Sýning Borgarleikhússins á verki Stefáns Halls Stefánssonar, Kjarval, er í einu orði sagt undurfalleg.

Tveir leikarar eru í sýningunni, Haraldur Ari Stefánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Þau leika hlutverk Kjarvals og Tove, konu hans en eins og kunnugt er var Tove eina konan sem Jóhannes Kjarval gat tengt sig við. Með henni átti hann tvö börn og hann reyndi að vera giftur henni en það gekk ekki upp báðum til mikillar sorgar.

Þriðji “leikarinn” í sýningunni er leikmynda- og búningasmiðurinn Guðný Hrund Sigurðardóttir. Leikmynd hennar var lyginni líkust. Verkið er flutt á litla sviðinu og salurinn er klæddur innan með stórum flekum þar sem frægustu málverk Kjarvals eru endursköpuð. Náttúra Íslands er þarna til staðar í sýningunni og dularfull þoka liðast stundum um verkin sem lifna við. Há fellingarík tjöld mynda vatnsmikinn fantasíufoss sem fellur niður á sviðið og lýsingin lætur hann falla bláan, blágráan, blágrænan (í  eftirlætislitum Kjarvals) niður á sviðið og mynda á sem elskendur þurfa að komast yfir til að finnast.  Lýsingin er verk Steinars Snæbjörnssonar og hans manna. Leiksviðið er fullt af steinum, stórum stærri og smærri sem Haraldur Ari og Þuríður Blær stika og stökkva yfir ef þau eru ekki að bresta í dans. Tónlist Úlfs Eldjárns er afar falleg.

Stefán Hallur styðst í leikgerð sinni að hluta við hina vönduðu bók Margrétar Tryggvadóttur um Jóhanns Kjarval fyrir unga lesendur (2019). Sú bók fléttar saman ævisögu Kjarvals og tengir við og sýnir myndir af helstu verkum hans.

Vandamálið er bara að hvorki persóna né saga Jóhannesar Kjarvals er sérstakt barnagaman. Ég veit ekki á hvaða rófi hann var en hann fór sannarlega ekki alfaraleiðir, var fámáll og óútreiknanlegur og ástarsaga þeirra Tove varð harmleikur. Reynt var að vega upp á móti þunganum af þeirri sögu með miklu og hugmyndaríku sprikli og sprelli og kátínu en barnasýningin færðist eiginlega fjær eftir því sem leið á þessa metnaðarfullu og fallegu sýningu.

Ég sá hvergi aldursviðmið í kynningarefni leikhússins en myndi ætla að börn yfir 7 ára aldri nytu sýningarinnar best. Það er sannarlega í þágu leikhúsanna að hafa skýra leiðarvísa um þetta því að barnasýningarnar eru leikhússskóli næstu kynslóðar leikhússunnenda og Borgarleikhúsið hefur sinnt því hlutverki vel.  Ylfingur Kristján Árnason, annar leikhússfélagi minn, hélt athygli alla sýninguna en var orðinn svolítið stúrinn undir lokin. Hann er á fimmta ári og þetta er þriðja leiksýningin sem hann sér. Hann hlakkar mjög til Emils í Kattholti (ég líka).

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila