Sá sem les íþróttasíður eða hlustar á íþróttamenn, eins og ég geri iðulega, kemur fyrr en varir að orðalaginu að „sýna karakter“: Við náðum að halda boltanum vel niðri og sýndum karakter með því að ná að jafna.
Mér finnst fólk ekki sýna mikinn karakter með slíku tali.
Vissulega hef ég sjálfur notað þetta orðalag, en þó finnst mér lítil reisn yfir þeim sem tala svona. Afrekið á íþróttavellinum, sem gjarnan er verið að stæra sig af þegar þetta orðalag er viðhaft, bliknar í mínum huga um leið og þetta hrýtur af vörum þjálfara eða leikmanns.
Orðasambandið er vitanlega bein þýðing, ef þýðingu skyldi kalla, á orðunum „to show character“: Gunners show character to complete comeback. En orðið karakter fer ekki vel í íslenskum munni og er sannarlega ekki ylhýrt á neinn hátt. Að taka sér það í munn er eins og að setja gaddavír upp í sig.
Af því íþróttamenn eru mikið fyrir ögrandi verkefni, skora ég á þá að finna frumlegar lausnir á þessum þýðingavanda. Ekki þar fyrir, íslenskan á nú þegar mörg góð orð sem nýta mætti, t.d. mætti tala um þolgæði, þrautseigju, seiglu og þolinmæði. Það mætti líka segja að liðið hafi ekki gefist upp, menn hafi ekki bugast heldur snúið vörn í sókn og sýnt hvað í þeim býr, svo fáein dæmi séu nefnd. En ég er viss um að finna má frumlegri lausnir sem hæfa sigursælum og vígreifum keppnismönnum samtímans.
Fyrir alla muni sýnið bara ekki „karakter“, það er eitthvað svo „karakterslaust“.
– – –
Es. Í skrifunum hér að ofan felst fagurfræði sem sumir kalla málvöndun eða hreintungustefnu. Ekki er þar með sagt að ég aðhyllist málfasisma, geti ekki umborið nein tökuorð og sé andsnúinn nýsköpun í málinu.
Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Óskaland
14. October, 2024Kraftaverkið sem vatt upp á sig
9. October, 2024Deila
Leave a Reply