Aðför að pólskum háskólum og akademísku frelsi

Eftirfarandi er tilkynning frá nemendum við Háskólann í Slesíu í Katowice, Póllandi, sem hafa verið ofsóttir fyrir að andæfa hatursáróðri innan veggja skólans. Þýðandi er Angrímur Vídalín, aðjunkt við Menntavísindasvið HÍ og fyrrum gestalektor við Háskólann í Slesíu. Hann vinnur nú að ítarlegri grein um málið. Það er trú þýðandans, sem og höfunda textans, að yfirlýsingin eigi erindi við háskólafólk um allan heim, enda sé það ekki aðeins í Póllandi þar sem aðför er hafin að háskólum né heldur verði hún bundin við Pólland í framtíðinni.

Hægt er að setja nafn sitt við undirskriftarlista til stuðnings háskólum og gegn hatorsorðræðu í Póllandi hér.

Yfirlýsing nemenda við Háskólann í Slesíu vegna ógnana sem þau hafa mátt þola af hálfu kaþólsku bókstafstrúarsamtakanna Ordo Iuris

Við viljum að háskólinn okkar sé frjáls undan hatri!

Við erum félagsfræðinemar á þriðja ári við Háskólann í Slesíu og við sættum okkur ekki við hatur í skólanum okkar. Málfrelsi felur ekki í sér rétt til hatursorðræðu! Þess vegna höfum við ákveðið að segja hátt og snjallt NEI við skaðlegum og fordómafullum lygum kennara okkar, dr. Ewu Budzyńska. Ef við stæðum frammi fyrir sömu kringumstæðum aftur myndum við gera eins, þrátt fyrir þá kúgun sem við stöndum nú frammi fyrir. Við viljum að háskólinn sé laus undan hatri og að þar sé komið fram við alla af virðingu og reisn.

Árið 2018 sátum við námskeið dr. Budzyńska. Í krafti stöðu sinnar sem kennari okkar hélt hún því fram í tímum að þungunarrof væri morð, hélt uppi rógi um ýmsa trúarhópa og gekk fram með lygum um börn sem alin væru upp í LGBT+ fjölskyldum. Af fyrirlestrum dr. Budzyńska mátti ráða að múslimar kæmu til Evrópu gagngert til að nauðga og að fjölmiðlar ættu að greina frá trú nauðgara svo fólk fengi séð að það væru einkum múslimar sem væru gerendur í slíkum málum. Í tímum hjá henni vorum við einnig látin sitja undir órökstuddum fullyrðingum um getnaðarvarnir – kennarinn hélt því fram að notkun lykkjunnar jafngilti því að notandinn færi í mánaðarlegt þungunarrof og að börn þessara kvenna fæddust með loftnet í höfðinu. Ennfremur talaði dr. Budzyńska um neyðargetnaðarvarnir sem jafngildi þungunarrofs. Fyrirlestrar hennar voru fullir af hómófóbísku efni, svo sem fullyrðingum um að börn sem alin væru upp af samkynja foreldrum upplifðu alltaf vanlíðan. Hún varaði karlkyns nemendur við því að „deila sæði sínu“ með lesbískum pörum. Þetta eru aðeins fáein dæmi um fáránleikann sem við vorum þvinguð til að hlusta á í tímum hjá henni.

Vegna yfirgengilegrar og blygðunarlausrar misnotkunar dr. Budzyńska á stöðu sinni sem háskólakennari ákvað hópur tólf nemenda að kvarta formlega undan henni við háskólayfirvöld. Í samræmi við verklagsreglur háskólans lenti málið á borði skólayfirvalda og fulltrúa nemenda. Á meðan, án okkar vitneskju, voru lögregla og embætti saksóknara einnig komin með puttana í málið, á grundvelli ásakana á hendur okkur um lygar og fölsun sönnunargagna í því skyni að knýja fram refsiaðgerðir gagnvart dr. Budzyńska. Hverju og einu okkar var stefnt og þess þar með krafist að við gengjumst undir yfirheyrslur lögreglu. Eins og sakir standa höfum við hvert á fætur öðru verið yfirheyrt af lögreglu. Án nauðsynlegra hléa, yfir margar klukkustundir í mjög streituvaldandi aðstæðum, vorum við yfirheyrð um hluti sem voru málinu alveg óviðkomandi. Mörg okkar hafa verið spurð yfir sjötíu spurninga og komið fram við okkur líkt og við værum sakborningar í málinu. Okkur finnst okkur ógnað og við lítum svo á yfirheyrslurnar að þeim sé ætlað að gefa í skyn að kvartanir okkar hafi verið staðlausar. Ennfremur virðist okkur að pressunni af lögregluyfirheyrslunum sé ekki aðeins ætlað að þagga niður í okkur, heldur einnig í yngri kynslóðum nemenda. En við látum ekki þagga niður í okkur, því við trúum því að sérhverri heiðarlegri manneskju beri skylda til að mótmæla útbreiðslu haturs.

Fyrir flest okkar voru þetta fyrstu kynni okkar af lögreglunni. Markmiðið var að ala á sektartilfinningu hjá okkur. En það vorum við sem tókum okkur stöðu með sannleikanum með því að líða ekki róg um múslima, hvort sem er karla, konur eða börn. Þrýstingurinn á okkur að undirgangast þessar yfirheyrslur hefur haft áhrif á andlega heilsu okkar og valdið einum nemanda sálrænu áfalli. Í fyrstu yfirheyrslunum höfðum við ekki einu sinni lögmann okkur til halds og trausts. Þess í stað var fulltrúi bókstafstrúarhreyfingarinnar Ordo Iuris mættur til að ráðast á okkur með gegndarlausum spurningum, en þessi félagsskapur styður Dr. Ewu Budzyńska og gegnir lögmannsstörfum fyrir hana, jafnt fyrir aganefnd háskólans sem rannsókn saksóknaraembættisins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ordo Iuris skiptir sér af starfsemi háskólans; þau hafa þegar komið á fót rannsóknarhópi innan skólans. Þetta eru samtök sem túlka mannréttindi á mjög undarlegan hátt og skipuleggja fyrirlestra og vinnustofur í þágu viðhorfa sem byggja á fordómum og ganga í berhögg við vísindalega þekkingu. Við lítum á afskipti Ordo Iuris sem beina árás á sjálfstæði háskólanna, en einnig sem tilraun til að brjóta á mannréttindum og snúa aftur til þeirra tíma þegar hugmyndafræði kom í stað vísinda. Við nemendur skynjum að vísindalegt frelsi og frelsi háskólanna í Póllandi er nú í hættu. Við sætum kúgun fyrir að segja sannleikann og linnulausum yfirheyrslum er beitt til að pynta og stjórna okkur vegna þess að við nýtum rétt okkar til að verja þau sem gjarnan eru svipt mannlegum réttindum.

Þess vegna tjáum við og munum áfram tjá okkur um það sem nú á sér stað í háskólanum okkar, svo heimurinn fái heyrt í okkur. Háskólar verða að vera frjálsir undan hatursorðræðu og kennarar sem boða hugmyndafræði í stað vísinda ættu að láta af þeirri iðju. Orðræða sem byggir á fölskum upplýsingum og afneitun vísindalegrar þekkingar ætti ekki að vera stunduð innan veggja háskóla.

Gleymum því ekki að empiríska þekkingu þarf að vera hægt að staðfesta og að hún þarf að byggja á rannsóknum sem framkvæmdar eru í samræmi við viðurkennda staðla, þar sem áreiðanleiki og sannreynd aðferðafræði eru lykilatriði. Akademískt frelsi hefur aldrei snúist um að beita nemendur andlegum þrýstingi eða þvinga upp á þá viðhorfum.

Um höfundinn
Arngrímur Vídalín

Arngrímur Vídalín

Arngrímur Vídalín er doktor í íslenskum bókmenntum og aðjunkt í sömu grein við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila