Hinn sígildi svanur

[x_text]
Það voru þakklátir áhorfendur sem hylltu St. Petersburg Festival Ballet að lokinni sýningu á hinum sígilda ballett Svanavatninu í Hörpunni síðastliðinn sunnudag. Þorstinn eftir því að sjá klassískan ballett á sviði hér á Íslandi var greinilega mikill og koma flokksins því hvalreki fyrir ballettáhugafólk. Ætla má að tónar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi einnig átt sinn þátt í fagnaðarlátunum.
Nám í klassískum ballett á Íslandi má rekja til stofnunar Listdansskóla Íslands innan vébanda Þjóðleikhússins árið 1952, þá undir nafninu Listdansskóli Þjóðleikhússins. Ballett hafði verið kenndur í einhverjum mæli fyrir þann tíma en þetta ár fékk menntunin formlegan farveg innan menntunar- og listastefnu stjórnvalda. Samhliða og fljótlega eftir stofnun Listdansskólans spruttu einnig upp einkareknir ballettskólar, sumir þeirra starfandi enn þann dag í dag. Næstu áratugina var ballettkennsla í forgrunni í listdansmenntun hér á landi þó að djass og seinna nútímadans næmu land. Þegar Íslenski dansflokkurinn var stofnaður 1973 setti hann upp sígild ballettverk eins og Coppelíu og Giselle jafnframt því að setja upp nútímadansverk. Þar sem mikinn fjölda dansara þarf í sígildar ballettuppfærslur, sem dæmi má nefna að 50 manns stóðu á bak við sýninguna í Hörpunni, fengu nemendur Listdansskólans að taka þátt í sýningum flokksins og var það einkar spennandi og lærdómsríkt fyrir unga dansara. Árið 1996 skipti Íslenski dansflokkurinn um stefnu og gerðist nútímadansflokkur eingöngu enda fjárframlög til hans ekki miðuð við flokk af þeirri stærðargráðu sem þarf til að setja upp ballettuppfærslur auk þess sem breyttir tímar báru með sér nýja strauma. Auk þess krefjast uppfærslur stóru sígildu ballettverkanna gríðarlegrar táskórtækni af kvendönsurum, sem eingöngu er hægt að viðhalda með daglegri þjálfun og ekki síður mörgum sýningatækifærum allt árið um kring. Menntun dansara hér á landi hefur breyst í takt við breytingar flokksins. Þrátt fyrir að flestir yngri dansnemendur séu í ballettnámi verða nútímadansbrautirnar á menntaskólastigi sífellt vinsælli á kostnað þeirra klassísku og eingöngu er hægt að velja samtímadans á háskólastigi.

849520

Sýningar sem þessar eru því gríðarlega mikilvægar fyrir ballettnemendur þessa lands svo ekki sé minnst á áhugafólk um ballett almennt.
Við breyttar áherslur Íslenska dansflokksins hvarf sígildur ballett af sviðum leikhúsanna hér á landi nema í formi nemendasýninga ballettskólanna. Einstaka gestasýningar hafa þó komið til landsins á borð við sýningu San Franscisco ballettsins á Svanavatninu undir stjórn Helga Tómassonar í Borgarleikhúsinu á Listahátíð vorið 2000, en þetta hafa verið undantekningar frekar en regla. Að sama skapi hurfu atvinnutækifæri hér á landi fyrir nemendur sem valið hafa nám klassískum dansi frekar en nútíma- eða samtímadansi. Sýningar sem þessar eru því gríðarlega mikilvægar fyrir ballettnemendur þessa lands svo ekki sé minnst á áhugafólk um ballett almennt.

Þetta er í annað sinn sem Hátíðarballettinn frá St. Pétursborg kemur til landsins og fær Sinfóníuhljómsveit Íslands í lið með sér við að setja upp ballettsýningu byggða á tónlist Tchaikovskys. Fyrst var það Hnotubrjóturinn, nú Svanavatnið og þá liggur beinast við að sýna Þyrnirós að ári en þessi þrjú ballettverk mynda þríleik þar sem tónskáldið Tchaikovsky og danshöfundurinn Marius Petipa vinna saman ásamt danshöfundinum Lev Ivanov. Flokkurinn sem var stofnaður 2009 en listrænn stjórnanda hans og aðalballerína er Margarita Zhuchina. Flokkurinn hefur sýnt víða um lönd og mörg af helstu sígildu verkum ballettsögunnar.

849518

Heimssýning á Svanavatninu eins og við þekkjum það í dag var í Maryinsky leikhúsinu (nú Kirov) í St. Pétursborg 1895. Danshöfundarnir Marius Petipa og Lev Ivanov sömdu ballettinn saman við tónlist Tchaikovskys. Petipa gerði 1. og 3. þátt en Ivanow 2. og 3. þátt. Efni ballettsins er byggt á ævintýri um prinsessu sem breytt er í svan af vonda galdrakarlinum Rauðskegg og eins og í ekta ævintýri getur eingöngu sönn ást rofið þau álög. Söguþráður verksins er í stuttu máli eftirfarandi: Fyrsti þáttur gerist í 21 árs afmælisveislu Sigfried prins en þar eru saman komnir vinir hans og kennari að dansa og skemmta sér. Móðir hans tilkynnir honum á þessum tímamótum að hann þurfi að velja sér konu hið fyrsta og kynnir hann fyrir þeim stúlkum sem hún hefur valið sem ákjósanlega kvenkosti. Endar þátturinn á því að prinsinn fer út í skóg á veiðar, heldur ósáttur við hugmynd móður sinnar. Í þessum fyrsta þætti sem saminn er af Petipa eru falleg hópatriði í fyrirrúmi þó minni sólóar, dúettar og tríó fái einnig að njóta sín. Annar þáttur gerist í skóginum. Þar hittir prinsinn svanadrottninguna Odette (hvíta svaninn) en hún losnar úr álögum á næturnar en er svanur á daginn. Þau verða ástfangin og heitir hann henni ævarandi tryggð áður en hann heldur aftur til síns heima. Það er þessi þáttur, saminn af Ivanov, sem er best þekkti hluti Svanavatnsins ásamt dansi svarta svansins í þriðja þætti. Hér er Rauðskeggur kynntur til sögunnar og hin yndislega svanadrottning Odette ásamt hinum svanastúlkunum.

849516

Hlutverk Odette er eitt þeirra mest krefjandi fyrir ballerínu að dansa.Fínlegar handhreyfingar og tjáning sem ber með sér tígulegan yndisþokka eru ekki á allra færi. Samdans hennar og Sigfrieds er tjáningarríkur og viðkvæmur, auk þess sem tjá þarf óttann sem Odette ber til Rauðskeggs.
Hlutverk Odette er eitt þeirra mest krefjandi fyrir ballerínu að dansa. Fínlegar handhreyfingar og tjáning sem ber með sér tígulegan yndisþokka eru ekki á allra færi. Samdans hennar og Sigfrieds er tjáningarríkur og viðkvæmur, auk þess sem tjá þarf óttann sem Odette ber til Rauðskeggs. Þriðji þáttur fer svo fram í höllinni heima hjá prinsinum. Það er komið að því að hann velji sér konu og er haldin mikil veisla af því tilefni. Í þessum þætti hefur Petipa sett inn dansatriði í anda þjóðdansa mismunandi landa. Dansað er meðal annars í spænskum og rússneskum stíl auk þess sem tilvonandi konuefni dansa fyrir prinsinn. Hápunktur þessa þáttar er þó þegar Rauðskeggur mætir í veisluna og kynnir svarta svaninn Odelle fyrir prinsinum en hann heldur að þar sé komin svanadrottningin fagra sem hann hitti í skóginum og játaði ævarandi tryggð. Svarti svanurinn er jafn ögrandi og kraftmikill og sá hvíti var auðmjúkur og viðkvæmur og orkan í samdansinum við prinsinn því allt önnur. Eitt af því erfiðasta við hlutverkið er þegar Odelle tekur 29-32 fouette snúninga á sviðinu og er það ekki á færi nema færustu ballerína. Það merkilega við ballettinn er síðan það að oftast dansar sama ballerínan bæði hlutverk hinnar ofurblíðu Odette og hinnar kraftmiklu og tælandi Odelle, sem þýðir að hún þarf að búa yfir mikilli breidd sem dansari jafnt í tækni sem tjáningu. Lokaþátturinn gerist svo við vatnið þar sem prinsinn leitar fyrirgefningar hjá hvíta svaninum vegna svikanna. Í sýningunni í Hörpunni ræður prinsinn þar niðurlögum Rauðskeggs sem þýðir að álögin leysast af svönunum og hann og Odette lifa hamingjusöm til æviloka. Stundum hefur ballettinn þó öllu dramatískari endi þar sem ástvinirnir ganga saman í dauðann frekar en að skilja. Lokasenan er eftir Levonov og ber sama yfirbragð og annar þáttur. Kórinn fær að njóta sín á sviðinu í fallegum hópatriðum og skapar umgjörð fyrir tjáningarríkan samdans prinsins og svanadrottningarinnar þegar þau mætast aftur í skóginum.

849519

Það var ánægjuleg tilbreyting að fara á ballettsýningu hér á landi og vonandi verður framhald þar á. Ballettinn er elsti vestræni listdansstíllinn og býr yfir mikilli sögu og hefðum sem vert er að halda í heiðri.
Margarita Zhuchina, aðaldansari St. Petersburg ballettsins, fórst vel úr hendi að dansa þessi ólíku og krefjandi hlutverk Odette og Odile með dyggri hjálp Mychailo Tkachuk í hlutverki Sigfrieds. Dansarinn sem fór með hlutverk Rauðskeggs vakti athygli undirritaðrar fyrir kraftmikla og ögrandi túlkun. Frammistaða kórsins í verkinu („corp de ballet“) var ekki hnökralaus og dansararnir stundum óöruggir á sviðinu. Má ætla eitthvað að því megi skrifa á sviðið í Eldborg sem er lítið þegar kemur að því að setja upp ballettverk í fullri stærð. Sviðsmyndin var einföld og kom því til skila sem þurfa þótti og lýsing bæði hrein og skýr; látlaus en falleg. Búningarnir eru ekki síst það sem skapar töfraheim gömlu sígildu verkanna og er skrautið og íburðurinn táknmynd þess sem hægt er að láta sig dreyma um. Öll umgjörðin skiptir miklu máli fyrir framsetningu ballettverksins og tókst ágætlega. Það var ánægjuleg tilbreyting að fara á ballettsýningu hér á landi og vonandi verður framhald þar á. Ballettinn er elsti vestræni listdansstíllinn og býr yfir mikilli sögu og hefðum sem vert er að halda í heiðri.[/x_text]
Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[x_text][fblike][/x_text]

Deila