Virðing fyrir skoðunum annarra

[container]

Um höfundinn

Geir Þ. Þórarinsson

Geir Þ. Þórarinsson er Aðjunkt í grísku og latínu við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Sjá nánar

Margir hafa tekið eftir og bent á að svolítið vanti upp á kurteisi landans í þjóðmálaumræðunni upp á síðkastið. Það eru orð að sönnu. Umræðan er á köflum orðin rætin án þess að fólk kippi sér mjög mikið upp við það og netmiðlarnir eru gróðrastía, ekki síst athugasemdakerfin – eins og þarsíðasta áramótaskaup benti okkur á. Núna síðast gerði Agnes M. Sigurðardóttir biskup þetta að umtalsefni í áramótaávarpi sínu þar sem hún bað fólk meðal annars að væna ekki aðra um hagsmunapot og óheiðarleika. Það er út af fyrir sig ágæt regla þegar við túlkum orð og verk annarra að gera ráð fyrir heilindum og góðum ásetningi, að minnsta kosti þar til annað kemur í ljós.

En biskup bað líka um að virðing sé borin fyrir skoðunum annarra. Ég veit svo sem ekki hvað biskup meinti með þeim orðum, vil ekki gera henni upp skoðanir og ætla ekki reyna að túlka hennar orð sérstaklega með því að rýna í textann. En mér er í sannleika sagt ekki alveg ljóst hvað setning eins og „Þú átt að virða skoðanir annarra“ þýðir alltaf. Því langar mig aðeins að staldra við þessi orð og nota tækifærið til að hugleiða aðeins hvað svona setning gæti þýtt almennt og yfirleitt. Mig grunar nefnilega að ég sé hjartanlega ósammála. Nokkrir túlkunarmöguleikar (misjafnlega sennilegir) koma til greina og ég held að það sé hollt að hafa í huga hverjir þeirra eru og hverjir eru ekki ásættanleg bón. Hér eru fjórar mögulegar útleggingar þessara orða.[1]

„Þú átt að virða skoðanir annarra“ gæti þýtt:

(a) Þú átt að virða rétt annarra til að hafa/tjá sínar skoðanir.
(b) Þú átt að sýna öðru fólki virðingu þegar það lýsir sínum skoðunum.
(c) Þú átt að viðurkenna að skoðanir annarra eru jafn réttmætar/góðar/skynsamlegar og þínar.
(d) Þú átt ekki að gagnrýna skoðanir annarra.

Ef (a) er það sem meint er, þá er það sjálfsagt mál – enda hefur enginn, svo ég viti, reynt að koma í veg fyrir að aðrir geti tjáð skoðanir sínar, þ.á m. um trúmál. Nema þá ef vera skyldi Alþingi því lög sem banna guðlast (þ.e. 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940) eru reyndar eins konar tilraun til þess þagga niður í ákveðnum skoðunum til að hlífa öðrum og eiga að koma í veg fyrir tjáningu ákveðinna skoðana eða í það minnsta ákveðna framsetningu þeirra. Mál- og skoðanafrelsi er samt stjórnarskrárvarinn réttur landsmanna og talinn til almennra mannréttinda. Um það er eiginlega ekki deilt á Íslandi núna á 21. öld.[2]

Ef (b) er það sem er meint, þá er þetta ósköp einfaldlega beiðni um kurteisi; að hjólað sé í skoðunina en ekki manninn, að umræðan sé málefnaleg og án uppnefna og fúkyrða í garð viðmælandans. Það er út af fyrir sig hið besta mál.[3] Þótt málfrelsið verndi reyndar fúkyrði og dónaskap að miklu leyti (og vegi að mínu mati þyngra á metunum en auðsýnd virðing) er ekki þar með sagt að dónaskapurinn sjálfur sé ákjósanlegur. Já, við ættum að koma fram við náungann af virðingu.

Ef (c) er það sem er meint, þá er það á hinn bóginn engan veginn sjálfsagt mál. Þvert á móti eiginlega. Skoðanir eru auðvitað misvel ígrundaðar. Það er afar hollt að temja sér einhvern efa um ágæti eigin skoðana. Þær gætu seinna, í ljósi nýrra gagna eða mótraka, óvænt virst illa ígrundaðar og kolrangar.  En þótt svolítil auðmýkt sé holl og góð, hvílir barasta engin skylda á manni að fallast á að allar skoðanir séu jafn vel ígrundaðar eða bara yfirleitt vel ígrundaðar, skynsamlegar eða sennilegar. Og sumar skoðanir eiga hreinlega alls engan rétt á virðingu manns. Fremur óumdeild dæmi um það væru kannski rasismi, útlendingafælni, andúð á samkynhneigð eða karlremba. Á eitthvað af þessu á skilið virðingu okkar? Ég held ekki. En þetta gildir líka jafnt um allar aðrar skoðanir sem hugsast getur: skoðanir fólks – sama hverjar þær eru – eiga ekki sjálfkrafa rétt á virðingu annarra. Má ég heldur biðja um að menn myndi sér skoðanir og setji þær fram af virðingu við sannleika og réttlæti? Ef þeir sem biðja um að maður virði skoðanir annarra eru að biðja um þetta, að maður viðurkenni að allar skoðanir náungans séu réttmætar, þá hlýtur svarið að vera „Nei!“ Við hljótum að áskilja okkur rétt til að telja sumar skoðanir óskynsamlegar, ósennilegar og illa ígrundaðar, jafnvel óréttmætar og ekki virðingar verðar. Það metum við bara í hverju tilviki fyrir sig þegar við íhugum hvað skoðunin felur í sér og á hvaða forsendum henni er haldið fram. Við skulum samt reyna að hrapa ekki að ályktunum um að náunginn sé auðsýnilega bjáni eða bíræfinn drjóli einungis af því að skoðun hans heldur engu vatni og vera þess ávallt minnug að það er allsendis óvíst að okkar eigin skoðanir standist allar nánari athugun.

Ef (d) er það sem er meint með þessu – að hvað svo sem manni finnist um hinar ýmsu skoðanir ætti maður þó ætíð af virðingu við náungann að halda aftur af sér að gagnrýna þær – þá er það ekki heldur sjálfsagt mál. Auðvitað er stundum betra að halda aftur af sér; það er óþarfi að bera í bakkafullan lækinn, oft má satt kyrrt liggja o.s.frv. En það er fráleitt að að einhverjar skoðanir séu undanþegnar rétti annarra til gagnrýninnar umfjöllunar. Sá sem lýsir sínum skoðunum opinberlega verður að þola það að þær verði ef til vill opinberlega gagnrýndar, jafnvel hispurslaust. Margir virðast halda að (d) sé einmitt hið sjálfsagðasta mál í trúmálum; þar séu skoðanir einhvern veginn slíkar að jafnvel þegar þær hafa verið opinberlega ræddar verði þær að fá að vera óáreittar. Það er helber firra. Það er alveg sama af hvaða tagi skoðunin er eða hver heldur henni fram, forseti Íslands, biskupinn eða hæstiréttur eða bara náuginn; það er skýlaus og óvéfengjanlegur réttur annarra að gagnrýna skoðanir, allar skoðanir. Þeir sem bregðast við gagnrýni með orðunum „Þú verður bara að læra að bera virðingu fyrir skoðunum annarra“ eru líklega sekir um einhvers konar þöggunartilburði. Gagnrýni á að svara eða í það minnsta íhuga; alltént ekki þagga niður. Beiðni um að sumar skoðanir (t.d. trúarskoðanir) verði ætíð hafnar yfir eða lausar við gagnrýni er bæði andlýðræðisleg og hættuleg. Ef þetta er það sem beðið er um hlýtur svarið líka að vera „Nei!“

(a) og (b) eru frekar „banal“ kröfur; léttvægar af því að þetta er alveg sjálfsagt og óumdeilt. Auðvitað má fólk hafa sínar skoðanir og tjá þær líka. Og, já, við eigum almennt og yfirleitt að bera virðingu fyrir öðru fólki. Líklega er einkum tilefni nú til að biðja um um að fólk vandi betur orðbragðið. En satt að segja ætti að vera auðvelt að leiða hjá sér fúkyrði, alltént auðveldara en að leiða hjá sér vel útpælda málefnalega gagnrýni. En (c) og (d) eru allt annað en frómar beiðnir; þvert á móti væru það svívirðilegar beiðnir og geta beinlínis verið hættulegar.

Vandinn er síðan að stundum er engu líkara en að þegar fólk fer fram á að skoðanir annarra séu virtar sé gert út á hvað (a) og (b) eru sjálfsagt mál en samt fylgi (c) eða (d) með í farteskinu ef maður krafsar aðeins í yfirborðið. Maður fær þá á tilfinninguna að það eigi meðvitað eða ómeðvitað að smygla (c) og (d) með þegar leitað er eftir samþykki við (a) og (b). Það hljómar nefnilega vel „að bera virðingu fyrir skoðunum annarra“ en ef það á að þýða eitthvað umfram það að sýna náunganum virðingu og virða tjáningarrétt hans, þá virðist mér þetta ljót bón.

Niðurstaðan er þá þessi. Við eigum að bera virðingu fyrir fólki en ekkert endilega skoðunum þess. Það fer bara eftir hver skoðunin er en skoðanir má alltaf gagnrýna. Engin skoðun er hafin yfir gagnrýni – engin! Að fara fram á annað væri fullkomlega óásættanlegt.


[1] Þessar fjórar túlkanir, sem  hér eru ræddar, eru vitaskuld ekki tæmandi listi. Ég ítreka að í því sem á eftir fer ætla ég ekki að reyna að túlka orð biskups sérstaklega, eigna henni einhverja tiltekna skoðun eða andmæla henni.

[2] Eiginlega ætti með hliðsjón af þessu að vera einboðið að afnema 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

[3] Það er reyndar prima facie ósennilegt að biskup meini þetta þegar hún talar um virðingu fyrir skoðunum fólks af því að hún vill að við strengjum heit um „að bera virðingu fyrir fólki og skoðunum þess“. Af hverju að bæta við „og skoðunum þess“ ef það eina sem hún meinar er virðing fyrir öðru fólki?

Deila

[/container]


Comments

One response to “Virðing fyrir skoðunum annarra”

  1. Valdimar Sæmundsson Avatar
    Valdimar Sæmundsson

    Ég er sammála biskupi að því leyti að það eigi að virða skoðanir annarra en það þýðir ekki að menn þurfi að vera sammála né að menn hafi rétt á að þröngva sínum skoðunum upp á aðra eða lítilsvirða þá fyrir skoðanir sínar. Skoðanir á að rökræða en ekki með upphrópunum eða gífuryrðum og ekki ráðast á persónu þess sem við erum ósammála.
    Í lýðræðisþjóðfðelagi verða allir að hafa heimild til að hafa sínar skoðanir og halda þeim fram, jafnvel þó okkur finnist þær kjánalegar eða óviðfeldnar. Ef fólk hefði ekki haldið fram óvinsælum skoðunum væri þrælahald ennþá leyfilegt og margt fleira sem áður þótti sjálfsagt. Þeir sem studdu þrælahald réttlættu meðal annars þrælahald með tilvitnun í biblíuna eins og nú er gert gagnvart samkynhneigðum.
    Ef allir eru sammála um allt verða litlar framfarir eða breytingar. Hafa þarf í huga að „aðgát skal höfð í nærveru sálar“ og ástæðulaust er að særa að óþörfu. Oft hefur fólk það sem okkur finnast „kjánalegar“ skoðanir sem eru saklausar og skaða engann. Ég þekkti t.d. gamla konu sem trúði á álfa. Ég taldi þetta saklaua skoðun og ástæðulaust að gagnrýna hana enda hefði það valdið sárindum engum til gagns.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *