Orð ársins 2020: Bólusetning

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Steinþór Steingrímsson og Starkaður Barkarson, verkefnisstjórar hjá sömu stofnun, skrifa um val á orði ársins 2021.

Undanfarin ár hefur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum valið orð ársins. Á stofnuninni er upplýsingum um málnotkun safnað árið um kring. Fjölbreyttum textum er stöðugt bætt við svokallaða Risamálheild en þar er nú gífurlegt magn texta, tæplega 1,9 milljarðar lesmálsorða úr nútímamáli. Við val á orði ársins byggir stofnunin á nýjustu gögnum Risamálheildarinnar. Kallaðir voru fram þrír tíðnilistar úr Risamálheildinni: Listi yfir ný orð árið 2021 sem hafa aldrei komið fram áður. Listi yfir orð sem birtust tvöfalt oftar árið 2021 en nokkuð annað ár og listi yfir orð sem birtust oftar árið 2021 en samtals næstu fjögur ár á undan.

Tíðnilistarnir duga þó ekki einir og sér. Til að hafa eitthvað fram yfir önnur orð í vali á orði ársins þurfa orð að uppfylla einhver eða sem flest af eftirfarandi skilyrðum:

  • Þau segja okkur eitthvað um samtímann eða samfélagsumræðuna.
  • Þau hafa möguleika á að lifa áfram í daglegri notkun eða sem minnisvarði um atburði sem áttu sér stað á árinu.
  • Þau eru lýsandi fyrir málnotkun, annaðhvort almennt eða á tilteknu sviði.
  • Þau eru ný í málinu eða gömul orð sem hafa fengið nýja merkingu.

Tíu orð voru valin úr listanum, auk þess sem orð tengd þeim voru skoðuð. Rétt eins og árið á undan þá voru mjög áberandi orð sem tengjast heimsfaraldrinum. En það var ekki aðeins Covid-19 sem herjaði á lungu landsmanna því Reykjanesskaginn minnti á sig og hið sakleysislega Fagradalsfjall hóf að spúa gosmóðu yfir landsmenn. Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda urðu æ umdeildari en önnur mál náði einnig að hleypa landanum kappi í kinn, eins og uppkosningin í norðvesturkjördæmi eða réttmæti slaufunarmenningarinnar.

Hér að neðan segjum við frá þeim tíu orðum sem komu til greina sem orð ársins og fjöllum um þau og skyld orð. Fyrst er fjallað um orðið bólusetning, en það varð fyrir valinu sem orð ársins 2021, og valið röskutt, og í framhaldi fjallað um hin níu sem einnig komu til greina.

Bólusetning (no. kvk.)

Stóraukin notkun orðsins bólusetning og ýmissa skyldra, samsettra orða á seinasta ári fleytti orðinu efst á listann yfir orð ársins 2021. Auk þess hafa bólusetningar sett mark sitt á stóran hluta landsmanna. Flestir mættu í langar raðir til þess að láta dæla í sig áður óþekktu efni undir dynjandi popptónlist og ófáir hafa tekið þátt í hatrömmum umræðum um bólusetningar.

Orðið bólusetning er að sjálfsögðu ekki nýtt af nálinni enda hafa bólusetningar tíðkast á Íslandi allt frá byrjun 19. aldar. Bólusetning hefur þannig um áratugaskeið verið eðlilegur hluti af læknaheimsóknum barna og undirbúningi ævintýragjarnra Íslendinga fyrir ferðalög á framandi slóðir. Einhver umræða um gagnsemi og mögulega fylgikvilla bólusetninga hefur skotið upp kollinum af og til en hún stórjókst á seinasta ári í kjölfar þess að byrjað var að bólusetja gegn kórónuveirunni í upphafi árs. Skyndilega kunni fólk skil á mismunandi tegundum bóluefna og kenndi sig jafnvel við þær. Þannig var Jón Jansen-maður á meðan Pála var Pfizer-kona. Flestir treystu Þórólfi, gerðust bólusetningarsinnar, fylgdust samviskusamlega með bólusetningardagatalinu og mættu glaðbeittir í árgangabólusetningu, á meðan anti-bólusetningarsinnar sátu sem fastast fyrir framan tölvuna og vöruðu við nauðungarbólusetningu. Hálfbólusettir þrömmuðu inn í Laugardalshöll og þóttust fullbólusettir þegar þeir gengu út enda með bólusetningarvottorð upp á það. En gleðin varði stutt því skyndilega voru menn kallaðir til baka í örvunarbólusetningu.

Saga bólusetninga hefst fyrir alvöru þegar bólusett var gegn bólusótt við upphaf 19. aldar. Bólusótt er skæður smitsjúkdómur sem herjaði á menn og kýr fyrr á öldum. Það vakti athygli enska læknisins Edwards Jenner að mjaltastúlkur sem höfðu fengið kúabólu voru varðar gegn því afbrigði bólunnar sem herjaði á fólk. Hann þróaði því bóluefni gegn bólusótt með því að nýta sér kúabóluna. Þannig var fólk varið gegn bólusótt með því að „setja kúabóluna í það“, enda var snemma byrjað að nota orðið bólusetning á Íslandi. Til gamans má geta að enska orðið vaccine (bóluefni) er dregið af latneska orðinu vaccinus, sem útleggst ‘af kúnni’.

Hraðpróf  (no. kk.)

Orðið hraðpróf var mjög áberandi í umræðunni seinni hluta árs en með breyttum sóttvarnarreglum í ágústmánuði var heimilað að nota slík próf til að skima einkennalaust fólk fyrir Covid-19. Markmiðið með breytingunni var að opna samfélagið en samkvæmt sóttvarnarreglum þurfa þeir sem sækja viðburði sem fara yfir tiltekinn mannfjölda að framvísa neikvæðu hraðprófi sem ekki má vera eldra en tveggja sólarhringa gamalt. Hraðprófin þurfa að vera tekin á vottuðum stöðum af heilbrigðisstarfsmönnum eða þeim sem hafa hlotið sérstaka þjálfun.

Hraðpróf eru mótefnavakapróf (antigen-próf) og þau mæla prótein sem finnst á yfirborði veirunnar og gefa þar með upplýsingar um hvort viðkomandi er með kórónuveiruna í líkamanum. Prófin eru kölluð hraðpróf vegna þess hve skamman tíma tekur að fá niðurstöðu úr þeim en hún getur legið fyrir einungis korteri eftir að prófið er gert. Aftur á móti getur tekið um sólarhring að fá niðurstöðu úr PCR-prófi sem eru talin áreiðanlegri til að greina kórónuveiruna.

Slaufunarmenning (no. kvk.)

Á vefnum ordabokin.is er slaufunarmenning skilgreind sem það ‘þegar hópar eða samfélög útskúfa einstaklingum eða hætta að hlusta á þá og taka mark á þeim vegna sjónarmiða, skoðunar, eða hegðunar’. Undanfarið hefur mikið hefur verið rætt um réttmæti og gagnsemi þess að útiloka eða jaðarsetja einstaklinga sem hafa á einhvern hátt brotið gegn skráðum og óskráðum reglum samfélagsins, yfirleitt í tengslum við kynbundið ofbeldi. Oftast er þá um þekkta einstaklinga að ræða og telja þá ýmsir að með hegðun sinni hafi þeir fyrirgert rétti sínum til að vera í sviðsljósinu. Þá er jafnvel hvatt til sniðgöngu á sýningum eða öðrum listrænum afurðum sem þeir eiga aðild að.

Eins og oft er þegar ný fyrirbæri skjóta upp kollinum, sem finna þarf orð yfir, getur það tekið nokkurn tíma fyrir nýtt orð að treysta sig í sessi. Þannig var í upphafi talað um cancel-kúltúr, útilokunarmenningu og útskúfunarmenningu, en þau orð koma öll fyrir í Risamálheildinni árið 2020. Orðið slaufunarmenning og slaufunarkúltur koma hins vegar um 80 sinnum fyrir í Risamálheildinni árið 2021 en aldrei árin á undan. Það er því enn óvíst hvert orðanna muni hafa yfirhöndina sem þýðing á enska orðinu cancel culture. Löngum hefur verið talað um að útskúfa eða útiloka fólk en hins vegar hefur sjaldnast verið talað um að slaufa manneskjum. Sagnorðið að slaufa hefur verið notað í merkingunni ‘sleppa e-u eða hætta við e-ð’ og er þýðing á danska orðinu sløjfe (‘taka burt’). Nú er hins vegar talað um að hinni og þessari manneskjunni hafi verið slaufað og þá yfirleitt í þeirri merkingu að einhver hafi verið útskúfaður eða útilokaður fyrir ósæmilega, kynferðislega hegðun. Kannski þessi nýja og afmarkaða notkun sagnarinnar slaufa muni hjálpa orðinu slaufunarmenning að festa sig í sessi.

Kvár (no. hk.) / stálp (no. hk.)

Samtökin 78 kynntu í janúar 2021 nýyrðin kvár og stálp sem tillögur um kynhlutlaus orð yfir kynsegin fólk, þ.e. fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns. Þetta eru svokölluð hýryrði en með hýryrðum er átt við orð sem vísa sérstaklega til hinsegin fólks eða hugtaka sem eru því tengd.

Orðið kvár er ókyngreint nafnorð um fullvaxta manneskju hliðstætt við karl og kona. Orðið er einnig notað sem seinni liður kynhlutlauss orðs fyrir mágur/mágkona og svili/svilkona, þ.e. mágkvár og svilkvár. Orðið kvár er ekki dregið af öðru orði í málinu og er ekki skylt neinu orði. Hljóðafar þess er í samræmi við íslenskar hljóðskipunarreglur.

Orðið stálp er ókyngreint nafnorð yfir manneskju sem er ekki fullorðin og er hliðstætt orðunum stelpa og strákur. Stálp er nýyrði í íslensku en þar sem orðið hefst á st– og hefur –á– og –lp- minnir hljóðafar þess á orðin stelpa, strákur og stálpaður.

Dæmi um orðin kvár og stálp eru ekki mörg en þetta eru þó athyglisverð orð og þá einnig hvað varðar orðmyndun. Óalgengt er að myndaðir séu nýir stofnar til að búa til nýyrði. Kveikjan að slíkum orðum er væntanlega oftast erlent orð. Hér má t.d. nefna orðið tækni sem minnir bæði á íslenska orðið tæki og danska orðið teknik. Kvár og stálp eru nýir stofnar í íslensku og kveikjan að orðin kvár er þá líklega karl og kona og kveikjan að orðinu stálp orðin stelpa, strákur og lýsingarorðið stálpaður.

Uppkosning (no. kvk.)

Alþingiskosningar fóru fram í haust. Ólíkt því sem oft er þá þóttu stjórnarmyndunarviðræður í kjölfar kosninganna heldur óspennandi. Meira fútt var í að fylgjast með framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi, talningu, endurtalningu, útskýringum á talningu og endurtalningu, skorti á útskýringum á misræmi í talningu og svo kröfu um uppkosningu í kjölfarið. En þegar krafa var gerð um uppkosningu vaknaði spurningin um hvað það væri eiginlega og hvers vegna þetta væri kallað uppkosning. Orðið uppkosning er yfirleitt ekki mjög áberandi í samfélagsumræðunni og í hópi áhugafólks um málvöndun á Facebook kallaði fólk þetta óyrði og orðskrípi, að það minnti á uppköst og uppsölur og fagnaði því að orðið væri ekki almennt í umferð.

Uppkosning er lagalegt hugtak. Í lögum um kosningar til Alþingis er kveðið á um að uppkosning sé nauðsynleg ef Alþingi sker svo úr um að þingmenn þess séu ekki löglega kosnir. Orðið finnst í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal. Þar er gefin danska skýringin ‘omvalg’ sem er skilgreint í danskri orðabók sem kosning sem haldin er þegar niðurstöður fyrri kosningar eru ekki afgerandi eða gildar, t.d. þegar mistök koma fram við afstemmingu.

Í Risamálheild sjáum við að notkun orðsins var meiri árið 2021 en nokkru sinni. Orðið var reyndar líka áberandi árið 2011, þó margir séu kannski búnir að gleyma því. Þá snerist umræðan um hvort fara ætti í uppkosningu til stjórnlagaþings, sem sagt að kjósa aftur, en í janúar það ár komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að kosning til þingsins væri ógild þar sem hún hefði ekki verið leynileg. Skemmst er að minnast þess að engin uppkosning fór fram þá, ekki frekar en nú.

Litakóðunarkerfi (no. hk.)

Orðið litakóðunarkerfi kemur 330 sinnum fyrir árið 2021 en einungis 39 sinnum fyrir árið á undan, og þá einkum undir lok árs. Veðurstofan tók upp nýtt viðvörunarkerfi árið 2017 og voru viðvaranir birtar í gulum, appelsínugulum eða rauðum lit eftir alvarleika væntanlegs veðurs. Nokkrum sinnum er vísað til þessa kerfis sem litakóðunarkerfis, en það var ekki fyrr en síðla árs 2020, þegar sú hugmynd var reifuð að nýtast við sambærilegt kerfi til að meta alvarleika kórónuveirufaraldursins eftir landshlutum, að orðið komst í almenna notkun. Þegar hið nýja litakóðunarkerfi var kynnt, í desember 2020, var notast við fjóra liti. Ólíkt litakóðunarkerfi Evrópusambandsins, þar sem hver litur segir til um fjölda smita eða aukningu smita í samfélaginu, en ekkert um aðgerðir stjórnvalda, þá vísa litirnir í íslenska kerfinu til hegðunar sem ætlast er til af almenningi. Þannig eru fjöldatakmarkanir til að mynda minnstar ef grár kóði er í gildi en mestar ef sá rauði er í gildi. Um þetta kerfi hefur almennt staðið lítill styr þó að Kári Stefánsson hafi talið það „heldur spaugilegt“. Meiri umræða fór hins vegar fram þegar litakóðunarkerfið var tekið var upp 1. júní á landamærunum en þá voru ferðamenn flokkaðir eftir því hvort löndin sem þeir komu frá voru flokkuð sem græn, appelsínugul eða rauð, og sluppu þannig sumir við sóttkví. Þótti mörgum sem hagsmunir ferðaþjónustunnar væru þar settir skör ofar hagsmunum almennings.

Litakóðun var reyndar ekki einungis mikið notuð í tengslum við kórónuveirufaraldurinn á liðnu ári heldur einnig vegna eldgossins í Fagradalsfjalli. Veðurstofan gefur út litakóða sem sýnir mismunandi viðbúnaðarstig fyrir flug og á meðan á eldgosinu stóð fylgdist fjöldi landsmanna daglega með upplýsingum Umhverfisstofnunar um loftgæði og önduðu léttar um leið og þeir ráku augun í græna litinn.

Óróapúls (no. kk.)

Jarðhræringar á Reykjanesskaga voru mikið í fréttum á árinu og í fjölmiðlum í marsmánuði var allmikið fjallað um svokallaðan óróapúls sem sást á jarðskjálftamælum suður af Keili. Þetta er skjálftafræðilegt hugtak og er þýðing á seismic tremor. Þá er átt við samfelldan titring í jörðinni sem getur stafað af ýmsum ferlum í náttúrunni. Órói getur stafað af vindi, öldugangi á strönd, vatnsstraumi, eldgosi eða kvikuhlaupum. Í aðdraganda gossins í Fagradalsfjalli varð nokkrum sinnum kvikuhlaupsórói og þétt röð af jarðskjálftum.

Orðið órói er notað í ýmsum tengingum við ferlin sem honum valda, s.s. vindórói, brimórói, vatnsórói, hlaupórói, gosórói. Í íslenskum orðabókum er orðið púls skýrt sem ‘slagæð á úlnliðum’ og ‘sláttur slagæða’ og samsett orð í íslensku sem enda á –púls eru flest úr læknisfræði, s.s. hraðpúls, óreglupúls, skammpúls, úrfellingarpúls. Óróapúls í jarðvísindum hefur að sjálfsögðu ekkert með slagæðar að gera heldur vísar púls þar til höggs eða til stuttrar breytingar á einhverju fyrirbæri sem jafnan er stöðugt. Í ýmsum fleiri fræðigreinum hefur púls þessa merkingu og í Tölvuorðasafninu er t.d. þessa skilgreiningu að finna á orðinu: ‘Breytileiki í gildi stærðar sem varir stutt miðað við viðmiðunartíma. Í lok tímabilsins tekur stærðin aftur upphafsgildi.’ Orðið púls er annars tökuorð í íslensku úr dönsku en það er upprunalega komið úr latínu pulsus sem merkir ‘högg, æðasláttur’, sbr. latnesku sögnina pellere ‘slá’.

Gosmóða (no. kvk.)

Gosinu á Reykjanesskaga fylgdi mikil loftmengun og lá móða yfir byggð þegar vindátt var óhagstæð. Þegar gaus í Holuhrauni árið 2014 var oftast talað um gosmengun en nú virðist áherslubreyting hafa orðið og mun meira fjallað um gosmóðu. Hvort á þessu tvennu sé eðlismunur er ekki ljóst. Af umfjölluninni að dæma virðist vera um sama fyrirbærið að ræða. Gosmóða er að öllum líkindum frekar ný samsetning. Elsta dæmið sem við finnum er úr Morgunblaðinu árið 1989 þar sem orðið er notað í tengslum við móðuharðindin illræmdu en þegar Skaftáreldar runnu 1783–84 lagðist mikil móða yfir landið með skelfilegum afleiðingum.

En hvers vegna er talað um móðu nú, frekar en mengun? Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, sagði í viðtali, haustið 2014, að mikilvægt væri að halda því til haga að eldgos menga ekki, mengun væri afleiðing athafna manna og þess vegna eigi að nota önnur orð um loftstrauma frá eldgosum, tala t.d. um útstreymi brennisteinstvíildis eða styrk brennisteins í lofti. Ekki er útilokað að notkun orðsins gosmóða byggi á sömu hugmynd. Það verður því spennandi að sjá hvort þessi áherslubreyting verði áfram einskorðuð við náttúruhamfarir eða hvort hún breiðist út og komi fram í fleiri samsetningum, t.d. að talað verði um umferðarmóðu eða svifryksmóðu.

Kvikugangur (no. kk.)

Kvikugangur virðist við fyrstu sýn ekki vera nýtt orð. Það er gagnsætt og lýsir fyrirbæri sem er hreint engin nýlunda. Kvikugangur er holrúm nálægt yfirborði jarðar sem bergkvika þrengir sér um. Orðið hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum í tengslum við tvö nýleg eldgos, eldgosið á Reykjanesi 2021 og eldgosið í Holuhrauni 2014. Elsta dæmið sem við fundum er úr útvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 25. júní 2009. Þar segir frá Íslenska djúpborunarverkefninu en í því var borað niður í kviku við Kröflu. Viðmælandi fréttamanns segir í viðtalinu: „Við gátum átt von á því að kannski bora niður í kviku eða einhverja kvikuganga sem kallaðir eru.“ Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur notar orðið svo í viðtali um gosið á Fimmvörðuhálsi en það er það síðasta sem sést af því á prenti þangað til 2014 þegar það er skyndilega á hvers manns vörum. Enda rann kvikan sem kom upp í Holuhrauni um kvikugang frá Bárðarbungu og út í Holuhraun. Það er athyglisvert að orðið er ekki að finna í orðabókum öðrum en Íslenskri nútímamálsorðabók og ekki heldur í nýlegum bókum um jarðfræði. T.a.m. er hvergi minnst á kvikuganga í Íslenskum jarðfræðilykli eftir Ara Trausta Guðmundsson og Ragnar Th. Sigurðsson þó þar sé heill kafli um ganga. Það má því ætla að önnur orð hafi áður verið notuð um þetta fyrirbæri, t.d. gangar og sprungur, en berggangar og kvikuinnskot eru það þegar kvikan hefur storknað og orðið að bergi.

Götuhleðsla (no. kvk.) / hverfahleðsla (no. kvk)

Orkuskipti í samgöngumálum eru í samræmi við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Til að stuðla að aukinni hlutdeild rafbíla í samgöngum hefur þurft að bæta aðgengi að orku og setja upp hleðslustöðvar. Útbreiðsla rafbíla er meðal annars undir því komin að sem víðast sé hægt að hlaða bílana.

Ný orð hafa sprottið fram yfir þessar nýju leiðir til að hlaða bíla raforku. Ekki eiga allir kost á því að hafa eigið bílastæði við heimili sitt til að setja þar upp hleðslustöð eða hafa einfaldlega ekki efni á því. Til að mæta þörfum þeirra sem ekki geta hlaðið bíla sína við heimili sín og gera þeim kleift að eiga og reka rafbíla hafa verið settar upp svonefndar götuhleðslur eða hverfahleðslur þar sem fólki gefst kostur á að hlaða bíla á opnum svæðum, t.d. við leikskóla, skóla, sundlaugar, menningarhús og íþróttamiðstöðvar. Á árinu 2021 voru settar upp 156 götuhleðslur víðs vegar í Reykjavík en síðan var rofinn straumur af þeim í kjölfar kvörtunar um að ekki hefði rétt verið staðið að útboði verksins. Götuhleðslurnar voru tengdar aftur nokkrum mánuðum síðar. Talsvert var fjallað um hleðslustöðvar á árinu, ekki síst þegar slökkt var á götuhleðslunum í Reykjavík.

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila