Óþægilega raunveruleg hrollvekja

Hildur Knútsdóttir
Vetrarfrí
Mál og menning, 2015
Vesturbærinn í Reykjavík hefur síðustu ár verið nokkuð vinsælt sögusvið bóka sem ætlaðar eru unglingum og öðrum sem hafa gaman af að lesa bækur um fólk sem telst hvorki til barna né fullorðinna. Bækur Hallveigar Thorlaciusar, Martröð (2008) og Augað (2013), gerast þar að hluta og í Játningum mjólkurfernuskálds (2011) eftir Arndísi Þórarinsdóttur er Vesturbærinn og Hagaskóli hluti af svartri fortíð aðalsöguhetjunnar. Sláttur (2011) Hildar Knútsdóttir gerist einnig vesturfrá og í Manninum sem hataði börn (2014) dritar Þórarinn Leifsson afhöggnum hausum tvist og bast um Vesturbæinn. Nýjasta nýtt í flóru unglingasagna í Vesturbænum er Vetrarfrí (2015) Hildar Knútsdóttur – hrottalega raunveruleg og frábærlega ógnvekjandi hryllingssaga sem er af mikilli nákvæmni staðsett í Vesturbænum, sérstaklega á Melunum, og í Hagaskóla. Raunar er sagan svo ógurleg að þegar undirrituð kennslukona trítlaði í myrkrinu í morgun til vinnu sinnar í Hagaskóla þurfti hún að hafa sig alla við til að hlaupa ekki sem fætur toguðu inn í skóla og harðlæsa á eftir sér.

Allt virðist ætla að smella saman þar til hún neyðist til að eyða vetrarfríinu í sumarbústað með menntaskólakennaranum pabba sínum og yngri bróður sínum, sveimhuganum Braga.
Vetrarfrí segir sögu tíundabekkingsins Bergljótar sem hlakkar til vetrarfrísins sem framundan er og þá einkum partýsins sem til stendur að halda en allar líkur eru á því að strákurinn sem Bergljót hefur mænt á orðlaus í tvo vetur verði þar og vilji hitta hana. Allt virðist ætla að smella saman þar til hún neyðist til að eyða vetrarfríinu í sumarbústað með menntaskólakennaranum pabba sínum og yngri bróður sínum, sveimhuganum Braga. Ástandið gæti ekki verið ömurlegra og varla nokkuð spennandi sem getur gerst í litlum kofa á Arnarstapa um miðjan vetur. Þetta er þema sem allir sæmilega skólaðir unglingabókalesendur kannast mætavel við: Eitthvað spennandi er í uppsiglingu en fullorðna fólkinu tekst með ótrúlegri lagni að eyðileggja allt sem nokkurt fútt er í. Unglingurinn bregst við með fýlu og áþreifanlegri og þrúgandi þögn. Bílferðin vestur í bústað er langt í frá lífleg.

Sagan fer rólega – og raunsæislega – af stað, raunar svo rólega að lesandanum þykir nóg um. Hún vindur þó hratt upp á sig eftir að komið er í bústaðinn og fýlan að hluta rokin úr Bergljótu. Án þess að fara út í of mikil smáatriði fyllist allt af gubbandi fótboltastrákum, blóðsúthellingum, óteljandi dauðsföllum og allsherjar tæknihruni. Frásagnarhraðinn eykst, hjartslátturinn verður hraðari og lesandinn nær varla að fletta nógu hratt á meðan pabbi, Bergljót og Bragi bruna í bæinn að leita að mömmu. Í borg óttans finnst varla nokkur hræða á lífi og söguhetjurnar byrgja alla glugga, læsa að sér og læðast í skjóli nætur út í 10-11 við Hjarðarhaga til að stela mat og öðrum nauðsynjum. Óttinn við „þá“ er ógurlegur – þessa „þá“ sem eiga ekki í neinum vandræðum með að bryðja mannabein. Söguhetjurnar flýja Reykjavík og halda út á land. Fleiri flóttamenn bætast í hópinn og loks kemst öll hersingin á áfangastað sem virðist, að sinni, vera öruggur. Meira má ekki gefa upp um söguþráðinn til að eyðileggja ekki spennuna fyrir væntanlegum lesendum.

Íslenskir rithöfundar hafa að mestu látið geimverur og sombía eiga sig og leyfi ég mér að fullyrða að Vetrarfrí sé fyrsta íslenska unglinga-bókin sem fjallar um hvort tveggja – að því er virðist.
Augljóslega er Vetrarfrí ekki raunsæisverk og tilheyrir flokki fantasíubókmennta fyrir unglinga sem hafa notið geysimikilla vinsælda síðustu tvo áratugi eða svo. Þetta eru sögur um drauga, sombía, engla, djöfla, varúlfa og vampýrur, sögur sem eru uppfullar af spennu, ást, áhættu, hormónum, kynlífi, lífi og dauða. Fantasíur þurfa þó ekki alltaf að fjalla um furðuverur úr þjóðsögum, ævintýrum, grárri forneskju eða gömlum gröfum; þær geta líka haft að umfjöllunarefni verur utan úr geimnum og verið smekkfullar af nýjustu tækni og vísindum. Geimverurnar eru sjaldnast vinveittar okkur mönnunum og allur gangur er á því hvort þær líta út alveg eins og mennirnir, taki á sig ásjónu þeirra, lifi sem hýslar í líkömum þeirra eða eru allt, allt öðruvísi en mannfólk að sjá. Íslenskir rithöfundar hafa að mestu látið geimverur og sombía eiga sig og leyfi ég mér að fullyrða að Vetrarfrí sé fyrsta íslenska unglingabókin sem fjallar um hvort tveggja – að því er virðist. Það er nefnilega ekki á kristaltæru hvort „vondu kallarnir“ séu geimverur, sombíar, mannætur eða eitthvað allt annað auk þess sem mannfólkið virðist ekki allt vera sárasaklaust. Ætli Vetrarfrí sé ekki líka sú skáldsaga þar sem flestir Íslendingar eru hreinlega étnir – og það verður að segja Hildi til hróss að henni tekst að skrifa um það með slíkum hætti að lesandinn verður hæfilega óttasleginn og án þess að blóð, kjöttægjur og aðrir líkamsvessar fylli síðu eftir síðu.

Nýjasta skáldsaga Hildar Knútsdóttur fær lánað héðan og þaðan úr vinsælum bókmenntagreinum svo úr verður feykispennandi, þétt og vel skrifuð saga – sú fyrsta sinnar tegundar á íslenskum unglingabóka-markaði en vonandi ekki sú síðasta. Ég hlakka mikið til að lesa framhaldið.
Vetrarfrí er dystópía, saga sem gerist um eða eftir heimsendi, syndafall eða hrun siðmenningarinnar. Fátt stendur eftir – allt er grátt og líflaust – og mennirnir gjarnan á valdi illra afla sem þrautpína þá og koma fram við þá eins og skepnur. Lesendur fylgjast með hruni Íslands, eins og við þekkjum það, svo að segja í beinni útsendingu. Það er ekki tæknihrunið eða sú staðreynd að nær öll íslenska þjóðin er þurrkuð út í bókinni sem hræðir mann einna mest heldur það að enginn veit hverjir (eða hvað) standa á bak við hryllinginn eða hvað þeim gengur til – auk þess sem ekki nokkur von virðist vera á hjálp frá öðrum löndum. Í bókarlok er draumaprinsinn úr fyrstu köflunum löngu gleymdur enda snýst tilveran um annað en hvað gæti eða gæti ekki gerst í næsta partýi. Þetta er barátta upp á líf og dauða – og henni er langt í frá lokið.

Nýjasta skáldsaga Hildar Knútsdóttur fær lánað héðan og þaðan úr vinsælum bókmenntagreinum svo úr verður feikispennandi, þétt og vel skrifuð saga – sú fyrsta sinnar tegundar á íslenskum unglingabókamarkaði en vonandi ekki sú síðasta. Ég hlakka mikið til að lesa framhaldið.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila