[container]
Gunnar Karlsson fyrrum sagnfræðiprófessor hefur ekki setið auðum höndum síðan hann lét af starfi við HÍ (2009). Líkt og fyrr hefur hann líka valið sér ólík viðfangsefni bæði hvað varðar tímaskeið, efnistök og markhópa. Í Ástarsögu Íslendinga að fornu um 870–1300 sem kom út í lok nýliðins árs (Reykjavík: Mál og menning 2013) heldur hann inn á enn nýjar slóðir í áhugaverðu og umfangsmiklu riti (381 bls., tilvísanir, enskur útdráttur, heimildaskrá, myndaskrá og bendiskrá). Eins og fram kemur í titli afmarkar höfundur tímabil sitt frá upphafi Íslandsbyggðar þar til sögutíma samtímasagna (hér biskupasagna) lýkur (bls. 13).Í þessari athyglisverðu bók fjallar Gunnar um sístætt og fyrirferðarmikið fyrirbæri í mannlegri tilveru þar sem er ástin. Þar einskorðar höfundur sig þó við kynferðislega ást (bls. 279) en fjallar ekki um ást foreldra til barna, barna til foreldra eða aðrar viðlíka kenndir (bls. 285) enda er slík afmörkun algeng og líklega algild þegar orðið ástarsaga er viðhaft þótt ekki sé það notað um rit í Rauðu seríunni.
Víða hefur vissulega í seinni tíð verið fjallað um samskipti kynjanna í sögu Íslendinga út frá mismunandi sjónarhornum. Nú síðast má nefna doktorsritgerð Agnesar S. Arnórsdóttur í því samhengi, Property and Virginity. The Christianization of Marriage in medieval Iceland 1200–1600 (Århus 210). Ástarsaga Gunnars er þó umfangsmesta ritið sem gefið hefur verið út hérlendis um samskipti karla og kvenna á hinu kynferislega sviði og afleiðingar þeirra á miðöldum. Hér má þó minna á brautryðjendaverk Ingu Huldar Hákonardóttur Fjarri hlýju hjónasængur. Öðru vísi Íslandssaga (Reykjavík: Mál og menning 1992 og 1995).
Ástin er lykilfyrirbæri í hugarfars- og jafnvel félagssögu ásamt fæðingunni, dauðanum, reiðinni, hatrinu, hefndinni og ýmsu öðru sem vissulega getur tengst ástinni eða verið afleiðingar hennar þó svo þurfi sem betur fer alls ekki að vera nú á dögum þótt sú væri oft raunin á miðöldum. Höfundur kýs þó að skilgreina rit sitt með nokkuð þrengri hætti og nefnir efni þess „réttarsögu tilfinninganna“ (sjá bls. 11–12) eða „tilfinningasögu“ (bls. 167) og skal hér fremur hallast að síðari afmörkunina þar sem ritið er svo miklu meira en réttarsaga.
Bók sinni skiptir Gunnar í 20 kafla sem bregður nokkru ljósi á fjölþætt efnistök hans. Efnið má þó stúka saman í stærri heildir: Fræðilegan grunn ( einkum kap. 2–4), umfjöllun um ástina eins og hún endurspeglast í mismunandi heimildaflokkum (ljóðum, Íslendingasögum og samtímasögum (Sturlungu og biskupasögum) (kap. 5–7), þematíska umfjöllun um flest sem að kynferðislegri ást lýtur (kap. 8–17) hvort sem um einstaklinga af gagnstæðu eða sama kyni (kap. 18) er að ræða. Þá er Laxdælu með Guðrúnu Ósvífursdóttur ekki að ófyrirsynju helgaður sérstakur kafli (kap. 19) og efnið loks dregið saman í yfirliti( kap 20). Er líklegt að ólíkir lesendur muni hafa mismikinn áhuga fyrir hinum ýmsu hlutum efnisins en auðvelt er að fóta sig í ritinu með hjálp óvenju greinargóðs efnisyfirlits auk bendiskrár (sjá síðar).
Gunnar Karlsson hefur víða leitað fanga til þessa rits síns og aflað sér undraverðrar yfirsýnar yfir efni miðaldarita um ástina og kynlífið í margbreyttum myndum þess. Þá virðist hann vel áttaður í fræðilegri umfjöllun um efnið. Hér skal þó staldra við fræðilegt atriði sem lýtur að sjálfu grundvallarhugtakinu ást og fyrirbærinu sem slíku. Við lestur ritsins vakna oft efasemdir um hvort raunhæft sé að ræða um ást á sögutíma bókarinnar, öndverðum miðöldum, og ást í nútímanum eins og um sama eða sambærilegt fyrirbæri sé að ræða. Hér er ekki ýjað að því að við nútímafólk og tilfinningar okkar séu á einhvern veigamikinn hátt öðru vísi en miðaldamenn, karlar og konur, og kenndir þeirra. Það sem átt er við er að félagslegt umhverfi ástarinnar og þess vegna réttarstaða hennar er með allt öðrum hætti nú en gerðist á miðöldum. Hér skal því sem sé haldið fram að ást í for-nútímalegu samhengi sé ekki sama fyrirbæri og ást í nútímasamhengi. Með þessu er sagt að ást Íslendinga á miðöldum hafi félagslega séð ekki að öllu leyti verið sama fyrirbæri og ástir okkar nútímafólks. Með þessu er raunar líka haldið fram að ást okkar Vesturlandabúa þurfi ekki að vera eins og ást t.d. meðal múslima og er þá ekkert fullyrt um að við séum eitthvað öðru vísi en þeir sem einstaklingar.
Almennt er litið svo á að einstaklingshyggja og sjálfsvitund sé með allt öðrum hætti nú en á miðöldum. Þá er einstaklingbundið svigrúm til tilfinninga og tjáningar þeirra miklu meira. Nú er ást almennt kennd sem gerir vart við sig milli tveggja sjálfráðra og jafnrétthárra einstaklinga sem í langflestum tilvikum kallar fram gagnkvæmni, samábyrgð og samstöðu beggja aðilanna. Ef svo er ekki lítum við líklega flest svo á að ekki sé um ástarsamband að ræða heldur ofbeldissamband. Þessi var alls ekki raunin á sögutíma Gunnars. Þá kom konan í langflestum tilvikum ekki fram sem myndugur einstaklingur á sviði ástarinnar heldur ráskuðust aðrir með hana og ást hennar. Svona í einfaldaðri mynd eru flest okkar líklega þeirrar skoðunar að ást sé sjálfsögð ef ekki nauðsynleg forsenda fyrir samlífi tveggja einstaklinga (ef ekki er um skyndikynni að ræða). Áður fyrr var aftur á móti löngum litið svo á að ástin skapaðist af samlífinu og væri afleiðing þess en ekki forsenda. Því virðist mér óhjákvæmilegt í fræðilegri umræðu að greina skarpt á milli þess sem kalla má holdlega ást (þ.e. hinar lífeðlisfræðilegu hliðar ástarinnar) og félagslegrar ástar (þ.e. hvernig ástin er upplifuð, túlkuð og tjáð) líkt og greint er milli líffærðilegs og félagslegs kyns. Þessa virðist mér ekki nægilega gætt í annars ágætu riti Gunnars Karlssonar og valdi það stundum svolítið rómantískri slagsíðu. Ástæðan fyrir þessu er sú að Gunnar stillir eðlis- og mótunarhyggju upp sem of skýrum valkostum þegar um fræðilegan grunn ritsins er að ræða og dæmir mótunarhyggjuna raunar úr leik. — Þeim sem þetta ritar virðist aftur á móti að eðlishyggja sé traustur fræðilegur grunnur til að skilja hina holdlegu ást en mótunarhyggjusjónarmið séu óhjákvæmileg til að fóta sig í breytilegum veruleika hinnar félagslegu ástar.
Höfundur ætlar bók sína fræðimönnum, háskólanemum og „ósérfróðu áhugafólki“ (bls. 13). Þetta er raunar algeng markaðsfærsla svipaðra rita þar sem sérfræðimarkaðurinn er of smár en söguáhugi hefur aftur á móti verið útbreiddur meðal þjóðarinnar a.m.k. fram undir þetta. Sá sem hér rýnir í ritið er þó ekki frá því Gunnari hafi tekist einkar vel til að ná þessu víðtæka og um margt mótsagnakennda markmiði. Þar kemur ugglaust tvennt til: hið áhugaverða viðfangsefni og fjölþætt þjálfun höfundar að miðla rannsóknum sínum og sögulegum rannsóknarniðurstöðum almennt en hann hefur m.a. ritað kennslubækur fyrir flest skólastig.
Loks skal höfundi og útgefandi hrósað sérstaklega fyrir ýtarlega bendiskrá (tæpar 30 bls.) en það er samfelld nafna-, örnefna- og atriðisorðaskrá. Allt of oft er illa staðið að slíkum skrám í íslenskum fræðiritum. Löng hefð er vissulega fyrir nafnaskrám sem nýttust vel á tímum persónuhverfrar sögu. Við nútímafræðimennsku ríður aftur mun meira á að mögulegt sé að slá upp á einstökum hugtökum eða fyrirbærum enda efnistökin nú orðið oftast þematísk með einum eða öðrum hætti.
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply