Svona fólk

Í heimildarmyndinni Svona fólk (Hrafnhildur Gunnarsdóttir, 2018) er fjallað um réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi á áttunda og níunda áratugnum. Um ástríðuverkefni er að ræða og hefur Hrafnhildur unnið ötullega að skráningu þessarar sögu í 25 ár, eða allt frá árinu 1993. Samhliða frumsýningunni hefur vefur verið opnaður sem gerir efnið sem Hrafnhildur hefur safnað aðgengilegt almenningi – en vefinn má finna hér – en auk þess stendur til að sýna heimildaþáttaröð upp úr sama efnivið á RÚV. Vinnan sem Hrafnhildur og aðrir meðlimir framleiðsluteymisins hafa lagt í þetta verkefni er afskaplega mikilvæg fyrir íslenska söguskráningu þar sem samfélagshópurinn sem fjallað er um er jaðarsettur og gleymist oft í sögubókunum. Í heild sinni er verkefnið því sérlega þörf og kærkomin viðbót í íslenska menningarsögu og eiga þau skilið stórar þakkir fyrir.

Svona fólk samanstendur af viðtölum sem klippt eru saman við annað hljóð- og myndefni. Sumt er opinbert efni á borð við útvarpsviðtöl og fréttaljósmyndir en annað kemur úr persónulegum fórum einstaklinganna sem ljá kvikmyndinni raddir sínar, andlit og sögur. Ekki er tilgreint nákvæmlega hvaða tímabil myndin fjallar um en á að giska er það frá miðjum áttunda áratug fram á miðjan níunda áratug, það er að segja frá því skömmu áður en Hörður Torfason kom út úr skápnum fyrir alþjóð og fram að því að HIV faraldurinn varð sýnilegur. Í gegnum sögur viðmælendanna er gefin innsýn í hvernig það var að hneigjast að sama kyni í íslensku samfélagi þessa tíma. Sagt er frá stofnun samtakanna Iceland Hospitality og síðar Samtakanna ’78 og fjallað er um hvernig þráin eftir félagsskap og samstöðu knúði fólk áfram. Fyrir áhorfendur sem ekki þekkja þeim mun betur til er án efa sláandi að heyra sögurnar beint frá viðmælendum; heyra um einmanaleikann, þögnina og lamandi óttann sem einkenndi líf þeirra sem ekki pössuðu inn í hið gagnkynhneigða norm samfélagsins og um útskúfunina sem vofði yfir fyrir það eitt að vera „eins og maður er“. Mynd- og hljóðdæmi úr íslenskum fjölmiðlum sýna hversu gríðarlegir fordómar ríktu í samfélaginu og bent er á hversu vanmáttugt íslenskt lagaumhverfi var gagnvart hatursglæpum gegn samkynhneigðum. Þetta eru sögur af hinu persónulega, af hinu opinbera, af aktívisma og af skemmtanalífinu. Úr þessu verður blanda sem gefur ágætis innsýn tilveru hópsins, auk þess sem sumir viðmælendanna eru alveg hreint frábærir sögumenn og fá áhorfendur til að glotta annað slagið yfir grafalvarlegu umfjöllunarefni. Að þessu sögðu er ýmislegt sem bæta mætti í efnistökum kvikmyndarinnar og er vel mögulegt að jafn viðamiklu og þungu efni verði betur komið til skila í komandi sjónvarpsþáttaröð.

Hrafnhildur ljáir kvikmyndinni rödd sína sem sögumaður. Hún deilir ýmsum persónulegum sögum og minningum og miðlar jafnframt sögulegum upplýsingum. Útkoman er hins vegar ómarkviss og hlutverk sögumanns er alfarið óljóst fyrir áhorfendum, ekki síst vegna þess að Hrafnhildur kynnir sig ekki í upphafi, heldur eiga áhorfendur að átta sig á því sjálfir um hverja ræðir. Rödd sögumanns gefur þá tilfinningu að litið sé til baka úr nútímanum en þrátt fyrir það er algjörlega sniðið hjá því að ræða hvernig málin standa í dag, engin tenging er yfir höfuð gerð við samtímann. Einnig er fremur undarlegt að í heimildarmynd sem fjallar um hinsegin fólk, er framleidd af hinsegin fólki og kemur út árið 2018 sé viðtölum sem endurspegla úrelt hugarfar miðlað athugasemdalaust. Sem dæmi má nefna að í einu viðtalinu talar viðmælandi um tvíkynhneigð á þann máta að hún felist í “samkynhneigðum athöfnum” annars vegar og í gagnkynhneigðum lífsstíl hins vegar og gefur í skyn að tvíkynhneigt fólk velji eftir hentugleika milli þessara tveggja leiða. Þetta eru úrelt sjónarmið sem tvíkynhneigt fólk í dag berst ötullega gegn. Að framsetja slíkt efni án þess að upplýsa áhorfendur um að það feli í sér vissa tímaskekkju (hvergi er til dæmis tekið fram hvenær viðtölin voru tekin upp) getur orðið til þess að því sé tekið gagnrýnislaust og ýti jafnvel undir fordóma gegn jaðarsettum hóp. Tilvalið hefði verið að útskýra í gegnum rödd sögumannsins að sumar hugmyndir og orðbragð þóttu í góðu lagi fyrir 20 árum síðan en þykja það ekki lengur í dag. Tímarnir breytast og fólkið með – líka hinsegin fólk.

Með markvissari stefnu og skipulagðara upplýsingaflæði gæti Svona fólk verið meira fræðandi heimildarmynd. Mögulegt er þó að reikul efnistökin séu afleiðing þess hve óvenjulega lengi myndin hefur verið í vinnslu. Ýmislegt gæti valdið ruglingi hjá ungum áhorfendum og þeim sem þekkja ekki til sögunnar en þau sem eru fróð um sögu hinsegin fólks eru aftur á móti líkleg til að skilja myndina vel og upplifa mannlega þáttinn á afar sterkan hátt. Það sem stendur upp úr eru sögur viðmælendanna – sögur sem ættu að heyrast miklu oftar – og mikilvægt starf í þágu söguskráningar hinsegin samfélagsins á Íslandi.

Heimasvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila