Vill einhver elska…?

„Vill einhver elska 49 ára gamlan mann?“ söng Þursaflokkurinn eftirminnilega fyrir tæpum fjörutíu árum og þeirri spurningu er aftur varpað fram í Kassanum í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir. Í leikritinu Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur fylgjast áhorfendur með hinum miðaldra og nýfráskilda Jónasi Ebeneser (Baldur Trausti Hreinsson) sem hefur gjörsamlega týnt tilgangi sínum í lífinu. Líkt og Jónas sjálfur er sýningin lágstemmd, leikmyndin látlaus og hljóðmyndin notaleg. Þar skipa fastir dagskrárliðir Rásar 1 stóran sess og hversdagsleikinn svífur yfir vötnum. Ör fjallar um einmanaleika og djúpstæða sorg, en styrkleikar verksins felast ekki síst í því hvernig kímnigáfa er notuð til að vega upp á móti hinu alvarlega.

„Ég hef það fínt“

Jónas er órakaður, klæddur í náttslopp og drekkur g-mjólk beint úr fernunni. „Ég hef það fínt“ er viðkvæðið þegar fjölskylda og vinir spyrja út í skilnaðinn, en í raun er Jónas vængbrotinn, týndur og vonlaus. Þá fer tilvera hans endanlega á hliðina þegar hann fréttir að hann er ekki blóðfaðir einkadóttur sinnar, Vatnalilju (Hildur Vala Baldursdóttir). Samband Jónasar við Vatnalilju einkennist af mikilli umhyggju en um leið af tilfinningalegri bælingu og óöryggi. Jónas á erfitt með að tjá tilfinningar sínar og myndi líklega segja sem minnst í verkinu ef ekki væri fyrir tilstilli annarra persóna.

Aðrar helstu persónur eru fyrrnefnd Vatnalilja, Stella (Guðrún Snæfríður Gísladóttir), Svanur (Pálmi Gestsson) og Maí (Birgitta Birgisdóttir). Stella, móðir Jónasar, býr á dvalarheimili og hefur einkennilegan áhuga á stríði og átökum í heiminum. Ólíkt Jónasi talar hún mikið og hefur sterka og kómíska nærveru. Önnur kómísk persóna sem vegur upp á móti flatneskju Jónasar er Svanur, nágranni hans og kórfélagi. Svanur er í veikindaleyfi frá vinnu og kemur reglulega í heimsókn til Jónasar. Svo virðist sem Svanur hafi meiri áhuga á að rækta vináttuna en Jónas, en erfitt er að greina hvor þarf meira á hinum að halda. Nánar verður vikið að samskiptum þeirra síðar.

Innflytjandinn Maí starfar á dvalarheimilinu sem Stella býr á og hefur flúið stríðsátök í heimalandi sínu. Jónasi finnst sínar sorgir blikna í samanburði við það sem hún hefur þurft að þola, en eins og Maí bendir á er sorg eins og glerbrot í hálsinum – það skiptir ekki máli hvað það er stórt. Að vissu leyti er þetta kjarni verksins, en niðurstaðan er sú að maðurinn er eina dýrið sem bæði grætur og hlær. Farin er sú leið í uppsetningunni að láta Maí tala án hreims og það heppnaðist, að mati undirritaðarar, glimrandi vel.

Konur

Gaman er að segja frá því að fleiri konur fara með hlutverk í sýningunni en karlar. Þá snúast samtöl karlanna að mestu leyti um konur, en Svanur er með hitt kynið á heilanum. Hann er giftur og virðist oft einmana þegar hann kemur í heimsókn til Jónasar. Svanur talar mikið um eiginkonu sína en samræðurnar leiðast einnig út í konur almennt og viðkvæma stöðu þeirra á átakasvæðum í heiminum. Þeirri hugmynd skaut upp í huga undirritaðrar að ef ekki væri fyrir nokkur samtöl um bíla og hunda myndi Ör líklega ekki standast Bechdel-próf kvikmyndafræðinnar, það er að segja ef kynhlutverkunum væri snúið við. Prófið samanstendur af þremur þáttum:

1) Í verkinu þurfa að vera minnst tvær nafngreindar konur.
2) Þær þurfa að tala saman.
3) Um eitthvað annað en karlmenn.

„Ég græt alveg“

Ör tekur upp á arma sína hóp samfélagsins sem hefur upp á síðkastið notið þverrandi hylli í íslensku samfélagi: Miðaldra, gagnkynhneigða, hvíta karlmenn. Ekki svo að skilja að þeir njóti ekki enn ríkra forréttinda, en þolinmæðin hefur dvínað. Jónas og Svanur eru gerólíkar persónur en finna stuðning hvor í öðrum. Þeir fara á trúnó á kóræfingu og sjálfsvígstilraun Jónasar breytist óvænt í náttfatapartí þegar Svanur læsir sig úti. „Maður er alveg viðkvæmur“ segir Svanur við Jónas og bætir síðar við, „Ég græt alveg“. Það var skemmtilegt að fylgjast með karlkyns áhorfendum í Kassanum sem margir voru á aldur við Jónas og Svan. Þeir virtust taka undir ýmislegt sem kom fram í samræðunum, en reynsluheimur persónanna var ef til vill ekki svo ólíkur þeirra eigin.

Um höfundinn
Kristín Nanna Einarsdóttir

Kristín Nanna Einarsdóttir

Kristín Nanna Einarsdóttir er meistaranemi í ritlist við Háskóla Íslands og ritstjóri Stúdentablaðsins.

[fblike]

Deila