„Það þarf bara að mæta og þá sérðu hvað málið er.”

Bjöggi Nightshock í Hausum ræðir stemninguna á drum and bass danskvöldum.

Fyrir miðbæjarrottur og aðra dansþyrsta aðila sem hætta sér niðrí bæ um helgar hefur lengi þótt full lítið um að vera í ástandinu sem hefur geysað á landan í covid faraldrinum. Það lokar ennþá snemma á börum borgarinnar, en jafnvel þó að plötusnúðar troði upp og dansvæn tónlist sé spiluð hér og þar koma djammarar oft að tómu dansgólfi og hoppa þess í stað á milli skemmtistaða, fá sér nokkur glös og halda svo vonsviknir heim á leið. Þetta á hinsvegar ekki við um drum and bass kvöldin sem plötusnúðagengið Hausar halda reglulega í miðri viku á skemmtistaðnum Bravó. Undantekningarlaust er pakkað og stemningin rífur í þegar gólfið fyllist og skríllinn nælir sér í útrás fyrir dansþörfina.

„Andrúmsloftið er svo rafmagnað“ segir Björgvin Loftur Jónsson, betur þekktur sem Bjöggi Nightshock, en hann er einn af fimm meðlimum Hausa. Hinir eru þekkir undir nöfnunum Bjarni Ben, Croax, Óli Untitled og Junglizt, en fimmmenningarnir byrjuðu að spila á skemmtistaðnum Faktorý fyrir rúmum áratug. Bjögga finnst fátt skemmtilegra en að fá að spila drum and bass fyrir hóp af sveittum hausum, en nafn flokksins vísar til þess hvernig flestallir sem mæta eru aðdáendur stefnunnar (heads eins og það kallast á ensku, sbr t.d. metal-head). „Þú ert þarna og þú ert stóra stjarnan. Allir eru að gefa frá sér ótrúlega orku og það eina sem þú ert að gera er að gefa til baka,“ útskýrir Bjöggi þegar hann talar um tenginguna milli hans og þeirra sem dansa.

Um síðastliðna helgi héldu Hausar uppi fjörinu með allsherjar viðburði á skemmtistaðnum Húrra þar sem rukkað var inn, ólíkt fimmtudagskvöldunum á Bravó. „Þetta var ótrúlega gaman, ég var örugglega tvo tíma að ná mér niður eftir að ég kom heim,“ segir Bjöggi, en á laugardaginn var myndaðist röð langt út á götu þar til hætt var að hleypa inn.

Þessi tiltekna tónlistarstefna sem Hausar spila flokkast undir þær lystisemdir lífsins sem ekki höfðar til allra. Fyrir sumum hljóma þessir tónar sem glundroði af spíttuðum hávaða, en fyrir öðrum er dynjandi og taktfastur bassinn ómótstæðilegur. Áhugaverðast er hvernig þessi stefna hefur lifað í marga áratugi, en Bjöggi segir okkur aðeins frá sögunni þar á bakvið: „Rótin byrjar áttatíuogeitthvað í fátækum hverfum í Bretlandi. Ungt, svart fólk hafði þá tækifæri til þess að búa til tónlist. Það var að vinna út frá acid house stemningunni frá Bandaríkjunum en snéri henni upp í eitthvað annað. Svo fékk rétt fólk rétt tækifæri á réttum tíma, en þetta verður svo vinsælt bara því það er svo ótrúlega gaman að dansa við þetta.“ Ef hlustað er á drum and bass tónlist frá þessum fyrstu árum má heyra hvernig undirstaðan er sú sama og í dag, en afbrigðin hafa þróast hingað og þangað. Bjöggi heldur áfram: „Svona varð rave tónlistin til sem svo breytist og þroskast í allar þessar áttir; dubstep, garage, jungle, teknó, house og í raun allt sem við þekkjum í dag sem danstónlist.“

Bæði þeir sem spila og dansa við dum and bass álita því að tónlistin sé ekki jafn jaðarmiðuð og flestum virðist í fyrstu. „Þetta leynir á sér,“ segir Bjöggi, „fólk sem heldur að það myndi aldrei fýla þetta þarf bara að mæta einu sinni og sjá stemninguna. Þetta snýst allt um stemninguna. Það þarf bara að mæta og þá sérðu hvað málið er.“ Raunin er líka sú að fleiri en þeir allra hörðustu mæta á kvöldin. „Orðsporið er kannski að þetta sé svona sveitt pulsustemning, fullt af gaurum berir að ofan að dansa sveittir. Ég meina, þeir eru alveg þarna, en hlutfallslega séð mæta alveg jafn margar stelpur og strákar. Hópurinn er rosalega fjölbreyttur og það verður svona keðjuverkun upp á við hvað það er gaman hjá öllum, ekki síst okkur sem erum að spila.“

Hausar
Hausar.

Hausar voru lengi vel með útvarpsþátt á FM Xtra og síðar Kiss FM, en þurftu að leggja hann á hilluna þegar Kiss FM hætti að senda út kvölddagskrá. Strákarnir færðu sig þá yfir á Spotify með þætti í formi hlaðvarps, en þar sem það var lítið sem ekkert talað heldur bara spiluð tónlist tók Spotify þættina á endanum niður þrátt fyrir vinsældir. Bjöggi segir að það sé ekki líklegt að þátturinn haldi áfram, það sé líka nýbakaður faðir í hópnum og minni tími gefist til þess að hittast en áður. Þeir félagarnir ætla þó ekki að hætta að spila fyrir hóp áhorfenda í bráð. „Ég allavega mun ekki hætta fyrr en ég veit að næsta kynslóð getur tekið við,“ segir Bjöggi ákveðinn.

Bjöggi álítur að það verði að vera einhver sem heldur þessari senu við á Íslandi. Það hversu margir mæta á kvöldin til þess að skemmta sér er sönnun fyrir því að fólk hafi brennandi löngun fyrir þessa danstónlist og að það sé samfélagsleg skylda plötusnúða að svara því kalli. Hausar tóku við drum and bass keflinu af hópnum Breakbeat.is en þeir tóku við af hóp sem kallaði sig Skýjum ofar. Þá er spennandi að sjá hverjir taka við næst og halda þannig áfram að fóðra sveitta hausa sem þyrstir í þessa einstöku stemningu sem tromman og bassinn bjóða upp á.

Um höfundinn
Salvör Bergmann

Salvör Bergmann

Salvör Bergmann er meistaranemi í kvikmyndafræði í Háskóla Íslands, en hún lauk þar við BA-gráðu í sama fagi. Hún hefur starfað við kvikmyndagerð á Íslandi og var auk þess penni fyrir ferðaþjónustuvefsíðu, en vinnur núna á gistiskýli fyrir heimilislausar konur.

[fblike]

Deila