Ármann Jakobsson með sína fyrstu barnabók

 

[container] Nýverið gaf Ármann Jakobsson út sína fyrstu barnabók en hún ber nafnið Síðasti galdrameistarinn. Bókin fjallar um strákinn Kára sem þarf skyndilega að hlaupa í skarðið sem galdrameistari ríkisins. Til þess að sanna sig fyrir konungnum Hrólfi kraka verður hann að leysa þrjár krefjandi þrautir. Gallinn er sá að Kári hefur aldrei lært að galdra. Hann fær því hjálp úr ýmsum áttum og smám saman kemur í ljós spennandi flétta hins góða og illa. Ármann hefur áður gefið út tvær skáldsögur, auk fjölda fræðirita. Ármann er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Í skáldsögum sínum hefur hann nýtt norrænan sagnaarf sem sögusvið og það gerir hann einnig í nýjustu bókinni. Ég hitti Ármann eitt mánudagssíðdegi á kaffistofunni í Árnagarði en ég var spennt að fá að vita meira um Síðasta galdrameistarann.

Nú er þetta þín fyrsta barnabók, hvað kom til að þú ákvaðst að skrifa barnabók?

Ég þekki börn á þeim aldri að þau eru farin að lesa barnabækur og mig hefur alltaf langað að gera eitthvað nýtt. Ég reyni að gera aldrei sama hlutinn tvisvar.

Ég hugsaði að þetta efni gæti verið gott, að taka gamlar kringumstæður sögu og gera endinn óvæntan. Börnin væru leidd inn í heim þannig þau myndu skilja hann en síðan þyrftu þau að endurskilja hann. Þetta er kannski svolítil hefð í 20. aldar skáldskap, taka gamlar sögur og reyna að snúa þeim við.

Já, maður gerir ráð fyrir að þú sért að skrifa inn í þessa týpísku fantasíuhefð en svo kemur hún lesandanum í opna skjöldu.

Mér finnst svo leiðinlegt við fantasíuhefðina að maður heldur að hún endi á ákveðinn hátt og síðan gerist það. Ég vildi snúa þessu við og ég byrjaði því með hugmyndina  að endinum.

Fannst þér mikill munur á að skrifa barnabók og fullorðinsbók?

Það er mikill munur á því. Þegar maður skrifar fullorðinsbók getur maður notað sinn eigin stíl, það eina sem maður þarf að hugsa um er að koma honum til skila. Í barnabók þarf maður að passa að stíllinn sé aðgengilegur fyrir börn. Svo er þessi bók söguþráðardrifin á meðan að hinar bækurnar mínar hafa verið persónudrifnar. Í söguþráðardrifnum bókum þá eru atburðirnir aðalatriðið og allt sem mann langar að segja verður að vera innlimað inn í söguna. Því verður söguþráðurinn að tala fyrir frásögnina. Í söguþráðardrifnum bókum eru andstæðurnar í sögunni aðalatriðið og allt sem mann langar að segja verður að vera innlimað í þessar andstæður. Það er ekki pláss til þess að leyfa persónunum að velta fyrir sér hlutunum.

Armann2Allt sem ég hef hingað til skrifað hefur verið nýjar túlkanir á gömlum sögum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég þurfti að finna upp atburðina í sögunni. Þetta á reyndar fyrst og fremst við millikaflann, þegar Kári tekst á við þrautirnar. Ég sýndi svosem enga uppfinningasemi þar, ég reyndi að vinna með klisjurnar.

Já, en síðan koma klisjurnar aftan að manni þegar þeim er snúið við.

Það er eiginlega þema, bæði í sögunni sem heild og í smásögunum inn í sögunni. Þrautin er skilgreind á ákveðinn hátt af hinu góða eða hinu illa en svo er það yfirleitt ekki alltaf þannig. Ég gat líka notað þrautirnar til þess að skapa persónurnar og oft var það leið til þess að koma nýjum persónum inn.

Margar persónurnar eru mjög litríkar. Hróðgeir, vinur Kára, er  t.d. mjög skemmtilegur karakter.

Já hann er mjg steríótýpísk persóna þegar hann er kynntur fyrst til sögunnar en síðan þróast hann í gegnum bókina og á svolítið óvæntan hátt, eða ég vona að svo sé. Mér finnst mikilvægt að vera ekki alltaf með eins fólk.

Kári, aðalpersónan, skiptir oft um nafn í sögunni Ég fór að velta fyrir mér þessum nafnaskiptingum, hvort að þær hefðu einhvern tilgang?

Þetta er fyrst og fremst svona súr húmor, sem ég tek svolítið frá Mel Brooks. Mel Brooks var uppáhaldskvikmyndaleikstjórinn minn þegar ég var barn. Í einni af hans myndum er einn karakter sem heitir Frau Blucher. Alltaf þegar nafn hennar er nefnt  fara hestarnir að hneggja. Allir halda að þetta merkji eitthvað en í rauninni merkir þetta ekki neitt. Þetta er bara súr húmor. Ég valdi þetta einnig því Kári heitir nafni sem öllum finnst venjulegt og fallegt í nútímanum, og því get ég grínast smá með þetta, þ.e. gefið í skyn að það þyki skrýtið og kjánalegt í sögunni. Einnig eru nöfn sem byrja á H mjög algeng í samfélaginu sem ég lýsi. Þetta er tekið úr fornaldarsögunum en af einhverjum ástæðum eru H-nöfn mjög algeng þar, ég veit ekki af hverju. Mér fannst því sniðugt að hafa það. Þetta nafnagrín prófaði ég á börnum og þeim féll þetta í geð.

Samfélagið sem Kári stígur inn í þegar hann kemur til Hrólfs konungs minnir svolítið á önnur samfélög sem standa okkur nær.

Já, mín helsta fyrirmynd í þessu er höfundur Ástríks, René Goscinny, en hann notaði Rómverjana sem spéspegil á nútímasamfélag. Það sem kannski er einkenni á hirðinni er að þetta er pólitískt samfélag. Forgagnsröðunin er skrýtin en kunnugleg, meira er gert úr veislum við hirðina en matargjöfum til fátæka fólksins. Þetta var svolítið skrifað fyrir fullorðna lesendur. Mín hugmynd var því sú að bæði börn og fullorðnir gætu haft gaman af bókinni saman, en ekki endilega af sömu hlutunum. Svo mætti segja að þetta sé mín sýn á stjórnmálin.

Oft er vitnað í þann sagnabrunn sem þú sækir í, en sögurnar eru eiginlega aldrei endursagðar.

Já, mér finnst þetta mikilvægt. Mig langar að gera nýjar sögur sem gerast í fornsögunum. Skuldarbardaga, sem á sér í stað í lokaatriði Síðasta galdrameistarans,  er lýst í Hrólfs sögu Kraka og mig langaði að skrifa sögu sem gerist fyrir hann og gefur vissa sýn á átökin sem gerast í Hrólfs sögu. Mér finnst þetta alveg lögmætt því sagan er í raun sett fram sem þykjustusagnfræði. Þær eru skrifaðar eins og þær hafi gerst í alvöru en í rauninni er þetta mjög ótrúverðugt og frekar eins og goðsagnasagnfræði.

Ég er ekkert að gera mikið úr því hvar þetta gerist, en einhvers staðar í Svíþjóð eða Danmörku. Í miðaldasögunum er þetta bara óljós hugmynd sagnaritarans um svæðið.

Í Hrólfs sögu kraka er löng saga um för hans til Aðils konungs. Hrólfur hefur í hyggju að drepa hann en það tekst ekki. Þessi saga er ekki sögð í bókinni en það þekkja allar persónur hana svo henni er komið til skila óljóst þannig. Vonandi skapar þetta forvitni hjá börnum. Ef þau rekast á söguna muni þau frekar vilja lesa hana.

Helduru að þú skrifir framhald af Síðasta galdrameistaranum?

Ég á ekkert frekar von á því, en ég hef ekki lokað á það. Ég hélt ýmsu opnu sem væri hægt að halda áfram með. Það væri líka hægt að ímynda sér sögu sem gerðist í söguheiminum þarna mitt á milli sögulokanna. Ég stefni þó ekki á framhaldsbók á þessu stigi.

En það gæti verið að ég skrifaði aðra bók sem væri svona með þessu sniði, eða svona afþreyingarbók. Ég kalla þetta afþreyingarbók en forlagið er ekki hrifið af því. Mér fannst gaman að skrifa svona bók og ég prófa kannski aftur þetta form einn daginn.

Guðrún Baldvinsdóttir, meistaranemi í almennri bókmenntafræði.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *