[container] Kata er stór, grár en örlítið blóðugur múrsteinn í útgáfuflóði ársins. Þegar lausa kápan er tekin af minnir harðspjaldið á rauðan múrstein, sem lýsir vel efni bókarinnar: Grár, steríll veruleiki víkur smám saman fyrir bullsjóðandi og eldheitri reiði þar sem blóðið fær að renna, spýtast og skvettast.
Hjónin Kata og Tómas búa við veraldleg gæði í húsi sínu á Seltjarnarnesi og vinna bæði á Landspítalanum, hún sem hjúkrunarkona og hann skurðlæknir. Yfirborðið er slétt og fellt en upphafssetningin í fyrsta kaflanum eftir formálann slær tóninn: „Þau sátu tvö í þögninni. Kata strauk fingurgómunum yfir borðið, eins og til að slétta betur úr því. Það yrði ekkert sléttara“ (bls. 13). Dóttir þeirra, Vala, hverfur einn daginn sporlaust og sagan hefst þegar Völu hefur verið saknað í næstum heilt ár. Lesandinn er leiddur inn í heim Kötu sem tilheyrir sértrúarsöfnuði og mætir samviskusamlega á sínar vaktir á krabbameinsdeildinni. Tómas er eins og vofa í bakgrunni alls. Kata rifjar upp fjölskyldulíf sitt og uppvöxt Völu þar sem dúkkuhúsið hennar fær smám saman sérstaka athygli. Vala finnst að lokum látin og það kemur í ljós að henni hafði verið nauðgað, hún myrt og líkið falið í gjótu. Við þessar fréttir brotnar móðirin niður: „Innra með henni slitnaði eitthvað og Kata hnipraði sig saman í myrkrinu, hugsanir hennar urðu eins og glóandi munstur sem hafði enga lögun. Í heiminum sem hún kvaddi fann hún hendur grípa um sig en það skipti ekki máli, hún sökk dýpra og það var gott“ (bls. 51). Kata gengur í gegnum djúpa sorg og rifjar af ákefð upp samband þeirra mæðgna.
Sorg hennar, áfalli og geðrofi er lýst á sannfærandi hátt og það er einn sterkasti hluti sögunni. Margar aukapersónur koma fram og þær varpa enn betra ljósi á Kötu. Þá verða áhugaverð hvörf þegar Kata rennur inn í dúkkuhúsið sem lifnar við. Það reynist hvorki fallegt né saklaust heldur hryllingshús þar sem leynast ofbeldi og ýmsar furður. Hinn kaldhamraði raunsæistexti fær þannig að renna yfir í fantasíuna sem gefur bókinni meiri dýpt og fleiri tóna. Fantasían gengur síðan enn lengra í undarlegri senu þegar Kata tekur á sig líkamlega mynd karlmannsins (setur á sig afskorið höfuð manns sem samlagast henni) og beitir sama ofbeldi og hún hefur sjálf gagnrýnt. Kata er þannig alls ekki einvíð persóna heldur marglaga og fær um að beita alls konar ofbeldi.
Bókin skiptist upp í tólf afmarkaða kafla þar sem frásögnin er yfirleitt í þriðju persónu, þátíð og sjónarhornið alltaf hjá Kötu. Fyrir miðri bók er hins vegar kaflinn ¾ þar sem koma fram dagbókarfærslur Kötu og þá er frásögnin í fyrstu persónu, þátíð og lesandinn fær að komast nær persónunni. Í þeim kafla fylgjumst við með bataferli Kötu og heimildaöflun hennar um nauðganir og ofbeldi gegn konum. Hún tekur sinnaskiptum, skilur við Tómas, hættir í sértrúarsöfnuðinum (reyndar efast ég um að persónugerð hennar og einangrun passi við þátttöku í sértrúarsöfnuði) og sprettur smám saman fram sem útsjónarsöm og sterk kona.
Öll persónusköpun í bókinni einkennist af kulda og fjarlægð. Hvergi glittir í fegurð og þetta skapar ónotatilfinningu hjá lesanda. Kata er ein og virðist ekki í neinum tengslum við eiginmann sinn, stórfjölskyldu eða trúsystkin. Mæðgurnar Vala og Kata eru fjarlægar hvor annarri og viðbrögð foreldranna við vanda Völu í raun hrollvekja út af fyrir sig. Kata er ofurvenjuleg og ekki reynt að kynda undir samúð lesanda með henni. Þó glittir í eitthvað spennandi þegar hún talar um Jón Kalman og hlustar á Barböru Streisand og þess háttar tónlist. Kata tekur upp vinskap við Sóleyju, unga brothætta konu í neyslu. Vináttan við hana fléttast saman við hefndina og þar fær Kata kannski annað tækifæri til að veita þá vernd sem henni tókst ekki að veita Völu. Í lokin taka við útpældar hefndaraðgerðir Kötu með tilheyrandi ofsa, ofbeldi og hryllingi. Þar beitir höfundur stílbrögðum sem þekkjast víða í hrollvekjandi glæpasögum sem er að brjóta upp langdregnar og nákvæmar lýsingar á hversdagslegum hlutum með „hressilegum“ og ýktum ofbeldislýsingum. Lesandinn er þannig dreginn á tálar, hann fær samúð með Kötu, hinni syrgjandi móður, en getur átt erfitt með að samþykkja ofbeldi hennar sem lausn allra mála. Hvað sem því líður þá sér Kata þetta sem einu réttu leiðina og tekur glöð við þeirri refsingu sem af hefndinni hlýst.
Steinar Bragi er hér á svipuðum slóðum og í bók sinni frá hrunárinu 2008, Konum. Í báðum bókum er lýst ofbeldi gegn konum og fullkomnu varnarleysi þeirra. Kata er hins vegar mun stærra verk með víðara sögusviði, fleiri persónum og aðalsöguhetju sem þróast og breytist. Það má segja að skilaboðin hafi verið skýr í Konum en í Kötu eru þau enn skýrari, öskra til okkar svo hljóðhimnur rifna.
Það væri áhugavert að sjá frekari samanburð bókarinnar við þær norrænu glæpasögur sem hafa komið út undanfarin ár. Þar er glæpnum iðulega fléttað saman við beitta, þjóðfélagslega gagnrýni og tekist á við siðferðislegar spurningar. Margir glæpasagnahöfundar daðra líka við hrollvekjuna (t.d. Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur og bækur Stefáns Mána) og bókin Kata sprettur úr þessum sama jarðvegi. Kata kallast líka á við leikritið Karma fyrir fugla sem Þjóðleikhúsið sýndi í fyrra og er eftir Kristínu Eiríksdóttur og Kari Grétudóttir. Í leikritinu var mjög beitt gagnrýni á kúgun og ofbeldi gegn konum með ofsakenndum og sláandi texta, myndum og táknum. Nálgunin í leikritinu var önnur en þó svipaður tónn og í Kötu sem er beittur og sjokkerandi.
Slagkraftur bókarinnar liggur án nokkurs vafa í skilaboðunum sem hún færir. Kata leggst í heilmikla heimildavinnu og kemst að þeirri niðurstöðu að ofbeldi gegn konum sé stærsta samfélagsmein okkar. Kvenfyrirlitningin sem hún afhjúpar er í raun kvenhatur og hún talar í því sambandi um stríðið gegn konum. Þar vitnar hún ítrekað í bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur frá 2009, Á mannamáli. Frásögnin er því á mörkum skáldskapar og raunveruleika, sumar persónur eru til dæmis skáldaðar á meðan aðrar eru nafngreindir einstaklingar úr íslensku þjóðfélagi. Sú samfélagsgagnrýni sem þarna kemur fram hreyfir við lesandanum. Karlar nauðga konum. Karlar svívirða konur. Á hverjum degi. Oft á dag. Gagnrýnin er ekki sett í neinn listrænan búning heldur er hún hrein og bein, óþægileg og harkaleg. Persónulega hefði ég viljað sjá glitta í einhverja fegurð í köldum heimi Kötu því veruleiki sem er gjörsneiddur fegurð er óraunsær og ýktar öfgar. Það breytir því ekki að boðskapurinn er brýnn og höfundi liggur mikið á hjarta. Vonandi á efnið eftir að vekja upp mikilvæga umræðu og verða til þess að við breytum því ofbeldissamfélagi sem við höfum skapað og svo neitað að horfast í augu við.
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply