[container]
„Við erum rétt að byrja að skoða Njálu,“ segir Bjarni Harðarson bóksali og fyrrverandi þingmaður um skáldsöguna Mörð sem hann hefur nýlega sent frá sér en eins og nafnið gefur til kynna fjallar um Mörð Valgarðsson, eitt helsta illmenni sögunnar. Og þeir eru fleiri fyrrum þingmennirnir af Suðurlandi sem eru við sama arfasátuhorn þessar vikurnar. Guðni Ágústsson hefur sent frá sér bókina Hallgerður, Örlagasaga hetju í skugga fordæmingar.
Báðar þessar bækur staðfesta ekki bara að fornsögurnar eru mörgum Íslendingum kærar heldur benda þær til að að endurvinnslu þeirra í nútímanum sé langt í frá lokið. Þeir Bjarni og Guðni feta í fótspor ýmissa annarra höfunda sem hafa glímt við Njálu á síðustu árum. Þórunn Erlu Valdimarsdóttir gaf út eftirminnilega bók árið 2007 sem heitir Kalt er annars blóð en þar fáum við nútímaútgáfu af sögunni í glæpasöguformi. Í bókinni Mörg eru ljónsins eyru (2010) hélt hún áfram á svipuðum slóðum en með Laxdælu sem efnivið. Áður höfðu Embla Ýr Bárudóttir og Ingólfur Örn Björgvinsson unnið fjórar myndasögur upp úr Njálu handa börnum, en það voru Blóðregni (2003), Brennan (2004), Vetrarvíg (2005) og Hetjan (2007). Loks má nefna leikrit Hlínar Agnarsdóttir Gestaboð Hallgerðar sem frumsýnt var á Sögusetrinu á Hvollsvelli sumarið 2012.
Spurningin er hins vegar hvort og hvers vegna við þurfum að endurnýta þennan gamla sagnaarf? Duga þessar gömlu bókmenntir ekki einar og sér? Guðni Ágústsson segir það ekki vera: „Njála er sjóður fróðleiks og verðskuldar rannsóknir. Sigurður Nordal sagði einhvern tímann að freistandi væri að skrifa upp úr sögunum smásögur til að auðga áhugann á þessum fornu, góðu bókmenntum.“ Í bók Guðna er saga Hallgerðar Höskuldsdóttur rakin. Hún kallar til Guðna af bæjarhólnum á Laugarnesinu en aðspurður sagðist hann einmitt hafa gengið þar oft um og þá hafi saga Hallgerðar leitað á hann og hann skynjað nærveru hennar. „Ég vil draga Hallgerði fram til nútímans. Hún var misnotuð kynferðislega og lögð í einelti sem eru verstu glæpir nútímans. Ég reyni að varpa nýju ljósi á þessa miklu kvenhetju.“
En af hverju leitar Mörður á Bjarna Harðarson? „Það er ávani okkar Sunnlendinga að lesa Njálu aftur og aftur og þá leita persónurnar á mann,“ svarar hann. „Ég hef verið gagnrýninn á kristnitökuna og vil meina að það hafi verið okkar fyrstu pólitísku afglöp að gangast kaþólsku kirkjunni á hönd. Í Njálu er mikill áróður fyrir kristnitökunni og spurning að hve miklu leyti maður á að trúa því. Það er mín skoðun að á landnámsöld hafi verið hér það sem við köllum í dag fjölmenningarsamfélag með mörgum tungumálum og trúarbrögðum og tilheyrandi tortryggni.“ Í skáldsögu Bjarna er það Mörður sjálfur sem talar. Hann er aldraður maður, rifjar upp fortíðina og textinn brotinn upp með samtölum við barnabarn hans.
Af ummælum þeirra Guðna og Bjarna að dæma þarf hver tími að móta sína eigin sýn á Njálu. Það verður spennandi að sjá hvort Mörður og Hallgerður nái athygli lesenda í bókaflóðinu í ár og valda einhverjum óvæntum uppþotum. Ef bækur gætu talað saman væri svo sannarlega gaman að stilla upp Hallgerði Guðna og Merði Bjarna og hlusta á skoðanaskiptin.
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply