Aðalheiður Guðmundsdóttir

Niðurstöður í textasamkeppni

Aðalheiður fyrir framan verðlaunatextann
Aðalheiður fyrir framan verðlaunatextann

Á laugardaginn voru úrslit birt í  textasamkeppni Hugvísindasviðs en hún var haldin í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Öllum nemendum, kennurum og öðru starfsfólki Háskólans var boðið að taka þátt í keppninni.  Hátt í tvö hundruð textar bárust í keppnina og valdi dómnefnd 25 texta af ýmsu tagi til sýningarinnar í Kringlunni.

Dómnefnd fann sterkan kjarna og góða viðleitni í öllu efni sem barst. Hið opna þema skilaði textum þar sem fengist er við persónulega reynslu jafnt sem akademíska hugsun og það í ýmsum formum, s.s. ljóðum, smáprósum, örsögum og stuttum einþáttungum. Í dómnefnd sátu Oddný Eir Ævarsdóttir, Rúnar Helgi Vignisson og Sigurbjörg Þrastardóttir.

Aðalheiður Guðmundsdóttir hlaut fyrstu verðlaun í textasamkeppni Hugvísindasviðs Áttu orð, sem efnt var til í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Úrslit voru tilkynnt laugardaginn 19. mars, í Kringlunni þar sem sýning hefur staðið yfir í rúma viku á 25 bestu textunum að mati dómnefndar.

Aðalheiður er aðjúnkt í þjóðfræði á Félagsvísindasviði og er með doktorspróf í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands. Hún átti tvo af þeim 25 textum sem voru valdir til sýningar. Í fyrstu verðlaun var glæsilegur bókapakki frá Opnu.  Hér má lesa verðlaunatexta Aðalheiðar.

Verðlaunahafar ásamt dómnefnd og Ástráði Eysteinssyni
Verðlaunahafar ásamt dómnefnd og Ástráði Eysteinssyni

Önnur verðlaun hlaut Eiríkur Gauti Kristjánsson, meistaranemi í tungutækni, fyrir ljóðið Kreppufrétt en gestir Kringlunnar greiddu því flest atkvæði. Eiríkur fékk Stóru orðabókina um íslenska málnotkun í verðlaun, en Forlagið og Bóksala stúdenta gáfu þau verðlaun. Hér má lesa ljóð Eiríks Gauta.

Þriðju verðlaun hlaut Þórdís Edda Jóhannesdóttir, meistaranemi í íslenskum bókmenntum, og hlaut að launum tvo árganga af Ritinu auk bókarinnar Rúnir, afmælisrit til heiðurs Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Hér má lesa texta Þórdísar.

Allir verðlaunahafar hlutu jafnframt áskrift að Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *