Þungt loft, þungar byrðar

Kvikmyndin Moon, 66 Questions er fyrsta mynd gríska handritshöfundarins og leikstjórans Jacqueline Lentzou í fullri lengd en áður hefur hún vakið athygli fyrir stuttmyndir sínar. Myndin var frumsýnd í Frakklandi árið 2020 og er sýnd á kvikmyndahátíðinni RIFF um þessar mundir. Hún segir sögu Artemis (Sofia Kokkali), grískrar unglingsstúlku sem flytur til Aþenu til að sjá um föður sinn, Paris (Lazaros Georgakopoulos), sem hefur veikst skyndilega af MS-sjúkdómnum. Yfirskrift Moon, 66 Questions birtist áhorfendum í byrjun myndarinnar og má þýða einhvern veginn á þessa leið: „Kvikmynd um flæði, hreyfingu og ást (og skort á þessu þrennu).“

Óbærilegur hiti

Það var margt um manninn á kvikmyndahátíðinni RIFF í Bíó Paradís þegar ég fór að sjá myndina og þegar ég kom inn í kvikmyndasalinn tók á móti mér heitt og þungt loft. Um leið og ég settist niður hugsaði ég með mér að mögulega þyrfti að athuga loftræstinguna í salnum, en þegar myndin hófst leið ekki á löngu þar til ég fór að velta fyrir mér hvort að þetta sérkennilega þunga loft hafi átt að vera hluti af áhrifum myndarinnar. Sennilega ekki, en á einhvern ótrúlegan hátt rímuðu aðstæðurnar í bíósalnum vel við sögusvið myndarinnar sem er borgin Aþena í grískum sumarhita. Myndin er hæg og hverfist um aðalpersónuna Artemis sem tekur á sig þungar byrðar í öllum skilningi. Hún býr ein með föður sínum, Paris, og fyrir utan það að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir um líf hans í tengslum við lyf, hjálpartæki og önnur praktísk mál neyðist hún til að aðstoða föður sinn, sem er líklega tvöfalt þyngri en hún sjálf, við allar daglegar athafnir; sjúkraþjálfun, æfingar og klósettferðir. Þannig fylgist áhorfandinn með hinni ungu aðalhetju taka á sig æ meiri ábyrgð og leggja á sig líkamlega vinnu í hitanum í stað þess að njóta sumarsins með jafnöldrum sínum.

Of sannfærandi raunsæi?

Skemmst er frá því að segja að í það minnsta fjórir gengu út af myndinni í Bíó Paradís. Ég skal ekki fullyrða um hver ástæðan var; hún gæti hafa verið loftleysið eða þá einfaldlega þreyta eftir langa helgi á RIFF. Þó að mér sjálfri hafi ekki komið til hugar að ganga út hugsaði ég samt með mér að þessi mynd væri sannarlega ekki fyrir alla. Með hægum og nánast dáleiðandi skotum tekst leikstjóranum að skapa sannfærandi atburðarás, til að mynda eru senurnar þar sem Artemis hjálpar Paris með líkamlegar hreyfiæfingar sérlega áhrifamiklar. Dýnamíkin á milli feðginanna kemur skýrt fram í þessum atriðum og myndhverfist í eins konar dansi á milli þeirra sem er þeim báðum líkamlega erfiður – stundum um of. Samtímis kom mér til hugar að myndin væri nánast of sannfærandi, of þung – að minnsta kosti fyrir þá sem hafa upplifað eitthvað í líkingu við þróunina sem á sér stað í myndinni. Það er ekki hægt að segja að feðginin brosi í gegnum tárin heldur virðist líf þeirra þvert á móti vera þunglamalegt á alla vegu. Þetta gæti að minnsta kosti verið ein skýringin á því að fólk gekk út í miðri sýningu.

Að því sögðu á kvikmyndin þó hrós skilið fyrir að detta aldrei ofan í tilfinningalegar klisjur. Hún fjallar ekki um sjúklinginn Paris heldur um manneskjuna Paris og á bak við hin líkamlegu erfiði sem bæði Artemis og Paris þurfa að þreyja leynist flókið samband foreldris og barns þar sem einhvers konar tengslaleysi eða rof virðist hafa átt sér stað. Í gegnum hið erfiða ferli sem Artemis hefur fyrir höndum sér sem aðstandandi og umönnunaraðili verður hún nánast heltekin af persónu föður síns og byrjar í kjölfarið að grafast fyrir um fortíð hans í tilraun til að skilja hann betur. Þannig nær hægt og flæðandi andrúmsloft myndarinnar að mettast af spennu og vekja forvitni áhorfandans. Í lok sögunnar verða kaflaskil í samskiptum feðginanna en fram að þeim verða litlar sem engar breytingar á samskiptum þeirra, sem alla jafna eru ópersónuleg og einkennast af afskipta– og áhugaleysi Paris, bæði á dóttur sinni og lífinu sjálfu.

Innræn kvikmyndataka eykur á þyngslin

Myndin gerist að stórum hluta inni í húsi þeirra feðgina og þó að kvikmyndatakan sé á köflum áhrifarík þykir mér hún helst til of innræn á heildina litið. Svo virðist sem innra líf Artemis eigi að vera aðalatriðið í vissum senum og þá er jafnvel súmmað inn á andlit hennar í miðju samtali til að beina sjónum að viðbrögðum hennar. Þetta getur virkað í einhverjum tilfellum en verður að mínu mati of fyrirferðarmikil frásagnartækni í myndinni og beinlínis truflandi á köflum þegar hún tekur athyglina frá mikilvægum atriðum í fléttu sögunnar. Sömuleiðis ýkti þetta upp hægaganginn og þyngslin í verkinu sem fór ekki sérlega vel saman við loftið í bíósalnum. Frásögnin sjálf er þó heilsteypt og persónusköpunin sterk, ekki síst fyrir tilstilli aðalleikaranna tveggja sem fara á kostum í myndinni og lyfta verkinu upp á hærra plan. Á heildina litið er Moon, 66 Questions falleg og marglaga kvikmynd sem skilur mikið eftir sig, en þó er ef til vill vissast að þeir sem hyggjast skella sér á hana á RIFF séu búnir að kynna sér efnistökin áður en þeir splæsa í miða.

Um höfundinn
Guðrún Brjánsdóttir

Guðrún Brjánsdóttir

Guðrún Brjánsdóttir er meistaranemi í íslenskum fræðum við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila