Svipmyndir af sjálfsmyndum

Borgarleikhúsið frumsýndi verkið HÚH – best í heimi með leikhópnum RaTaTa í leikstjórn Charlotte Bøving föstudaginn 27. september. Í leikhópnum eru fimm leikarar; Guðrún Bjarnadóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir, Hildur Magnúsdóttir, Albert Halldórsson og Guðmundur Ingi Þorvaldsson.

Tígull

Sviðsmyndin er eftir Þórunni Maríu Jónsdóttur sem einnig stendur fyrir búningum og leikgervum. Sviðsmyndin er haganleg og sést vel frá öllum sjónarhornum Litla sviðsins. Hún er byggð upp af flekum með götum og gluggum og dyrum og síðar í sýningunni kom í ljós að flekarnir voru úr svampi og leikararnir léku sér með þá í sögu Guðrúnar Bjarnadóttur um hörmungarnar sem yfirféllu hana þegar hún var lítil. Það var ein af sögunum sem byrjaði harmrænt en var haldið áfram þar til hún fór að minna mig svolítið á atriði Monthy Python hópsins um the Four Yorkshiremen metast á um erfiða bernsku.        Lýsing Björns S Bergsteins Guðmundssonar eltir og leikur sér við leikarana á ferð og flaug um allt húsið. Helgi Svavar Helgason sá um tónlistina ásamt RaTaTam meðlimum, sem eru góðir söngvarar og tónlistarmenn.

Hver er ég – eiginlega….

Út um göt á sviðsmyndinni gægjast leikararnir og koma fram í upphafssenunni, hver á eftir öðrum, og segja á sér deili.  Glimmergellan (Hildur) er svo hamingjusöm og sæt að hún bara verður að segja Facebook linnulaust frá því og birta myndir því til sönnunar. Ofurkonan (Halldóra Rut) vinnur fimm kvenna vinnu á hverjum degi, alltaf hress og kát, en er eins og þaninn strengur og fær krampa af ótta og kvíða við að missa tökin á öllum sjálfsmyndunum. Þarna er barnið sem breytir einelti í skólanum í fantasíu og breytir sér í górillu sem hefur stærð og styrk sín megin (Guðrún Bjarnadóttir). Þarna er maðurinn með geðhvarfasýkina, ör og jákvæður aðra stundina en dapur og grátgjarn hina (Albert) og síðast en ekki síst sveitastrákur sem á hæpnar minningar úr smalamennskum og veit það eitt fyrir víst að hann ætlar ALDREI að verða bóndi. Þessi atriði kynntu persónurnar og sýndu styrkleika þeirra en voru í lengsta lagi.

Viðfangsefni HÚH er baráttan við staðalímyndirnar; þrýstingurinn á að líkjast þeim eða forðast þær sem knýr okkur til að spyrja stöðugt eins og prinsinn: Hver er ég, hver er ég ekki … þar liggur efinn….

Sex persónur í leit að höfundi

Kynningin á leikverkinu HÚH; best í heimi – var svolítið misvísandi því að fleiri en ég hafa áreiðanlega haldið að þetta ætti að vera umfjöllun og ádeila á þjóðrembu og þjóðernisgoðsagnir Íslendinga en sýningin snerist sem betur fer ekki um það.

Sýningin er mósaíkmynd úr sögum og senum, stundum ljúfum, stundum hræðilegum og oft pínlegum. Öfugt við hina formföstu sýningu Ahhh – unna úr ljóðum og sögum Elísabetar Jökulsdóttur, var öllu tjaldað til. Leikgervin voru oft grótesk og leikararnir notuðu fjölbreytilega nálgun að ólíkum hliðum mannlífsins. Það eru ekki allir sem geta lagt sjálfa sig undir si svona í túlkun texta sem segjast vera, og eru trúlega að miklu leyti, ófegraðar sjálfsmyndir af eiginleikum og uppákomum sem geta verið særandi, auðmýkjandi eða bara lummulegar. Þar var oft djarft teflt. Ég hefði gjarnan þegið skýrari innri tengingar milli mósaíkbrotanna, skýrari  þemu eða mynstur. Það hefði styrkt sýninguna að mínu mati.

Ratatatam er einn skemmtilegasti jaðarleikhópurinn í íslensku leikhúsi, hæfileikaríkur og djarfur Hér var leikið með andstæðar tilfinningar eins og ást og hatur, grát og hlátur, sekt og sakleysi, afsökun og ásökun. Það var mikið hlegið á sýningunni, hún vekur til umhugsunar og ég mæli eindregið með henni.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila