Aðalpersónan, Jón Borgar, yfirlæknir á taugadeild, er leikin af Hilmi Snæ Guðnasyni. Jón Borgar er ansi taugaveiklaður því að hann þarf að æfa fyrirlesturinn sem hann á að halda á ensku yfir alþjóðlegum hópi áheyrenda eftir rúman klukkutíma. Þetta er enginn venjulegur fyrirlestur, heldur sjálfur Hippokratesarfyrirlesturinn, haldinn á fimm ára fresti, (og hér reikna ég með að ég hafi náð athygli Hugvísindasviðs og kannski Heilbrigðisvísindasvið líka, því hver hefur ekki verið á elleftu stundu með mikilvægan fyrirlestur?), nema hvað aumingja maðurinn fær engan frið til að æfa sig af því að í sameiginlegu vinnurými lækna hleypur fólk fram og aftur, út og inn, tilkynnir Jóni Borgari að hann sé faðir 18 ára sonar sem hótar að stökkva út af svölunum,fólkið dansar, dulbýr sig, talar tungum, grínast, syngur, skiptir um kyn, gerir margt sem stríðir gegn Hippokratesareiðnum, gamall karl og yfirlæknir sjúkrahússins stelast í jólavínið, fólk dregur sig saman og sundur – en allt endar þetta vel að lokum. Áhorfendur grétu úr hlátri en ég var meira í glottinu – ekki laus við áhyggjur af því að fyrirlesturinn yrði aldrei haldinn. J
Gamalt vín á nýjum belgjum
Ray Cooney (1932-) er breskur gamanleikjahöfundur. Hann var leikari sjálfur áður en hann hóf feril sinn sem leikritahöfundur árið 1946 og þykir hafa mjög gott auga fyrir hinu sjónræna og sviðsvinnunni. Hann hefur með réttu verið gagnrýndur fyrir að vera karlrembusvín, gamaldags, léttdónalegur, léttvægur en hann nýtur samt viðurkenningar fyrir að hafa auga fyrir fjölda hliðarsagna og hröðum skiptingum sem er aðalsmerki gamanleikjahöfunda.
Gísli Rúnar Jónsson þýðir og staðfærir verkið og er þar af leiðandi lykilmaður í að koma bröndurum til skila og aukamerkingum í tilsvörum, þegar það tekst verður það mjög til dæmis í skammstafanafargani sjúkrahússins: dæmi (eftir minni) DVK = (sjúklingur)dauður við komu og BKP = borgaralega klæddur prestur. Takist slík stað- og tímafærsla verður það brillíant, takist hún ekki verður það hallærislegt. Hvort tveggja sjáum við í Beint í æð.
Að þetta skuli vera farsi um lækna er kaldhæðni örlaganna í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu hér og nú. Hópurinn fellir inn í sýninguna vísun til þess sem er að gerast í íslenska heilbrigðiskerfinu og meira að segja Faraó maurarnir rötuðu samdægurs inn í sýninguna á föstudagskvöld!
Unaðsleg fagmennska
Hilmir Snær og mótleikari hans Grettir Sig (Guðjón Davíð Karlsson) fara algjörlega á kostum í burðarhlutverkunum. Þeir eru vinir en andstæður. Þeir hafa svo mikla tækni, vald á svipbrigðum og tímasetningum, að það er ekki hægt annað en heillast af þeim. Hin karlhlutverkin eru lögga frá Höfn í Hornafirði (Valur Freyr Einarsson) sem eltir son Jóns Borgars sem leitar föðurins, Grímur Briem (Hjörtur Jóhann Jónsson) aðstoðarlæknir sem er ábyrgur fyrir jólaveislu og búningamálum, Frímann (Sigurður Þór Óskarsson) sem var kannski gerður full krakkalegur miðað við að eiga að vera átján ára) , yfirlæknir sjúkrahússins Páll Óskar (Halldór Gylfason) og síðast en ekki síst elliæri sjúklingurinn Manfreð (Örn Árnason) sem var með sitt eigið leikrit í gangi sem þið megið ekki missa af. Allir eiga hrós skilið og fá það hér með.
Yfirhjúkrunarfræðingurinn, Jórunn (Þórunn Arna Kristjánsdóttir), er venjulega leikinn af eldri leikkonu en Þórunn Arna var býsna skaphörð og ekkert vantaði heldur upp á myndugleika Gróu, móður Grettis, sem Sigrún Edda Björnsdóttir lék, þessi glæsilega kona hafði verið durguð svo upp að ég þekkti hana ekki þegar hún birtist. Mótleikarar karlatvíeykisins eru eiginkona Jóns Borgars, Súsanna (Jóhanna Vigdís Arnardóttir), og fyrrverandi hjákona hans, Díana Thors (Maríanna Clara), sem fá fremur lítil hlutverk að moða úr miðað við karlana tvo en fara vel með þau. Lokaútganga Súsönnu varpaði eiginlega íronísku ljósi á allt samspil þeirra hjóna. Verkið er þunnildi en góð afþreying og aðdáunarverð fagmennska í fyrirrúmi.
Leikstjórn
Í viðtölum hefur Halldóra Geirharðsdóttir líkt leikstjórn af þessu tagi við hljómsveitarstjórn. Bak við svona farsa sem byggist á minnst tíu hliðarsögum sem vefast saman, miklum skiptingum, hraða og nákvæmni, er gífurleg vinna. Hér skal sérstaklega nefnd leikmynd Helgu I Stefánsdóttur sem er mjög góð, sótthreinsuð sjúkrastofa í grunninn, þó með aumingjalegum pálma af því að þetta er líka afdrep fyrir lækna. Fjórir útgangar auðvelduðu mikil hlaup og úthendingar og glugginn/svalirnar sömuleiðis.
Það er full ástæða til að óska Halldóru Geirharðsdóttur til hamingju með sýninguna.
Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Óskaland
14. October, 2024Kraftaverkið sem vatt upp á sig
9. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply