsmat þeirra og mat hvers á öðrum, líka í samböndum eins og hjónabandi Margrétar og Mána.

Barátta fólks gegn þessum hlekkjum hugarfarsins tekur líka alltaf á sig ný og ný form en í þetta sinn er Khemiri ekki að tala um hana og lausn verksins er sjálfsmorð mannsins sem vildi breyta kerfinu innan frá.
Þetta er saga sem sögð hefur verið oft áður í leikhúsi, bíó og bókmenntum í meira en öld. Hjá Homi Bhabha er það gömul og ný nýlendustefna og nýlenduarfur sem málið snýst um, hér er það kapítalisminn, hagfræðikenningarnar, sem þjóna því hlutverki að hámarka gróða sumra á kostnað annarra sem hafa verið gerðar að forskriftum að lífi sem enginn vill í raun lifa. Sú saga hefur líka verið sögð áður en hún tekur alltaf á sig ný og ný form. Barátta fólks gegn þessum hlekkjum hugarfarsins tekur líka alltaf á sig ný og ný form en í þetta sinn er Khemiri ekki að tala um hana og lausn verksins er sjálfsmorð mannsins sem vildi breyta kerfinu innan frá. Það er kannski þess vegna sem leikritið er frústrerandi og sýningin varð ójöfn og skilur mann eftir með einhvers konar tómleikatilfinningu.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila