Veraldarsaga Péturs Gunnarssonar

[container]

Um höfundinn
Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson er með M.A. – próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hann hefur áður lokið B.A. – prófi í almennri bókmenntafræði og lagt stund á meistaranám í íslenskum bókmenntum.

 Í nýjustu bók sinni segir Pétur Gunnarsson frá því þegar að hann varð skáld. Hann flytur til Frakklands rétt rúmlega tvítugur árið 1968 með þau áform að skrifa prósa en dvölin þar kallaði fram ljóðskáldið í honum. Bókin heitir Veraldarsaga mín og ber undirtitilinn Ævisaga hugmynda. Pétur sagði á Höfundakvöldi í Gunnarshúsi í lok október að titilinn hafi hann átt lengi í handraðanum. Hann hafi sem unglingur rekist á Veraldarsögu Sveins frá Mælifellsá í Skagafirði með fleiru eftir Svein Gunnarsson og sækir hann titil bókar sinnar þangað. Inn á milli prósatextans birtir Pétur átta ljóð sem öll eru úr Splunkunýjum degi, fyrstu bókinni sem hann fékk útgefna, en hún kom út 1973. Sú bók var samin á þessum mótunarárum í Frakklandi og í ferðalögum sem farin voru þaðan víða um Evrópu.

Þó svo að tilgangur dvalarinnar sé fyrst og fremst að sitja við skriftir þá gerist það ekki peningalaust svo Pétur skráir sig í heimspekinám og fær námslán frá Íslandi. Hann lærir um Platon, Sókrates, Descartes, Spinoza og les líka seinni tíma spekinga eins og Roland Barthes, Michel Foucault og Claude Levi-Strauss. Sá sem vekur mesta forvitni hans er hins vegar Karl Marx, bæði kenningar hans og þá ekki síður ævi hans sem Pétur gerir nokkur skil. Hann talar um að uppgötvunin Marx hafi verið ein af nokkrum umpólunum sínum: „Þessar umpólanir sem marka skil og breyta manni. Í mínu tilviki voru það: Bíó. Hestar. Kynhvöt. HKL. Bítlarnir. Ástin og nú síðast Marx.“ (54). HKL stendur fyrir Halldór Kiljan Laxness sem nokkrum sinnum er nefndur í sögunni enda segir Pétur að hann hafi lifað sig „sterklega inn í verk og aðferðir HKL“ (98). Pétur og kærasta hans Hrafnhildur Ragnarsdóttir búa lengstum í borginn Aix-en-Provance og er borginni lýst aðallega með tilliti til þess hvar bókabúðir voru staðsettar en fyrir ungt skáld eru þeir staðir öðrum merkilegri sérstaklega þar sem „franskir tíðka ekki ósið íslenskra að klæða bók í plastverju, í bókabúð geta menn flett og þess vegna lesið heilu bækurnar standandi upp á endann“ (13). Hjónaleysin fóru í fimm mánaða puttaferðalag sumarið 1970 og komu m.a. til Grikklands. Dvölinni þar er eingöngu lýst með sendibréfum sem Pétur skrifaði og sendi heim. Lesendur fá því mjög skemmtilega og skýra mynd af veru þeirra í Grikklandi, þar sem ekki er um að ræða seinni tíma upprifjun þar sem hlutum hættir til að skolast til. Kaflinn heitir Grikklandsreisan og óneitanlega minnir það á bók Halldórs Laxness Grikklandsárið sem er síðust fjögurra endurminningabóka hans. Stóri munurinn er hins vegar sá að Pétur fór til Grikklands en Halldór ekki. Pétur lýsir ýmsum samferðamönnum sínum og má þar til dæmis nefna skáldið Sigurð Pálsson sem var greinilega mjög uppátækjasamur. Sigurður hefur gert þessum tíma nokkur skil í Minnisbók sinni sem út kom 2007. Mest pláss fær hins vegar Ólafur H. Torfason, auk þess sem að Pétur tileinkar honum Veraldarsögu sína, sem segir nokkuð um áhrifavald hans.

Bókin sem er í tíu köflum er ekki einungis saga Péturs og fólksins í kringum hann, heldur er þetta einnig saga fyrstu ljóðabókar hans. Hann hnykkir á sögunum sem hann segir í bókinni með ljóðunum og setur þau í samhengi við þær aðstæður sem þau voru samin í. Þó að sagan snúist aðallega um löngu liðinn tíma í lífi höfundarins þá er stundum stokkið í nútímann og rætt um nýgerða bíómynd eða því lýst þegar Pétur er hálfur ofan í ruslagámi hjá Sorpu að sækja bækur sem hann ætlaði að henda en tímdi því svo ekki þegar að til kastanna kom. Höfundur ávarpar stundum lesandann beint og spyr: „Hvar vorum við nú aftur stödd?“ (131) svona eins og í samtali. Hann skýrir einnig sumt betur út eða jafnvel afsakar sig með setningum sem hann setur í sviga, samanber þegar að hann segir frá kókdrykkju sinni þá bætir hann við í sviga: „(fyrir það fyrirverð ég mig nú)“ (35). Á stöku stað er notað framandi orðalag eins og „…að aka dagafari og náttfari…“ (22) og „… hafi verið ömun af því…“ (33), og stingur það dálítið í stúf í texta sem annars rennur hnökralaust fram.

Það er greinilegt að þessi tími er í endurliti Péturs ákaflega góður tími og er honum lýst með nokkurri nostalgíu þar sem margt var betra en það er nú á dögum. Menn fengu áður ókeypis þríréttaða máltíð í flugvélum á milli landa með léttvíni, ásamt öllum íslenskum dagblöðum þar sem langir bókadómar voru skrifaðir á opnusíður þeirra. „Maður tók þessu eins og sjálfsögðum hlut, hélt að svona ætti það að vera, að svona myndi það alltaf vera“ (128). Veraldarsaga Péturs er mjög skemmtileg aflestrar og gefur góða mynd af því hvernig ungur maður með skáldagrillur nær því að verða fullburða skáld, auk þess sem hann þarf að læra á lífið sem oft er þrautin þyngri.

Deila

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *