Þjóðleikhúsið í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning frumsýndi um helgina sýninguna Velkomin heim. Verkið er sýnt í Kassanum og er einleikur. Það er María Thelma Smáradóttir sem leikur og er auk þess höfundur sýningarinnar. Sér til halds og traust hafði hún Andreu Elínu Vilhjálmsdóttur og Köru Hergils, meðhöfunda, leikstjóra og dramatúrga.

Persónuleg og pólitísk

Velkomin heim var persónuleg sýning. María Thelma kynnti sig með nafni fyrir áhorfendum og sagði frá menntun sinni og bakgrunni. Síðan flakkaði hún á milli sögu sinnar og sögu Völu Rúnar, móður sinnar, en sagði alltaf frá í fyrstu persónu. Það var þó alltaf skýrt út frá sjónarhorni hvers hún talaði þar sem ljós og hljóð voru notuð til að marka senuskipti. María Thelma sagði frá því þegar móðir hennar fæddist á hrísgrjónaakri í Taílandi um miðja 20. öld. Vala Rún hefði ung flúið vistir hálfsystra sinna í Taílandi og síðan ofbeldisfullt hjónaband; og ekki upplifað sig heima fyrr en hún hefði kynnst íslenskum flugmanni og flust með honum til Íslands.

Sýningin var ekki síður um upplifun Maríu Thelmu á því að alast upp á taílensk-íslensku heimili eða eins og hún orðaði það: „Við tvískiptan veruleika – á mörkum tveggja menningarheima“. Hún gerði grein fyrir upplifun sinni á því að hafa innsýn inn í báða menningarheima en upplifa sig um leið á mörkum þeirra. Hún sagðist vera þakklát í dag fyrir að skilja hvort tveggja mál og menningu Taílands og Íslands en að unglingsárin hefðu verið erfið. Hún hefði upplifði sig öðruvísi og lýst á sér hárið, notaði bláar linsur og farið í ljós til að „gera það sem hvítar stelpur gera“ í von um að falla betur inn í hópinn. Með því að kynnast sögu móður sinnar og fortíð hennar í Taílandi sagðist María Thelma hafa sæst betur við uppruna sinn.

Sýningin var ekki bara persónuleg; hún var að vissu leyti líka pólitísk. María Thelma vakti áhorfendur til umhugsunar um fordóma á Íslandi. Móðir hennar hefur verið gagnrýnd fyrir að tala ekki nógu góða íslensku. Fólk hefur dregið þá ályktun að faðir hennar hafi keypt mömmu hennar. Sjálf hefur María Thelma upplifað fordóma í starfi sínu sem leikkona. Hún deildi #metoo sögu með áhorfendum. Og hún sagði frá þeim erfiðleikum sem því fylgja að vera ekki talin nógu íslensk í útliti og ekki nógu taílensk og lenda því oft í því að vera „typeköstuð“ eða sett í hlutverk útlendinga. Það komi fyrir að fólk ávarpi hana á ensku eða hrósi henni fyrir það hvað hún tali góða íslensku. Boðskapurinn var skýr: Íslenskt samfélag hefur hingað til verið mjög einsleitt en það þarf að vera rými fyrir fjölbreytileikann.

Sjónræn fegurð

Leikmyndin var einföld en hitti í mark (Eleni Podara). Gólfið og veggirnir voru svartir. Á sviðinu miðju voru þrjár hvítar hrúgur af hrísgrjónum. Svarti og hvíti liturinn kallaðist skemmtilega á. En lífið er ekki svarthvítt og því var flott hvernig ljósahönnunin lýsti upp sviðið. Appelsínugulir, hlýir litir voru áberandi enda tákn fyrir sólina í Taílandi. María Thelma var í hvítum bol, appelsínugulum hlýrabol undir, í gulbrúnum pokabuxum og með gullbelti.

Fæðing Völu Rúnar á hrísgrjónaakrinum var hápunktur sýningarinnar. Upplifunin var sterk. Yfir miðju sviðinu fór að rigna hrísgrjónum. Hljómurinn var fagur og sannfærandi. Það voru þrumur og eldingar. Þær urðu ljóslifandi fyrir áhorfendum þökk sé hljóð-, ljós- og vídeótækni (Tónlist og hljóðmynd: Ragnheiður Erla Björnsdóttir og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir; og ljósahönnun: Hafliði Emil Barðason og Kjartan Darri Kristjánsson). Einnig var flott þegar María Thelma kastaði og skvetti hrísgrjónunum. Það var sjónrænt og hljómrænt. Hrísgrjónin sjálf voru táknræn fyrir sjálfsmynd og uppruna Maríu Thelmu. Hrísgrjónin táknuðu Taíland en þegar leið á sýninguna táknuðu þau einnig Ísland og snjóinn hér á landi. Atriði sem þessi minntu sumpart á danssýningu. Það var greinilegt að kóreografían var úthugsuð, rýmið var vel nýtt og hreyfingar Maríu Thelmu voru fallegar. Hún sýndi góða líkamsbeitingu. Hreyfingar hennar voru auk þess agaðar, eins og sjá mátti meðal annars í upphafsatriðinu þegar hún dansaði taílenskan dans.

Sýningin var upplýsandi og vakti áhorfendur til umhugsunar. Efnistökin voru frumleg og mjög áhugaverð en úrvinnsla hugmyndarinnar var ekki fullkomin. Margt var tekið fyrir í stað þess að eitthvað eitt væri tekið á dýptina. Þar sem sýningin var hvort tveggja í senn persónuleg og pólitísk minnti hún á forsíðuviðtal, þar sem lesendur skyggnast inn í líf einhvers. Lýsingar Maríu Thelmu á heimili sínu studdu við þessa upplifun og voru eins og ljósmyndir sem fylgdu viðtalinu. Orðnotkun Maríu Thelmu var auk þess oft á tíðum formleg líkt og í ritmáli. María Thelma átti góða spretti; hún sýndi færni sína í leik, dans og söng. En hún átti það til að mismæla sig. Hápunktur sýningarinnar var frásögn Maríu Thelmu af fæðingu móður sinnar. Það var virkilega flott hvernig ljós, hljóð, hreyfingar og hrísgrjón unnu saman að því að skapa alvöru leikhúsupplifun. Hljóðmynd og ljósahönnun var í alla staði vel heppnuð.

María Thelma sýndi mikið hugrekki með því að segja sögu sína. Boðskapur sýningarinnar var og er brýnn: Tökum vel á móti fjölbreytileikanum. Á Íslandi eru allir velkomnir – eða eins og enska orðatiltækið segir: „Home is where the heart is“.

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila