Smáa letrið í náttúrunni

[x_text]
Fredrik Sjöberg, Flugnagildran, Bjartur, 2015
Bókin Flugnagildran eftir svíann Fredrik Sjöberg er ólíkindatól. Hún kom fyrst út í Svíþjóð árið 2004 og hefur hægt og sígandi dreift sér til annarra landa og notið vinsælda. Er þetta skáldsaga, ritgerðasafn, sjálfsævisaga eða safn hugleiðinga? Þessum spurningum er öllum hægt að svara játandi og eflaust óþarfi að týna sér í flokkunarfræðunum, nú þegar hafa margir velt vöngum yfir þessu. Bókin leikur á þessum mörkum og lýtur því eigin lögmálum.

Í káputexta og tilvitnun fremst í bókinni er vitnað í orð Augustos Monterroso um að viðfangsefnin séu þrjú: Ástin, dauðinn og flugurnar. Þetta vekur strax forvitni og setur verkið í skemmtilegt samhengi við viðfangsefni heimsbókmenntanna.

Sagan er sjálfsævisöguleg, brotakennd og borin uppi af sögumanni sem er líffræðingurinn Sjöberg. Hann býr á fimmtán ferkílómetra eyju í sænska Skerjagarðinum og rannsakar hana og leitar uppi sveifflugur. „Í augum skordýrafræðings eru fimmtán ferkílómetrar heill heimur, pláneta út af fyrir sig“ (bls. 96). Hann kynnir lesandann fyrir þessum sérhæfða heimi og opnar smám saman nýja veröld þar sem óvænt undur suða fyrir framan nefið á okkur. Á sama tíma er farið um víðan völl í heimi náttúruvísinda og bókmennta. Höfundar á borð við August Strindberg, H.D. Lawrence, Milan Kundera og Bruce Chatwin koma við sögu. Ævi og störf Renés Malaise (1892-1978) eru til umfjöllunar en hann fann upp og hannaði flugnagildru sem kallast Malaise-gildran. Sögumaður notar þessa gildru og fjallar um leiðangra og vísindastörf Malaise en hann safnaði blaðvespum. Í blálokin leggst sögumaður í miklar rannsóknir á málverkaeign Malaise og mögulegum fölsunum.

Höfundur nefnir það á mörgum stöðum hve mikilvægt sé að setja sjálfum sér mörk og þannig sérhæfa sig á einu sviði. Þess vegna velur hann sveifflugurnar en það eru flugur sem hafa þá eiginleika að geta líkt eftir öðrum flugum í útliti. Tegundirnar eru margar en afar sjaldgæfar og þess vegna er það stórkostlegur sigur og sérstæð nautn þegar hann rambar á tegund sem aldrei áður hefur fundist í Svíþjóð. Starfið krefst mikillar nákvæmni og er jafnframt einmanalegt. Hann einskorðar söfnunina við eyjuna litlu og hefur þegar þarna er komið við sögu fangað 202 tegundir. Hann á erfitt með að lýsa fyrir öðrum sigrinum sem því fylgir.

Af hverju heillast maður af hlutum eins og sveifflugum? Af hverju tekur maður af skarið og helgar frítíma sínum einhverju eins og að safna flugum?
Það getur verið nokkuð snúið að ætla að endursegja svo fjölbreytta bók og í raun ekki hlutverk ritdóms að rekja efnið frá byrjun til enda. Það sem vekur áhuga við lesturinn eru tvær spurningar sem sögumaður spyr sig og leitar svara við: Hvers vegna bý ég á eyju? Hvers vegna safna ég flugum? Þessar spurningar og leitin að svörum við þeim mynda í raun kjarna bókarinnar. Hann spyr sig líka af hverju hann heillist af Malaise. Af hverju gerir maður það sem maður gerir? Af hverju heillast maður af hlutum eins og sveifflugum? Af hverju tekur maður af skarið og helgar frítíma sínum einhverju eins og að safna flugum?

Eyjan er þungamiðjan og út frá henni fer sagan um víðan völl í tíma og rúmi. Sögumaður dregur lesandann reglulega aftur niður á eyjuna og þannig myndast ákveðið samhengi í óreiðunni. Það sem ber bókina uppi er sögumannsröddin sem er blátt áfram, þægileg, hlý og jafnvel fyndin. Sjöberg nær að dansa á línu alvarleikans og leiksins og gerir góðlátlegt grín að sjálfum sér og öðrum. Til dæmis segir hann framarlega í bókinni „Þegar ég verð gamall mun ég ef til vill aðeins stunda flugnarannsóknir mínar í garðinum, sitja í sólskininu hjá kvistunum og fiðrildarunnanum eins og kalífi í lystigarði sínum með sogslönguna í munninum líkt og væri hún tengd við ópíumpípu“ (bls. 49). Hann rekur það á heillandi hátt hvernig nýjar tegundir flugna og skordýra nema land og þróast. Samspil manns og náttúru er í forgrunni og Sjöberg sýnir fram á að óspillt náttúra og spillt lúti flóknari lögmálum en í fyrstu virðist. Nýjar tegundir geta birst þar sem maðurinn hefur raskað og breytt hinni óspilltu náttúru. Náttúran lagar sig að manninum og verkum hans og þannig sýnir hann fram á gagnvirkni þar á milli:

Aðkomutegundir eru býsna flókið og tilfinningaþrungið mál. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma. Ég vil aðeins taka fram að sveifflugnasafnarinn getur varla annað en verið umburðarlyndur í málefnum aðkomudýra vegna þess að hann heldur sig á mörkum menningar og náttúru, í smækkaðri veröld sem stjórnast af einskærum tilviljunum og sífelldum truflunum. Allt breytist endalaust. Ég laðast að görðum og engjum, þeim fáu sem eftir eru. Í mínum huga eru þau villtari og auðugri og miklu skemmtilegri en ósnortin náttúra, rétt eins og beitarhagarnir, trjágöngin, kirkjugarðarnir, vegkantarnir og þráðbeinar háspennulínugöturnar í skóginum. Þar eru flugur! (bls. 82)

Hann heillast af smáa letrinu í náttúrunni „…öllu því fíngerða sem krefst gríðarlega mikillar þekkingar til að skilja“ (bls. 117). Hann er knúinn áfram af þekkingarþorsta, óþrjótandi leit að skilningi og sýnir fram á hversu mikilvægt það er að geta undrast. Að leyfa smáa letrinu í náttúrunni að koma sér á óvart. Þannig er skemmtilegur undrunargáski í bókinni sem gerir hana mjög heillandi. Til dæmis lýsir hann því hve sorglegt væri að safna tegundum eins og fiðrildum því þá myndi hann fljótlega sitja uppi með safn sem væri afar dapurlegt því það vantaði ekkert í það. Sú vissa að hann muni aldrei ná fullkomlega utan um safnið sitt fyllir hann eftirvæntingu. Hann gerir sér líka grein fyrir að hann er hluti af stærri heimi annarra safnara og sporgöngumanna í vísindasögunni eins og Linnés, Darwins, Wegeners og fleiri.

Ég hreinlega get ekki gert það upp við mig hvort bókin sé of sundurleit (sem er eins og áður segir aðal frumleiki bókarinnar) eða hvort þessir ólíku þræðir gangi upp.
Margt í bókinni er afar hefðbundið eins og það hvernig sögumaður talar af hlýju um sjálfan sig, flugur og heiminn allan. Þessi rótgróna sögumannsrödd gerir það að verkum að textinn kemst upp með að fara um víðan völl, flakka á milli ólíkra tíma og ólíkra manna. Stundum virkar textinn eins og hefðbundið fræðslurit um ólíka afkima fræðanna. Frumleikinn er fólginn í efnistökunum en sögumannsröddin er stöðluð. Það hefði verið gaman að sjá meiri háska, fleiri víddir, meiri undirtexta, en þá er spurning hvort maður sé að biðja um aðra bók. Ég hreinlega get ekki gert það upp við mig hvort bókin sé of sundurleit (sem er eins og áður segir aðal frumleiki bókarinnar) eða hvort þessir ólíku þræðir gangi upp. Á margan hátt gerir hún það en líka á margan hátt ekki eins og t.d. í lokin þegar allt í einu fer óvenjumikið púður í umfjöllun um listaverkasöfnun Malaise.

Hér gafst ekki tækifæri til að bera sænska textann saman við íslensku þýðinguna. Hins vegar leynir það sér ekki að textinn flæðir fram af svo miklu áreynsluleysi að maður gæti haldið að bókin væri skrifuð á íslensku. Þetta er vísbending um að vel hafi tekist til í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur. Flugnagildran hefur eflaust fengið ritdóma í mörgum löndum og þess vegna væri ráð að rýna í þýðinguna þegar bók eins og þessi kemur út á Íslandi. Það er tillaga mín að þegar bækur sem hafa farið sigurför um heiminn og koma síðan út á íslensku þá nýtum við okkur þá fjölmörgu þýðingarfræðinga og þýðendur sem búa hér á landi til að rýna í þýðinguna auk hefðbundinnar ritrýni.[/x_text]

Um höfundinn
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir er ljóðskáld og smásagnahöfundur. Hún er einnig doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og stundakennari í ritfærni við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

[x_text][fblike][/x_text]

Deila